GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

Hugleiðing dagsins
Hvað veldur spilafíkn? Spiluðum við vegna einhverra innri galla eða annmarka eða vegna þess hvernig var ástatt fyrir okkur í lífinu? Í Rauðu bókinni okkar A New Beginning segir: “Við vitum það ekki og . . . við megum ekki við því að láta það skipta okkur máli. Þau sem leita til okkar þurfa hjálpina strax . . . Ávinningur af upprifjun hins liðna og vangaveltum um fortíðina er lítilfjörlegur í samanburði við verðlaunin sem við hljótum þegar við hjálpum öðrum að fóta sig í lífinu.” Þó svo að okkur langi öll til þess að losna við galla okkar, þá munu þeir birtast okkur ef við deilum reynslu okkar á heiðarlegan hátt með öðrum. Við höfum séð, að með hjálp okkar Æðri Máttar og með því að hjálpa öðrum GA félögum, þá hefur sjálfselska og ónærgætni verið tekin frá okkur.

Átta ég mig á því að með því að deila með öðrum þá hjálpar það mér að sjá sjálfan mig eins og ég er?

Bæn dagsins
Megi ég, í sjálfsskoðuninni, ekki verða svo upptekinn af eigin göllum og annmörkum, að það geri mig ófæran um að ná til annarra í samtökunum. Megi brestir mínir, sem höfðu magnast upp á meðan ég var virkur, verða mér smám saman ljósir með tímanum, eftir því sem ég held áfram að vinna Prógramið af sannfæringu og einlægni.

Minnispunktur dagsins
Með því að deila þá verða gallar mínir síður nístandi.

Hugleiðing dagsins
Án frelsis frá spilafíkn erum við allslaus. En við getum ekki öðlast frelsið nema vera viljug til þess að takast á við þá persónulegu bresti sem knésettu okkur. Ef við neitum að vinna í göllum okkar, þá mun fíknin næsta örugglega ná aftur tökum á okkur. Ef við höldum okkur frá spilum, með lágmarks bata, þá munum við hugsanlega staðna í notalegu en hættulegu tómarúmi um stund. En áhrifaríkasti batinn felst í stöðugri vinnu, með hjálp Sporanna, og þá munum við sannanlega finna viðvarandi og raunverulegt frelsi hjá okkar Æðri Mætti.

Held ég áfram för minni, fullviss um að ég sé loks á réttri braut?

Bæn dagsins
Megi Guð sýna mér að frelsi frá spilafíkn er óstöðugt ástand nema ég öðlist líka frelsi frá hvötum mínum. Megi Guð forða mér frá því að notfæra mér Prógramið með hálfum hug, og gera mér ljóst að ég get ekki orðið andlega heill að nýju ef ég held áfram að leyfa óheiðarleika mínum og eigingirni að tæta mig í sundur.

Minnispunktur dagsins
Með hálfum huga get ég ekki orðið heill að nýju.

Hugleiðing dagsins
Eftir að hafa unnið Fjórða, Fimmta, Sjötta og síðan það Sjöunda, þá eiga sum okkar það til að setjast niður og bíða þess að Æðri Máttur fjarlægi brestina.GA Prógramið er ekki ósvipað og sagan af heilögum Frans frá Assisi, þar sem hann var við vinnu í fallegum garði. Vegfarandi, sem átti leið framhjá, sagði við Frans “þú hlýtur að hafa beðið þess heitt og innilega að plönturnar myndu verða svona fallegar.” Heilagur Frans svaraði, “Já, það gerði ég. En í hvert sinn sem ég byrjaði að biðja, teygði ég mig í arfasköfuna.” Á þeirri stundu sem “bið” okkar breytist í “vinnu”, þá byrja loforð Sjöunda Sporsins að verða að veruleika.

Býst ég við að minn Æðri Máttur vinni alla vinnuna?

Bæn dagsins
Megi ég ekki falla í þá gryfju að biðja bara og bíða – eftir því að Æðri Máttur sjái um alla vinnuna. Megi ég þess í stað, þegar ég bið, teygja mig eftir þeim verkfærum sem Prógramið hefur fært mér upp í hendur. Megi ég biðja um leiðsögn varðandi hvernig ég geti sem best nýtt mér þau verkfæri.

Minnispunktur dagsins
Biðja og framkvæma.

23.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég heyrði einu sinni lesið á GA fundi, ” Brennið inni í vitund hvers manns að hann getur öðlast bata, óháð öðrum. Eina skilyrðið er að hann treysti guði og hafi hreint borð.” Það er einmitt það sem sjöunda sporið merkir í mínum huga – að ég ætli að hreinsa borðið og muni þiggja alla þá hjálp sem til þarf.

