GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

25.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Ef ég skyldi einhvern tíma fá þá flugu í höfuðið að ég þurfi ekki lengur á GA prógraminu að halda, megi ég þá minnast þess að prógramið gerir svo miklu meira fyrir mig heldur en að hjálpa mér að takast á sjálfa spilafíknina. Megi ég líka minna sjálfan mig á að GA prógramið og tólf sporin hjálpa mér að fullþroska hæfileika mína, prógramið er grundvallarviðhorf.

Mun ég nokkurn tíma vaxa upp úr þörf minni fyrir GA prógramið?

Bæn dagsins
Megi æðri máttur minn leiða mig í gegnum tólf sporin, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur, uns sporin verða að lífsreglu. Að vinna sporin er ekki hraðnámskeið í þvi að bæta líf sitt, þau eru lífið. Lífið sem ég hef endurheimt með hjálp æðri máttar og félagsskaparins í GA. Félagsskapar sem er, líkt og ég, í besta hugsanlega bata.

Minnispunktur dagsins
Eitt spor í einu, frá ánauð til ríkulegs lífs.

24.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Megintilgangur GA prógramsins er að frelsa okkur frá spilafíkn, án þess frelsis höfum við ekkert. En þar með er ekki hægt að segja sem svo; “spilafíkn er eina vandamálið sem ég á við að etja. Fyrir utan spilafíkn, þá er ég frábær persóna. Ef ég bara losna við fíknina þá er ég á grænni grein.” Ef ég blekki sjálfan mig með slíkum villandi pælingum, þá mun ég að öllum likindum ekki ná neinum árangri í að takast á við raunveruleg vandamál og ekki getað axlað ábyrgð. Það mun fljótlega leiða til þess að ég fell og fer aftur að spila. Það er vegna þessa sem tólf sporin hvetja okkur til þess að “beita þessum grundvallaratriðum í öllum þáttum daglegs lífs.”

Snýst líf mitt bara um það að vera laus við spilafíknina eða einnig um lærdóm, þjónustu og kærleika?

Bæn dagsins
Megi ég njóta þess og vera þakklátur fyrir bindindi mitt, sem er uppspretta alls góðs. En megi mér auðnast að láta ekki þar staðar numið heldur reyna að öðlast skilning á sjálfum mér, eðli guðs og mannkyns. Frelsi frá fíkninni er fyrsta frelsið. Megi ég vera þess fullviss að fleira mun fuylgja í kjölfarið – frelsi frá þröngsýni, frelsi frá óróleika vegna innibyrgðra tilfinninga, frelsi frá því að vera öðrum háður, frelsi frá tilveru án guðs. Megi prógramið sem leysti bráða þörf mína einnig leysa úr þrálátri þörf minni.

Minnispunktur dagsins
Frelsun frá spilafíkn er bara byrjunin.

23.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Sjálfsánægja er óvinur minn, við eigum auðvelt með að sjá hana hjá öðrum en erfitt með að bera kennsl á hana og viðurkenna hjá sjálfum okkur. Sjálfsánægja merkir einfaldlega að vera viss um að maður hafi alltaf rétt fyrir sér – taka það sem gefið að maður geti ekki haft rangt fyrir sér. Í sjálfsánægju felst einnig að dæma aðra út frá því sem við teljum vera rétt. Sjálfsánægja útilokar skilning og vinsemd og virðist réttlæta eiginleika hjá okkur sem við sjálf myndum finnast vera óþolandi hjá öðrum.

Hneigist ég til þess að gera ráð fyrir því að mín sjónarmið séu ætíð rétt?

Bæn dagsins
Guð, beindu mér af braut sjálfsánægjunnar, því hugarástandi að hafa ætíð rétt fyrir mér. Þegar ég er drjúgur með sjálfan mig þá er ég ekki lengur leitandi. Ef ég geri ráð fyrir að ég hafi ætíð rétt fyrir mér þá er ég ekki á varðbergi fyrir eigin mistökum, mistökum sem geta leitt mig í ógöngur. Guð gefi að ég verði fær um að læra. Guð gefi að ég vaxi, í hjarta, huga og andlega.

Minnispunktur dagsins
Sjálfsánægja bregður fæti fyrir vöxt.

22.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Þegar okkur verður hugsað um öfugsnúið eða brostið samband okkar við aðra manneskju þá snúast tilfinningar okkar til varnar. Til þess að forðast að horfast í augu við hvað við gerðum á hlut viðkomandi þá einblínum við, full gremju, á hvað hann eða hún gerði á okkar hlut. Það hlakkar í okkur þegar við minnumst smávægilegra atvika og notum okkur þau sem afsökun til þess að gera lítið úr eða jafnvel gleyma okkar eigin hegðun. Við verðum að minnast þess að við erum ekki þau einu sem kljást við sýktar tilfinningar. Við erum oftar en ekki í samskiptum við þjáningarbræður, þar á meðal þau sem eru að takast á við slæma líðan af okkar völdum.

