GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

4.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Ein besta leiðin til þess að losna úr sjálfsvorkunar gildrunni er að færa “skyndi bókhald.” Fyrir hverja eymdarfærslu gjaldamegin í bókhaldinu, þá getum við örugglega fundið eitthvað lán eða blessun sem við getum skráð í tekjuhliðina; góð heilsa, sjúkdómur sem við þjáumst ekki af, þeir vinir okkar sem okkur þykir vænt um og sem þykir vænt um okkur, sólarhringur án fjárhættuspila, gott dagsverk. Ef við bara gefum okkur smá stund og veltum hlutunum fyrir okkur þá getum við auðveldlega fundið mýmargt jákvætt sem vegur mun þyngra en þær fáu eymdarfærslur í bókhaldinu, sem við byggjum sjálfsvorkun okkar á.

Er andlegt jafnvægi mitt á jákvæðum nótum í dag?

Bæn dagsins
Megi ég læra að greina í sundur gjalda- og tekjufærslur í tilfinningalífi mínu. Megi ég færa til tekna hin fjölmörgu lán og þá blessun sem mér hlotnast. Megi niðurstaða bókhaldsins, sýna mér svo ekki verði um villst, að ég hef úr digrum sjóði jákvæðra færslna úr að moða

Minnispunktur dagsins
Ég hef margt jákvætt í mínum fórum.

3.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Tólf Sporin voru hönnuð fyrir fólk eins og okkur – sem styttri leið til Guðs. Sporin eru keimlík sterku meðali sem getur læknað okkur af krankleika örvæntingar, vanmáttarkenndar og sjálfsvorkunnar. Þrátt fyrir það erum við stundum treg til þess notfæra okkur Sporin. Af hverju? Kannski vegna þess að innst inni þráum við að vera fórnarlömb. Meðvitað og vitsmunalega teljum við okkur vilja hjálp en einhver dulin sektarkennd gerir það að verkum að við þráum refsingu umfram lausn.

Get ég reynt að vera kátur, þegar allt virðist leiða mig til örvinglunar? Átta ég mig á því að örvinglaun er oftar en ekki gríma fyrir sjálfsvorkunn

Bæn dagsins
Megi ég draga fram í dagsljósið hina földu sektarkennd sem leynist innra með mér og sem fær mig til þess að vilja refsa sjálfum mér. Megi ég kanna eigin örvinglan og átta mig á því hvort hún sé í raun svikari – sjálfsvorkun með grímu. Nú þegar ég veit að Tólf Sporin geta fært mér lausn, megi ég þá nota þau í stað þess að veltast um í eigin vanlíðan.

Minnispunktur dagsins
Sporin Tólf eru tröppur Guðs.

2.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Þegar ég byrja að bera saman líf mitt og annarra, þá byrja ég að færast nær og nær hinu myrka feni sjálfsvorkunar. Ef ég, á hinn bóginn, hef á tilfinningunni að það sem ég er að gera sé rétt og gott, þá minnkar þörf mín fyrir viðurkenningu og samþykki annarra. Lófaklapp er fínt og gott, en er ekki ómissandi fyrir mína innri hamingju. Ég tileinka mér GA prógramið til þess að losna við sjálfsvorkun, ekki til þess að auka mátt hennar til þess að eyðileggja mig.

Er ég að læra af öðrum hvernig þau hafa unnið úr sínum vandamálum, svo ég geti gert það sama við mín vandamál?

Bæn dagsins
Guð, lát mig ætíð vera vakandi fyrir því hvaðan ég kem og þeim nýju markmiðum sem ég hef verið hvattur til að setja mér. Megi ég hætta að leyta eftir viðurkenningu frá öðrum og fara að upplifa eigin sjálfsvirðingu, sjálfsmat og sjálfsálit þegar ég veit að ég hef unnið til þess. Hjálpa mér að gera sjálfan mig aðlaðandi í eigin augum, svo það megi skína í gegn, í stað þess að leita stöðugt aðdáunar utan frá. Ég er þreyttur á að vera í hlutverki og búningi, Guð; hjálpaðu mér að vera ég sjálfur.

Minnispunktur dagsins
Hefur einhver séð MIG?

