GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

24.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Það er sama hvort við höfum verið í GA samtökunum í 2 daga eða 20 ár, við þurfum öll að takast á við erfiðleika og vandamál daglegs lífs. Stundum óskum við þess að við gætum tekist á við öll okkar vandamál akkúrat núna, en svoleiðis ganga hlutirnir yfirleitt ekki fyrir sig. Ef við munum eftir frasanum “Einn dag í einu” þegar við finnum að við erum að fyllast hræðslu, þá kemur að því að við áttum okkur á því að besta leiðin til þess að takast á við hvað sem er er að velta hlutunum fyrir okkur. Við tökum eitt skref í einu, gerum okkar besta í hverju skrefi. Við segjum “Einn dag í einu” og við gerum það þannig – einn dag í einu.

Hef ég tileinkað mér kjörorð prógramsins, nú þegar ég er byrjaður að öðlast bata með hjálp prógramsins?

Bæn dagsins
Megi kjörorðin “Einn dag í einu” verða til þess að hægja á mér þegar ég vil koma of miklu í verk of hratt. Megi þessi einföldu orð duga til þess að ég stígi ekki eins fast á bensíngjöfina sem á það til að steypa mér í nýjar aðstæður án fyrirhyggju, draga úr þeim tíma sem ég eyði í að sækjast eftir veraldlegum hlutum. Megi ég hlusta á spakmælið sem segir að Róm hafi ekki verið reist á einum degi. Að sama skapi er mér ekki unnt að leysa öll mín vandamál á einu bretti.

Minnispunktur dagsins
Einn dag í einu.

23.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Í gegnum félagsskapinn í GA samtökunum höfum við lært að ekki einu sinni verstu hugsanlegu aðstæður, sem við gætum lent í, geta réttlætt það að fara aftur að stunda fjárhættuspil. Það er sama hversu slæmt útlitið virðist, það versnar bara ef við förum aftur að spila, þó ekki væri nema í stutta stund.

Er ég þakklátur fyrir væntumþykjuna og samhygðina í prógraminu?

Bæn dagsins
Megi ég halda því til streitu að enginn steinn sé svo þungur að hann geti dregið mig niður í hyldýpi fíknar minnar. Engin byrði, engin vonbrigði, ekkert sært stolt eða ástarsöknuður er það mikill að hann réttlæti afturhvarf til spilamennsku. Þegar ég el í brjósti mér hugsanir eins og “lífið er of erfitt”, eða að “enginn kemst heill í gegnum allt þetta” eða að “ég fell alltaf aftur”, þá ætti ég að hlýða ögn á tóninn í kvörtunum mínum og rifja upp að ég hef heyrt þennan tón áður – á meðan ég var enn að spila. Svona sjálfsvorkun er fyrsta skrefið á fallbraut. Megi guð gefa að ég sé vakandi gagnvart eigin umkvörtunartón.

Minnispunktur dagsins
Hlýða á eign kvartanir.

22.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Það kemur fyrir að þeirri hugsun lýstur niður í huga mér að hlutirnir hafi nú kannski ekki verið svo alslæmir. Á slíkum stundum bregð ég á það ráð að neyða sjálfan mig til þess að viðurkenna að það er sjúkdómurinn sem er að tala, ekki ég. Hann er að reyna að fá mig til þess að afneyta því að ég sé í raun haldinn ólæknandi sjúkdómi. Einn af megin þáttunum í GA prógraminu er að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart sjúkdómnum og fela hann guði, eins og við skiljum hann.

Trúi ég því að náð guðs geti gert það fyrir mig sem ég gat ekki einsamall?

Bæn dagsins
Megi ég vita að mjög margt í lífi okkar ræðst af trú. Okkur er fyrirmunað að þekkja mörk tíma og rúms – eða að útskýra leyndarmál lífs og dauða. En þegar við sjáum verk guðs á sjálfum okkur og öðrum, sem hafa fundið nýtt líf fyrir tilstuðlan GA prógramsins, þá er það í okkar huga næg sönnun fyrir tilvist guðs.