Ef ég er við það að biðja aðra fyrirgefrningar, er þá ekki rétt að ég fyrirgefi þeim?

Bæn dagsins
Þegar ég kenni öðrum um eða leita að sök hjá þeim, megi þá minn Æðri máttur benda mér á að líta í eigin barm og horfast í augu við eigin sektarkennd, sem ég hef svo auðveldlega falið. megi ég bera kennsl á þessa hegðun sem það sem hún í raun er.

Minnispunktur dagsins
Gremja á röngunni er sektarkennd.

21.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
“Milliliðalaust” er lykilorð í níunda sporinu. Því miður er það svo að mörg okkar vonast stundum til þess að með því að bæta óbeint fyrir brot okkar, þá getum við komið okkur undan þeirri niðurlægingu og kvöl sem það gæti kostað okkur ef við töluðum beint við þann sem við beittum rangindum. Þetta eru undanbrögð og mun aldrei gefa okkur hið sanna frelsi sem felst í því að takast á við misgjörðir okkar úr fortíðinni. Það sýnir aftur á móti að við erum enn að reyna að verja eitthvað sem er í raun óverjandi og höngum með því í hegðun sem við ættum að láta af. Oftast nær er það stolt okkar og ótti sem stendur helst í veginum fyrir því að við bætum fyrir brot okkar milliliðalaust.

Geri ég mér grein fyrir þeim sanna varanlega ávinningi þegar ég bæti fyrir brot mín?

Bæn dagsins
Megi ég vera þess fullviss að besta umbunin, þegar ég bæti fyrir brot mín, verður ætíð mín. En megi ég að sama skapi forðast að gera reikningsskil gjörða minni einvörðungu með eigin hag fyrir brjósti – að vera fyrirgefið, að öðlast aftur samþykki einhvers, að flagga hinum “nýja mér.” Uppþensla eigin stolts og að gera öðrum til geðs eru ekki hluti af hinum “nýja mér.” Guð forði mér frá tækifærismennsku.

Minnispunktur dagsins
Ekki blása upp eigið stolt né að reyna geðjast öðrum.

20.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Við verðum að vilja vera fullkomlega heiðarlega, þegar við vinnum níunda sporið. En við verðum á sama tíma að hafa í huga að “fullkominn heiðarleiki” sem er ógagnrýninn og hugar ekki að afleiðingunum gæti eyðilagt sambönd og rústað heimilum. Við megum ekki láta blekkingu og svik né heldur stolt standa í veginum, þegar við vinnum níunda sporið, en sýna samt tillitssemi og nærgætni svo við særum ekki aðra. Það, hvenær og hvernig við segjum sannleikann – eða kjósum að þegja – getur afhjúpað muninn á milli sannra heilinda og engra.

Er ég þakklátur fyrir það sem sannleikurinn færir mér, fyrir tilstilli míns Æðri máttar, og sem ég nýt þeirra forréttinda að taka á móti?

Bæn dagsins
Megi ég bera gæfu til þess að öðlast þann vísdóm að þekkja hinn hárfína mun á nærgætni og óheiðarleika. Megi ég ekki grípa til þess að beita þokka, smjaðri eða uppgerðar lítillæta og beita fyrir mig staðhæfingum eins og “Þú ert svo góð en ég svo vondur”, í ákefð minni að bæta fyrir brot mín. Þetta er birtingarmynd óheiðarleikans og eiga rætur í þeirri hegðan minni að grípa til hinna ýmsu hlutverka, þegar ég var virkur spilafíkill, til þess að fá mínu framgengt.
Megi ég bera kennsl á slíka hegðan.

Minnispunktur dagsins
Nærgætni er heiðarleiki valinn af háttvísi.

19.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Í GA prógraminu er okkur kennt að það er einungis eitt sem hindrar okkur í að bæta fyrir brot okkar. Og það er þegar uppljóstrunin skaðar þann sem við viljum biðja afsökunar eða, jafn mikilvægt, einhvern nákominn honum. Við getum, svo dæmi sé tekið, tæplega létt á samvisku okkar með því að segja grunlausum maka frá framhjáhaldi okkar í smáatriðum. Þegar við erum skeytingarlaus og íþyngjum öðrum þá getur það tæpast létt okkar eigin byrði. Það getur því stundum verið merki um sjálfselsku þegar við “segjum allt af létta”. Þegar við bætum fyrir gjörðir okkar þá skyldum við gæta þess að beita háttvísi, skynsemi, tillitssemi og auðmýkt – án þess að vera þýlunduð.