1.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Sjálfsvorkun er ömurlegur persónuleikagalli sem heltekur viðkomandi. Sjálfsvorkun krefst þess að við séum stöðugt með hugann við sig og veitum sér athygli og afleiðingin er sú að það dregur úr samskiptum mínum við aðra, sér í lagi samskipti mín við minn Æðri Mátt. Í raun dregur sjáfsvorkun úr andlegum framförum. Sjálfsvorkun er einnig ákveðin tegund píslarvættis, sem er munaður sem ég get ekki leyft mér. Meðalið er, hefur mér verið kennt, að skoða rækilega sjálfan mig og enn betur Tólf Spor GA prógramsins.

Bið ég minn Æðri Mátt um hjálp við að losna undan viðjum sjálfsins?

Bæn dagsins
Megi ég veita því athygli að þau okkar sem velta sér upp úr sjálfsvorkun, fá nánast enga vorkun frá öðrum.
Enginn – ekki einu sinni Guð _ getur svalað endalausri þörf þeirra fyrir vorkun. Megi ég bera kennsl á ókræsilega tilfinninguna af sjálfsvorkun, þegar hún reynir að lauma sér inn í huga minn og ræna mig æðruleysinu.
Megi Guð hjálpa mér að vera á varðbergi gagnvart lymsku sjálfsvorkunnar.

Minnispunktur dagsins
Sá sem heldur mér föngnum er ég sjálfur.

31.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ein alvarlegasta afleiðing ég-ég-ég heilkennisins er að við missum tengsl við nánast alla í kringum okkur – að ekki sé talað um raunveruleikann sjálfan. Kjarni sjálfs-meðaumkunar er fullkomin sjálfs-hrifning, og hún nærir sjálfa sig.Frekar en að hunsa slíkt tilfinnginalegt ástand – eða afneita því að svoleiðis sé ástatt fyrir okur – þá verðum við að draga okkur sjálf upp úr sjálfs-hrifningunni, stíga skref aftur á bak og skoða okkur sjálf á heiðarlegan hátt. Þegar við höfum borið kennsl á sjálfs-meðaumkuninna og séð hana í réttu ljósi, þá getum við byrjað að gera eitthvað í málinu.

Lifi ég í vandamálinu en ekki í lausninni?

Bæn dagsins
Ég bið þess að sjálfshverfa mín rakni upp og missi tök sín á mér og hleypi öðrum að. Megi hinn eymdarlegi ég-ég-ég grátur minn verða að við-við-við söngi GA félagsskaparins, þegar við skoðum í sameiningu sjálfs-hverfu okkar.

Minnispunktur dagsins
Umbreyta ég-ég-ég yfir í við-við-við.

30.júlí

No comments

Hugleiðing dagsins
Þegar við erum ný í GA samtökunum þá er algengasta útgáfan af sjálfsvorkun þessi; “Grey ég! Af hverju get ég ekki spilað fjárhættuspil endrum og sinnum, eins og annað fólk. Af hverju ég?” Ef við leyfum svona kjökri að grafa um sig þá er það bara ávísun á eitt – við tökum upp fyrii iðju og við tekur sama ömurlega lífið og áður en við komum í GA. Þegar við höfum stundað prógramið í einhvern tíma þá áttum við okkur á að “ég” er ekki einn á báti, við kynnumst fólki úr öllum geirum þjóðfélagsins, sem eru að upplifa nákvæmlega það sama og við.

Er ég að missa áhugann á hinum gamalkunna pytti sjálsmeðaumkunnar?

Bæn dagsins
Þegar sjálfsmeðaumkunnin dregur mig niður og gerir mig óvirkan, megi ég þá líta upp og líta í kringum mig og lifna við. Guð gefi að sjálfmeðaumkunin hverfi þegar ég fæ að heyra af sambærilegum vandamálum annarra GA félaga. Megi ég ætíð þiggja ábendingar heiðarlegra vina sem benda mér á ef ég byrja að velta mér upp úr sjálfsvorkun.

Minnispunktur dagsins
Að snúa sjálfs-aðild yfir í aðild.

29.júlí

No comments

Hugleiðing dagsins
Sú sjálfsvorkun, sem við höfum öll fundið fyrir á einhverjum tímapunkti, er einhver ógeðfelldasta tilfinning sem hægt er að upplifa. Okkur hryllir við tilhugsuninni að viðurkenna fyrir annarri manneskju að við séum að velta okkur upp úr sjálfsvorkun. Það fer í okkar fínustu þegar okkur er bent á að það sjáist utan á okkur; við þrætum fyrir það og segjumst þjást af einhverju öðru; göngum jafnvel svo langt að fela – jafnvel fyrir okkur sjálfum – þá staðreynd að við séum að ganga í gegnum tímabil sem einkennist af “aumingja ég.” Á sama táknræna hátt erum við snillingar í að upphugsa tylft “réttmætra” ástæðna fyrir því að vorkenna sjálfum okkur.