Minnispunktur dagsins
Hjól lífsins er knúið áfram af trú.

21.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Í GA lærum við að við erum haldin ólæknandi sjúkdómi. Hann batnar ekki með tímanum heldur versnar. Við erum lánsöm, því það er hægt að halda þessum sjúkdómi niðri, einn dag í einu, svo fremi að við byrjum ekki aftur að stunda fjárhættuspil. Við höfum lært af reynsluna að við getum ekki frekar stjórnað fjárhættuspilamennsku okkar heldur en sjávarföllunum.

Trúi ég því enn að ég geti stjórnað fjárhættuspilamennsku minni?

Bæn dagsins
Megi ég aldrei láta glepjast af loforði rannsókna, sem halda því fram að hægt sé að lækna fólk af spilafíkn. Reynsla mín og annarra í GA hefur margsannað að sá sem haldinn er spilafíkn getur aldrei aftur haft stjórn á spilamennsku sinni. Megi ég gera mér grein fyrir því að ef ég byrjaði að spila aftur þá myndi ég byrja þar sem ég hætti – nær fangelsi, geðveiki og dauða en nokkru sinni áður.

Minnispunktur dagsins
Hafið varann á gagnvart illa grunduðum kenningum.

20.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Eftir því sem ég er lengur í GA þeim mun þýðingarmeira verður að forgangsraða. Ég var sannfærður um að fjölskyldan væri í fyrsta sæti, eða heimilislífið, eða starfið. En í dag veit ég með vissu að ef ég held mig ekki frá fjárhættuspili, þá mun ég missa allt. Að forgangsraða þýðir fyrir mig að allt í mínu lífi er háð því að ég haldi mig frá fjárhættuspilum.

Er ég þakklátur fyrir að vera spilalaus í dag?

Bæn dagsins
Megi ég setja efst á forganglista minn að vera spilalaus – að viðhalda því, læra að lifa með því, deila reynslu minni af slíku lífi. Þegar vandamál daglegs lífs skjóta upp kollinum, megi ég þá halda fast í forgangsröðina – að vera spilalaus.

Minnispunktur dagsins
Að forgangsraða.

19.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Það er ekki inni í myndinni fyrir mig að veðja í síðasta skipti, leggja undir einu sinni enn. Það sem ég væri að leggja undir væri ekki bara peningurinn sem ég væri með á mér heldur einnig allt sem ég ætti inni á bankareikningi, fjölskylda mín, heimili mitt, bíllinn, starfið, geðheilbrigði mitt og hugsanlega lífið sjálft. Það er alltof hátt gjald og alltof mikil áhætta.

Manstu eftir síðasta veðmálinu?

Bæn dagsins
Megi ég sækja mér styrk í þá vitneskju að andi guðs er með mér öllum stundum. Megi ég læra að finna fyrir þeirri andlegu nærveru. Megi ég gera mér grein fyrir því að ekkert er falið fyrir guði. Umheimurinn sér gjörðir mínar og dæmir mig eftir þeim en guð sér aftur á móti allt sem ég geri, hugsa og finn. Ef ég leitast við að fara að guðs vilja þá get ég stólað á eitt – hugarró.

Minnispunktur dagsins
Guð sér allt.

18.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Hversu oft hétum við sjálfum okkur því að við skyldum “aldrei aftur” spila? Við vorum einlæg í ákvörðun okkar, á þessari örvæntingarstund. En, þrátt fyrir þennan ásetning okkar, þá var útkoman ætíð sú sama. Smám saman dofnaði minningin um örvæntinguna sem og minningin um loforðið. Á endanum fórum við aftur að spila og enduðum í enn meiri örvæntingu en áður. “Aldrei aftur” reyndist einungis vera ein vika, eða einn dagur eða jafnvel bara ein klukkustund. Í GA lærist okkur að við þurfum bara að hafa áhyggjur af deginum í dag, nákvæmlega þessum tuttugu og fjórum stundum.

Lifi ég lífinu einn dag í einu?