Geri ég mér grein fyrir því að ef ég vinn sjöunda sporið þá er ég ekki að gefa neitt upp á bátinn, heldur er ég þvert á móti að losna við hvaðeina sem gæti raskað ró minni og komið mér til þess að spila aftur?

Bæn dagsins
Megi ég vita að ef ég skyldi gefast upp á því að vera auðmjúkur, sem er lykilatriði fyrir árangri, þá er ég aftur farinn að takast á við of mikla byrði og farinn að halda að ég geti stjórnað. Megi guð í visku sinni gera sinn vilja að mínum, sinn styrk að mínum, sína góðmennsku að minni. Þar sem hann fyllir mig þessum himnesku gjöfum, þar getur ekki verið mikið rými fyrir bresti.

Minnispunktur dagsins
Treysta guði og hreinu borði.

22.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Áður vorum við vön að biðja þess að hlutirnir breyttust – að við yrðum heppin, að ekki kæmist upp um okkur og svo framvegis. GA hefur kennt mér að raunveruleg bæn felst í þvi að biðja guð um breytingu á sjálfum mér. Það er einmitt það sem felst í sjöunda sporinu; að biðja guð í auðmýkt að losa okkur við brestina. Við biðjum guð um hjálp og það merkilega er að ef við virkilega viljum hjálp þáerum við bænheyrð. Útkoman byggir það mikið á okkar eigin vilja að það virðist sem lausnin hafi verið í okkar höndum. En hjálpin frá guði er veigamesti þátturinn; án hans hefðum við ekki getað þetta ein.

Hef ég beðið guð um hjálp við að breyta sjálfum mér?

Bæn dagsins
Megi ég læra að biðja á yfirgripsmikinn hátt – að guðs vilji verði, að guð losi mig við brestina. Það er engin þörf á að tilgreina nákvæmlega í hverju brestirnir felast; Guð veit allt og hann veit hverjir þeir eru. Megi mer lærast að smáatriði eru ekki nauðsynleg í bænum mínum. Það eina sem skiptir máli er auðmýkt og trú mín á að guð hafi í raun þann mátt sem til þarf til þes að breyta mínu lífi.

Minnispunktur dagsins
Að biðja guð um að breyta mér.

Hugleiðing dagsins
Eftir að við höfum gert reikningsskilin í Fimmta Sporinu, urðum við þess “albúin”, eins og segir í Sjötta Sporinu, til þess að losna við þessa skapgerðarbresti. Það er auðvelt, daginn eftir að spilað frá sér allt vit, að vera “albúin” en við vitum að fúsleiki okkar á þeirri stundu kann að litast af eymdinni sem við upplifum á því augnabliki. Eftir því sem lengra líður frá síðasta spilafylleríi, þeim saklausara fer það að líta út í minningunni og jafnvel spennandi.

Er ég reiðubúinn Á ÞEIRRI STUNDU að losna við skapgerðarbresti mína?

Bæn dagsins
Megi ég “vera þess albúinn” að losna við skapgerðarbresti mína. Megi þetta orð “albúinn” endurvekja staðfestu mína skyldi hún dofna með tímanum og bindindi frá spilum. Megi Guð vera minn styrkur, þar sem ég get ekki aleinn losnað við skapgerðarbrestina.

Minnispunktur dagsins
Ég er “albúinn.”

Hugleiðing dagsins
Öll 12 Sporin eiga það sameiginlegt að þau biðja okkur að fara þvert gegn eigin tilhneigingu og löngun; þau gata, kreista og á endanum hleypa þau loftinu úr sjálfsáliti okkar. Þegar kemur að því að hleypa loftinu úr sjálfsáliti þá eru fá Spor eins erfið og Fimmta Sporið, sem krefst þess að við “viðurkennum fyrir okkur sjálfum og annarri manneskju nákvæmlega í hverju yfirsjónir okkar felast.” Fá Spor eru eins erfið og það Fimmta en fá eru eins mikilvæg fyrir lang-tíma frelsi frá spilafíkn og einmitt Fimmta Sporið.

Hef ég hætt að lifa einsamall með kvalafullu draugum fortíðar?

Bæn dagsins
Megi Guð veita mér styrk til þess að horfast í augu við Fimmta Sporið – þann skelfi sjálfsálitsins. Megi ég ekki hika við að deila annmörkum mínum með GA félaga sem ég treysti. Með því að viðurkenna eigin ábyrgð á gjörðum mínum og deila því með öðrum, þá er ég í raun að losa mig við miklar byrðar.

