GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

18.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Hversu oft hétum við sjálfum okkur því að við skyldum “aldrei aftur” spila? Við vorum einlæg í ákvörðun okkar, á þessari örvæntingarstund. En, þrátt fyrir þennan ásetning okkar, þá var útkoman ætíð sú sama. Smám saman dofnaði minningin um örvæntinguna sem og minningin um loforðið. Á endanum fórum við aftur að spila og enduðum í enn meiri örvæntingu en áður. “Aldrei aftur” reyndist einungis vera ein vika, eða einn dagur eða jafnvel bara ein klukkustund. Í GA lærist okkur að við þurfum bara að hafa áhyggjur af deginum í dag, nákvæmlega þessum tuttugu og fjórum stundum.

Lifi ég lífinu einn dag í einu?

Bæn dagsins
Megi langtíma skilyrði eins og; “aldrei aftur”, “ekki í þessu lífi”, “að eilífu” og “ég mun aldrei aftur spila” ekki verða til þess að veikja ásetning minn. Ef við brjótum upp “að eilífu” í einn dag í einu þá virðist eilífðin ekki vera svo ýkja löng. Megi ég fara inn í daginn í dag með raunhæft markmið, markmið sem miðast bara við næstu 24 stundirnar.

Minnispunktur dagsins
Einn dag í einu

17.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Við biðjum “eigi leið þú oss í freistni,” því við vitum fullvel að freistingarnar eru handan við hornið. Freistnin er lævís, torskilin, öflug – og þolinmóð; við vitum ekki hvenær freistnin sprettur fram – þegar við síst megum við því. Freistingin getur gert vart við sig þegar við heyrum ákveðna tóna, þegar við sjáum blikkandi og skár ljós eða í því augljósasta – beinni hvatningu frá annarri manneskju.
Við verðu ætíð að vera á verði, hafandi hugfast að fyrsta veðmálið gæti eyðilagt líf okkar.

Er ég með forgangsröðina á hreinu?

Bæn dagsins
Guð, leið mig á brott frá freistni, hvort heldur hún er í formi viðsnúnings á spili í póker, reyknum í Bingósalnum eða hljóðanna frá spilakassa. Megi ég vera meðvitaður um styrk mótstöðuafls míns og halda mig innan þess. Megi uppgjöf mín fyrir vilja guðs gefa orðatiltækinu “andleg vakning” alveg nýja merkingu.

Minnispunktur dagsins
Andleg vakning

16.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Í GA lærum við að við erum andlega og tilfinningalega frábrugðin öðru fólki. Sú hugmynd að einhvern veginn og einhvern tíma komi sá dagur að við getum haft stjórn á veðmálum okkar, er meinlokan mikla sem þjáir alla spilafíkla. Þessi tálsýn er ótrúlega lífseig. Margir elta hana inn fyrir fangelsismúra, yfir í geðveiki og allt til dauða.

Hef ég viðurkennt fyrir sjálfum mér að eitt veðmál er of mikið og að þúsund sé ekki nóg?

Bæn dagsins
Megi ég gera mér grein fyrir því að ég mun aldrei geta haft stjórn á spilamennsku minni. Meg mér auðnast að þagga niður í þeirri eyðileggjandi rödd sem býr innra með mér og reynir að telja mér trú um að nú geti ég farið að stunda veðmál og haft stjórn á spilamennsku minni. Ef þú fylgir GA prógraminu þá áttu ekki afturkvæmt í heim veðmálanna.

Minnispunktur dagsins
Takmark mitt verður að vera ævilöng fjarvera frá veðmálum – einn dag í einu.

15.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Það hafa komið dagar, í batanum, þar sem allt virðist svart og jafnvel vonlaust. Ég leyfði sjálfum mér að verða niðurdreginn og reiður. Ég sé núna að það skiptir ekki máli hvað ég hugsa og hverjar tilfinningar mínar eru. Það er hvað ég geri sem skiptir máli. Þess vegna er það, að þegar ég verð kvíðinn og áhyggjufullur og kemst í uppnám, þá reyni ég að vera í batanum með því að fara á fundi, taka þátt og vinna með öðrum í GA prógraminu.

Ef guð virðist allt í einu langt í burtu, hver var það sem færði sig?