Nýt ég þess stundum að nudda salti í eigin sár?

Bæn dagsins
Megi ég læra að þekkja og bera kennsl á eigin tilfinningar. Ef ég er ófær um að þekkja eigin tilfinningar, megi ég þá leita hjálpar hjá þeim sem þekkja hvað það er að vera í slíkum vandræðum. Megi ég vera í heilbrigðu sambandi við eigin tilfinningar, með því að halda sambandi við minn æðri mátt og aðra í GA samtökunum.

Minnispunktur dagsins
Vera í sambandi.

28.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Í GA prógraminu lærum við gildi hugleiðslu. Fyrri hluti Ellefta Sporsins mælist til þess að við leitumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundasamband okkar við Guð, eins og við skiljum hann. Ein af því sem við öðlumst, ef við hugleiðum, er skýrari hugur. Og eftir því sem hugurinn skýrist, þeim mun hæfari og viljugri verður hann til þess að greina sannleikann. Það verður ekki eins sársaukafullt að horfast heiðarlega í augu við brestina og afleiðingar þeirra. Raunverulegar þarfir heilsteyptrar manneskju koma í ljós.

Eru bæn og hugleiðsla reglulegur þáttur í daglegu lífi mínu?

Bæn dagsins
Megi sannleikur Guðs birtast mér fyrir tilstilli hugleiðslu og hinna smáu bæna, í gegnum samskipti við hópinn, sem hjálpar mér að muna að ég þarf að hreinsa hugann á hverjum degi með hugleiðslu. Því einungis skýr hugur getur tekið við Guði, og einungis hugur laus við eiginhagsmuni getur gengist við sannleikanum.

Minnispunktur dagsins
Hugleiðsla er hug-hreinsun.

27.júlí

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég verð ítrekað vitni að því að þeir sem ná mestum og stöðugustum árangri í bataprógrami GA eru þeir sem fúslega þiggja hjálp frá æðri mætti. Með þvi að þiggja hjálpina erum við að draga úr líkum á því að vera að flækjast sjálf í veg fyrir eigin bata. Vandamál virðast, á einhvern óskiljanlegan hátt, leysast upp og hverfa.

Geri ég mér grein fyrir að sá árangur, sem hlýst af því að vera í sambandi við sinn æðri mátt, byggir alfarið á mér sjálfum en ekki mínum æðri mætti?

Bæn dagsins
Megi ég vera þess fullviss að bata minn og vöxtur er háður því að ég sé í sambandi við minn æðri mátt, ekki bara endrum og sinnum heldur alltaf. Í því felst að snúa sér til síns æðri máttar nokkrum sinnum á dag og biðja um styrk og vitneskju um hans vilja. Þegar mér skilst að líf mitt er hluti af æðri áætlun, þá minnka líkurnar á því að ég hrasi og falli, stefni í ranga átt eða sitji einfaldlega og láti lífið sigla hjá.

Minnispunktur dagsins
Að vera sér meðvitaður um æðri vitund.

26.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Nú, þegar ég notfæri mér stafina H-O-F sem GA félagar hafa bent mér á – Heiðarleika, Opinn hug, Fúsleika – þá sé ég hlutina í nýju ljósi. Ég hefði ekki getað spáð fyrir um né búist við hversu sýn mín á lífið hefur breyst. Ég er farinn að sjá hluti á allt annan veg heldur en ég gerði áður en ég kom í GA. Mér líður vel flesta daga, sjaldan illa og þá í stutta stund í einu. Og svo sannarlega ekki eins illa og mér leið alla jafna hér áður fyrr.

Er minn versti dagur nú óendanlega betri en minn besti dagur áður en ég kom í GA?

Bæn dagsins
Megi ég muna eftir því í dag að segja “þakka þér” við minn Æðri Mátt, við vini mína í GA og við allan þann fjölda sem er í GA félagsskapnum, fyrir að koma mér fyrir sjónir að hlutirnir batna. Ég þakka einnig fyrir orðtökin, frasana og slagorðin sem hafa oftar en ekki poppað upp í huga mér á hárréttu augnabliki. Einmitt þegar ég þurfti á þeim að halda til þess að skerpa á tilgangi mínum, styrkja þolinmæði mína og minna mig á Guð.

Minnispunktur dagsins
Hvernig það var.