Minnispunktur dagsins
Í kvöl Fimmta Sporsins felst frelsi mitt.

Hugleiðing dagsins
Nýliðar spyrja stundum “Hvernig virkar GA prógramið?” Algengustu svörin sem ég heyri eru “mjög vel” og “hægt.” Ég met bæði svörin mikils, þó þau hljómi spaugilega í fyrstu, því sjálfsskoðun mín á það til að vera gölluð. Stundum kemur það fyrir að ég hef klikkað á því að deila göllum mínum með öðrum; á öðrum stundum hef ég viðurkennt að vera með galla sem ég hef séð hjá öðrum, frekar en mína egin; og á enn öðrum stundum hef ég frekar verið að kvarta yfir vandamálum heldur en að viðurkenna galla í eigin fari. Staðreyndin er sú að engum líkar að grannskoða sjálfan sig í leit að göllum, það niðurbrot stolts sem því fylgir og þá viðurkenningu á eigin göllum sem tólf sporin krejfast. En á endanum sjáum við að GA prógramið virkar í raun og veru.

Hef ég tileinkað mér þau einföldu andlegu verkfæri sem mér bjóðast ?

Bæn dagsins
Megi guð forða mér frá því að viðra mína eigin galla með því að bera þá saman við galla einhvers annars. Við erum þannig úr garði gerð að við berum saman og metum, hugsum “verri en”, “ekki eins slæmt”, eða “betri en.” Megi ég gera mér grein fyrir að galla mínir eru gallar, hvort sem þeir eru “betri” en “annarra.”

Minnispunktur dagsins
Gallar eru gallar, jafnvel þegar þeir eru “betri en.”

18.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Sjálfsblekking var samofin nánast öllum okkar gjörðum og hugsunum, því við erum spilafíklar. Við urðum sérfræðingar í því að telja sjálfum okkur trú um að svart væri hvítt, að rangt væri rétt eða jafnvel að dagur væri nótt. Nú þegar við erum komin í GA þá er þörf okkar fyrir slíka sjálfsblekkingu að hverfa. Nú orðið sér trúnaðarmaður minn um leið þegar ég byrja að ljúga að sjálfum mér. Og ég átta mig á því, þar sem trúnaðarmaður minn beinir þessum ranghugmyndum á braut, að ég gríp æ sjaldnar til slíkra varna gagnvart raunveruleikanum og óþægilegs sannleika varðandi mig sjálfan. Stolt mitt, ótti og þekkingarleysi hefur í kjölfarið smátt og smátt glatað þeim eyðileggingarkrafti sem það hafði yfir mér.

Geri ég mér grein fyrir því að eigin upphafning nægir engan veginn?

Bæn dagsins
Megi mér skiljast að ég verð að líta til míns æðri máttar og einnig að treysta félögum mínum í GA í sjálfsskoðuninni í fjórða sporinu. Því við speglum hvert annað í öllum okkar órum og ranghugmyndum og með þeirri speglun öðlumst við heildstæðari yfirsýn, sem við gætum ekki ef við værum ein á báti.

Minnispunktur dagsins
Til þess að sjá sjálfan mig frá öllum hliðum þá þarf ég þrjú sjónarhorn – mitt eigið, guðs og vina minna.

17.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Í fjórða sporinu er lagt til að við gerum óttalaus siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil á lífi okkar – ekki siðlausa skrá um okkur sjálf. Sporin eru leiðarvísir að bata, ekki tæki til þess að hýða okkur með. Að gera reikningsskil á lífi sínu þýðir ekki að einblína eigi svo á gallana að kostirnir hverfi algjörlega. Á sama hátt þýðir það að sjá hið góða í sjálfum sér ekki endilega að maður sé hrokafullur né fullur sjálfbirgingsháttar. Ef ég lít á kosti mína sem guðs gjöf, þá get ég gert reikningsskil á lífi mínu af sannri auðmýkt og um leið fundið til yndis vegna þess sem er ljúft, ástríkt og drenglynt í fari mínu.

Ætla ég að trúa, eins og Walt Whitmann orðaði það, “Ég er meiri, betri en ég hélt; ég vissi ekki að innra með mér byggi svo mikil góðmennska….”?

Bæn dagsins
Þegar ég uppgötva góða hluti í mínu fari, eftir því sem ég kafa dýpra í kosti mína og galla, megi ég þá þakka þeim sem á þakkrinar skyldar – Guði, þeim er færir okkur hið góða. Megi ég kunna að meta hvaðeina sem er gott í mínu fari með auðmýkt, sem gjafar frá guði.

Minnispunktur dagsins
Góðmennska er guðs gjöf.