Bæn dagsins
Megi langtíma skilyrði eins og; “aldrei aftur”, “ekki í þessu lífi”, “að eilífu” og “ég mun aldrei aftur spila” ekki verða til þess að veikja ásetning minn. Ef við brjótum upp “að eilífu” í einn dag í einu þá virðist eilífðin ekki vera svo ýkja löng. Megi ég fara inn í daginn í dag með raunhæft markmið, markmið sem miðast bara við næstu 24 stundirnar.

Minnispunktur dagsins
Einn dag í einu

17.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Við biðjum “eigi leið þú oss í freistni,” því við vitum fullvel að freistingarnar eru handan við hornið. Freistnin er lævís, torskilin, öflug – og þolinmóð; við vitum ekki hvenær freistnin sprettur fram – þegar við síst megum við því. Freistingin getur gert vart við sig þegar við heyrum ákveðna tóna, þegar við sjáum blikkandi og skár ljós eða í því augljósasta – beinni hvatningu frá annarri manneskju.
Við verðu ætíð að vera á verði, hafandi hugfast að fyrsta veðmálið gæti eyðilagt líf okkar.

Er ég með forgangsröðina á hreinu?

Bæn dagsins
Guð, leið mig á brott frá freistni, hvort heldur hún er í formi viðsnúnings á spili í póker, reyknum í Bingósalnum eða hljóðanna frá spilakassa. Megi ég vera meðvitaður um styrk mótstöðuafls míns og halda mig innan þess. Megi uppgjöf mín fyrir vilja guðs gefa orðatiltækinu “andleg vakning” alveg nýja merkingu.

Minnispunktur dagsins
Andleg vakning

16.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Í GA lærum við að við erum andlega og tilfinningalega frábrugðin öðru fólki. Sú hugmynd að einhvern veginn og einhvern tíma komi sá dagur að við getum haft stjórn á veðmálum okkar, er meinlokan mikla sem þjáir alla spilafíkla. Þessi tálsýn er ótrúlega lífseig. Margir elta hana inn fyrir fangelsismúra, yfir í geðveiki og allt til dauða.

Hef ég viðurkennt fyrir sjálfum mér að eitt veðmál er of mikið og að þúsund sé ekki nóg?

Bæn dagsins
Megi ég gera mér grein fyrir því að ég mun aldrei geta haft stjórn á spilamennsku minni. Meg mér auðnast að þagga niður í þeirri eyðileggjandi rödd sem býr innra með mér og reynir að telja mér trú um að nú geti ég farið að stunda veðmál og haft stjórn á spilamennsku minni. Ef þú fylgir GA prógraminu þá áttu ekki afturkvæmt í heim veðmálanna.

Minnispunktur dagsins
Takmark mitt verður að vera ævilöng fjarvera frá veðmálum – einn dag í einu.

15.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Það hafa komið dagar, í batanum, þar sem allt virðist svart og jafnvel vonlaust. Ég leyfði sjálfum mér að verða niðurdreginn og reiður. Ég sé núna að það skiptir ekki máli hvað ég hugsa og hverjar tilfinningar mínar eru. Það er hvað ég geri sem skiptir máli. Þess vegna er það, að þegar ég verð kvíðinn og áhyggjufullur og kemst í uppnám, þá reyni ég að vera í batanum með því að fara á fundi, taka þátt og vinna með öðrum í GA prógraminu.

Ef guð virðist allt í einu langt í burtu, hver var það sem færði sig?

Bæn dagsins
Megi ég ekki verða lamaður af völdum depurðar eða reiði, svo jaðri við örvæntingu. Megi ég leyta orsakanna fyrir örvæntingu minni, í flækju tilfinninga minna, greiða úr flækjunni, finna þær tilfinningar sem eiga sök að máli og viðurkenna þær. Þá fyrst get ég hafist handa við að ná árangri. Megi mér lærast að nýta þá orku, sem reiðin býr til, til þess að auka viljafestu mína og ná markmiðum mínum.

Minnispunktur dagsins
Að greiða úr tilfinningunum.