Stend ég keikur, sem guðsbarn, og lúti engum?

Bæn dagsins
Megi Guð sýna mér að sjálfshatur gegnir engu hlutverki þegar ég bæti fyrir gjörðir mínar. Né heldur leikrænir tilburðir sjálfs-umburðarlyndis. Ég bið minn Æðri mátt auðmjúklega að leiðbeina mér þegar ég legg mig allan fram um að viðhalda, á þroskaðan hátt, samböndum mínum við annað fólk, líka þau sem eru tilfallandi eða brothætt.

Minnispunktur dagsins
Að bæta fyrir gjörðir sínar er lagfæring.

18.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Í dag er það trú mín að ég eigi rétt á andlegum þroska. Ég á rétt á því að þroskast tilfinningalega. Ég á rétt á því að njóta þess að vera einn með sjálfum mér og það gerir mig að betri félagsskap. Ég á einnig rétt á því að öðlast fúsleika – mikinn fúsleika, algeran fúsleika – til þess að bæta fyrir brot mín gagnvart þeim sem ég hef skaðað. Vegna þess að ég get sætt mig við sjálfan mig eins og ég raunverulega er, þá get ég betur sætt mig við annað fólk eins og það er – kannski ekki algjörlega og að fullu en mun betur en ég gat áður.

Er ég byrjaður að vingast við guð og þar með við sjálfan mig?

Bæn dagsins
Megi guð sýna mér að það er í lagi fyrir mig að líka við sjálfan mig, jafnvel þegar ég reyni að leiðrétta fyrri gjörðir mínar og byggja líf mitt upp aftur. Megi ég stöðugt minna sjálfan mig á að ég sé breyttur. Ég hef breyst. Ég er betri, vitrari og heilbrigðari manneskja. Ég hef tekið nokkrar góðar ákvarðanir. Megi ég, sem þessi “nýja manneskja”, eiga auðveldara með að bæta fyrir það sem gerðist fyrir löngu síðan, þegar ég var í allt öðru andlegu ástandi. Megi þeir sem ég braut á einnig eiga auðveldara með að meðtaka yfirbót mína.

Minnispunktur dagsins
Það er í lagi að líka við sjálfan sig.

17.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Fúsleiki til þess að taka afleiðingum fyrri gjörða og bera um leið ábyrgð á velferð annarra er kjarninn í níunda sporinu. Yfirborðskennd afsökunarbeiðni bætir sjaldnast fyrir þann skaða sem við höfum valdið öðrum, en ósvikin viðhorfsbreyting getur aftur á móti haft ótrúleg áhrif við að bæta fyrir brot okkar. Ef ég hef valdið einhverjum veraldlegum skaða þá viðurkenni ég skuld mína og endurgreiði hana eins skjótt og mér er unnt.

Ætla ég að kyngja stolti mínu og stíga fyrstu skref í átt að sátt?

Bæn dagsins
Guð, sýndu mér bestu leiðina til þess að gera yfirbót. Stundum getur einfaldlega verið nóg að viðurkenna mistök mín. Á öðrum stundum getur þurft skapandi hugsun til þess að gera yfirbót. Megi ég vera þess meðvitaður að ég get ekki unnið níunda sporið án þess að hafa einhverja umhyggju fyrir öðrum, ósviknar áhyggjur af líðan annarra, ásamt breytingu í eigin atferli.

Minnispunktur dagsins
Umhyggja first, síðan afsökun.

16.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Níunda sporið hljóðar svo: “Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust, svo framarlega sem það særði engan.” Að bæta fyrir brot okkar getur verið ákaflega erfit, svo vægt sé til orða tekið; sjálfsálitið minnkar og dregur úr stolti. Samt er það svo að minnkað sjálfsálit og sært stolt er umbun í sjálfu sér og það að bæta fyrir brot sín getur leitt af sér mikla umbun. Þegar við hittum manneskju sem við höfum sært og biðjumst fyrirgefningar, þá eru viðbrögðin nánast undantekningarlaust jákvæð. Það krefst vitaskuld hugrekkis en útkoman réttlætir erfiðleikana.

Hef ég gert allt sem í mínu valdi er til þess að bæta fyrir brot mín?

Bæn dagsins
Megi guð stöðva mig ef ég skirrist við að standa við þær skuldbindingar sem felast í níunda sporinu. Megi ég skynja þann létti sem felst í því að biðja manneskju, sem ég hef skaðað, fyrirgefningar. Megi ég losna við að hafa áhyggjur af að skaða hið brothætta sjálfsálit sem ég hef, því ég mun þroskast innra með mér.

Minnispunktur dagsins
Að bæta fyrir brot sín er blessun.