Úr sögu Jims H…
Ég fór langa leið með lest inn til Manhattan og sat yfir bjór á bar þangað til ég átti að mæta hjá lækninum. Honum brá ekki vitund þótt ég segðist hafa tapað öllu mínu fé á veðreiðum en það sem hann sagði var ekki upplífgandi. Hann sagði að ég kæmist ekki að fyrr en eftir þrjú ár og þá þyrfti ég fimm til sjö ára meðferð, fimm tíma í viku sem kostuðu sjötíu og fimm dollara hver. Ég vissi að foreldrar mínir hefðu ekki efni á slíku þótt þeir hefðu hvað eftir annað bjargað mér úr kröggum. Ástandið virtist vonlaust, ekki síst þegar læknirinn tók fram að sér gengi yfirleitt illa með spilafíkla.
Margir aðrir læknar höfðu verið álíka svartsýnir á að hægt væri að að ráða bót á spilafíkn minni. Einn sagði: „Þú hefðir meiri líkur á að læknast af banvænu krabbameini.“
Ég hafði mörg hundruð sinnum reynt að hætta á spilaferli mínum sem hófst þegar ég var þrettán ára og stóð til þrjátíu og sjö ára aldurs. Ég spilaði fjárhættuspil í framhaldsskóla, háskóla og herþjónustu. Ég var rekinn úr fjörtíu störfum, tapaði þremur fyrirtækjum, var lagður inn á þrjú geðsjúkrahús, átti í ýmsum útistöðum við lögin og var margoft tekinn og barinn. Ég varð líka áfengissjúklingur og eftir öll þessi ár í ógæfu og eymd varð mér loksins ljóst að hvað mig snerti var eitt glas eða eitt veðmál það sama og hrein geðveiki.
Síðla árs 1961 las ég grein um GA samtökin í blaði í Ohio. Ég sendi bréf í pósthólf i Los Angeles og fékk bækling og lista með tuttugu spurningum fyrir fólk sem taldi sig vera í vanda vegna fjárhættuspils. ÉG svaraði öllum tuttugu spurningunum játandi. Ég skrifaðist á við Jim W. ritara GA. Seinna fékk ég að vita að hann var stofnandi samtakanna. Mér var boðið að koma á fund fólks sem væri að reyna að losna undan oki sjúkdóms sem nefndist spilafíkn.
Á þeim tíma vara enginn GA hópur nær mér en í New York. Lagt var til að ég stofnaði hóp í heimabæ mínum. Ég þekkti marga fjárhættuspilara en sjö árum áður hafði ég reynt árangurslaust að fá suma þeirra til að hætta að leggja undir. Ég hafnaði þessari tillögu. Í staðinn ákvað ég að treysta á viljaþrek mitt og tólf spor a batastefnu GA samtakanna sem skýrt var frá í bæklingnum. Ég hélt út í sjö mánuði og fór þá aftur að drekka og stunda fjárhættuspil jafn óstjórnlega og fyrr. Nú höfðu foreldrar mínir, ættingjar, vinir og vinnuveitendur fengið slíka óbeit á mér vegna drykkju og spilamennsku að ég átti engan að. Faðir minn gaf mér flugmiða til Lor Angeles. Hann sagðist ekki lengur geta bjargað mér úr kröggum mínum og héðan af yrði ég að sjá um mig sjálfur hvað sem á dyndi. Fjölskyldan hefði sagt skilið við mig fyrir fullt og allt. Auðvitað hafði ég oft heyrt þetta áður en nú skildist mér að honum var alvara.
Ég átti að skipta um vél í Chicago og fara um Las Vegast til Los Angeles. Í ljós kom að vélin til Chicago var fullbókuð en ég var fyrstur á biðlista. Allir farþegarnir mættu og ég var settur á biðlista með kvöldvélinni. Þegar ég gekk frá brottfararhliðinu heyrði ég gífurlega sprengingu og fólk þaut í allar áttir. Vélin sem ég hafði ætlað að fara með hafði hrapað í flugtaki og allir um borð fórust.
Ég hafði oft sagt að ég vildi deyja í flugslysi því það tæki fljótt af. Fyrir þessa ferð hafði ég keypt hámarkslíftryggingu, 250 þúsund dollara.
Það hefði nægt til að endurgreiða föður mínum allt sem hann hafði látið af hendi rakna til að lækna mig af spilafíkninni og bjarga mér úr sjálfsköpuðum vandræðum. Í stað þess að fagna því að hafa ekki farist í flugslysinu tautaði ég við sjálfan mig: „Því gat ég ekki verið um borð?“
Daginn eftir kom ég til Los Angeles og um kvöldið fór ég á fyrsta GA fundinn í Gardena. Þar heyrði ég um það bil tuttugu og fimm spilafíkla tala um sjálfa sig og hvað spilafíknin hefði gert þeim. Margir höfðu verið fastagestir í spilaklúbbum í Gardena þar sem fjárhættuspil var löglegt. Sumir höfðu aðeins spilað í nokkur ár, aðrir í tuttugu og jafnvel fjörtíu ár. Allir viðurkenndu að þeir væru vanmáttugir gagnvart spilafíkninni og að líf þeirra hefði verið orðið stjórnlaust. Bindindi þeirra á fjárhættuspil hafði staðið allt frá nokkrum mánuðum upp i þrjú, fjögur ár. Mér var sagt að nýr félagi , eins og ég, væri mikilvægast maðurinn á fundinum; að áframhaldandi líf GA samtakanna byggðist á einu meginstarfi: að miðla boðskapnum til þeirra sem enn þjáðust. Ég talaði síðastur. Ég man að ég sagði: „Guði sé lof að ég hef fundið athvarf. Það er von“
Fundirnir veittu mé aukinn styrk á hverjum degi. Dagarnir urðu að vikum. Ég sá nýja félaga koma á fundi og vonaði að þeir fyndu það sama og GA samtökin höfðu fært mér. Ég sá þjáninguna og óttann víkja úr augum þeirra og brátt voru þeir farnir að brosa og jafnvel hlæja að þeim brjálæðislegu hlutum sem þeir gerðu sem virkir spilafíklar.
Það tók mig þrjátíu og sjö ár að öðlast þennan sálarfrið. Ég fann hann ekki fyrr því áður en ég kom í GA samtökin hafði ég ekki einlæga löngun til að hætta fjárhættuspili. Þegar hún var komin vísuðu GA samtökin mér leiðina til nýs lífs. Þau geta gert það sama fyrir alla sem leita í einlægni leiðar til að losna úr martröð spilafíknarinnar.