Bæn dagsins
Megi ég ekki verða lamaður af völdum depurðar eða reiði, svo jaðri við örvæntingu. Megi ég leyta orsakanna fyrir örvæntingu minni, í flækju tilfinninga minna, greiða úr flækjunni, finna þær tilfinningar sem eiga sök að máli og viðurkenna þær. Þá fyrst get ég hafist handa við að ná árangri. Megi mér lærast að nýta þá orku, sem reiðin býr til, til þess að auka viljafestu mína og ná markmiðum mínum.

Minnispunktur dagsins
Að greiða úr tilfinningunum.

14.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Eitt af því sem heldur mér við efnið í dag er hollustan við aðra GA félaga, sama hvar þeir kunna að vera. Við treystum á hvern annan. Ég veit, til að mynda, að ég væri að bregðast þeim ef ég færi aftur að taka þátt í fjárhættuspili. Þegar ég gekk í GA þá fann ég hóp fólks sem hjálpaði hvert öðru við að halda sig frá fjárhættuspili og sýndi hvert öðru hollustu með því að vera sjálft spilalaust.

Er ég trúr minni heimadeild og vinum í GA?

Bæn dagsins
Ég þakka guði fyrir hollystu og félagsskap GA samtakanna og þá gagnkvæmu skuldbindingu sem tengir okkur tryggðarböndum. Megi ég gefa til baka til félaganna í sama mæli og ég hef þegið. Ég hef svo lengi verið sá sem þáði og tók og í þau fáu skipti sem ég gaf af mér þá var það ætíð vegna þess að ég vildi fá eitthvað í staðinn, eins og viðurkenningu, ást eða greiða. Megi ég kynnast þeirri gleði sem felst í því að gefa af sér án þess að vænta nokkurs í staðinn.

Minnispunktur dagsins
Fullkomin er sú gjöf sem væntir einskis í staðinn.

13.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Allt mitt líf hef ég treyst á að fá hughreystingu, öryggi og allt það sem ég í dag flokka undir æðruleysi, frá öðrum. Ég hef áttað mig á því að ég var ætíð að leita á röngum stað. Æðruleysi er ekki eitthvað sem er í umhverfi mínu, það er innra með sjálfum mér. Lausnin er innra með mér og ég er þegar kominn með lykilinn til þess að ljúka upp konungdæmi hennar. Eina sem til þarf er viljinn til þess að nota hann.

Er ég að nota verkfæri GA prógramsins á hverjum degi? Er ég viljugur?

Bæn dagsins
Guð gefi mér hugrekki til þess að ljúka upp konungdæminu innra með mér, svo ég megi finna uppsprettuna sem á sér rætur í kærleika guðs. Megi sál mín verða endurbyggð í þessu konungdæmi. Megi ég finna æðruleysið sem ég leita að.

Minnispunktur dagsins
Leitin að konugdæminu innra með mér.

12.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Ef við íhugum vandlega hvað það er sem veldur okkur áhyggjum eða kvíða, þá sjáum við að oftar en ekki er um að ræða óheilbrigða þörf okkar á að vera háð öðrum og þær kröfur sem leiða af því. Við skulum því, með guðs hjálp, stöðugt stefna að því að losa okkur við þessa galla. Þá fyrst getum við öðlast frelsi til þess að lifa og elska. Við getum þá hugsanlega framkvæmt tólfta spors vinnu á sjálfum okkur og hjálpað okkur að líða vel tilfinningalega.

Reyni ég að bera öðrum boðskap GA prógramsins?

Bæn dagsins
Megi ég byrja á því að ná tilfinningalegum og andlegum bata áður en ég fer að takast á við alvarlegar skuldbindingar í samskiptum við annað fólk. Megi ég gera mér fulla grein fyrir merkingu þess að “vera háður” – hvort heldur það er gagnvart spilafíkninni eða annarri manneskju – og gera mér grein fyrir að það er rót óróa míns. Megi ég frekar verða háður guði, eins og ég skil hann.

Minnispunktur dagsins
Ég er guðs-háður.

11.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Eftir að ég kynntist GA, þá fór ég að átta mig á hversu illa mér hefur gengið í nánum samskiptum við annað fólk. Eigingirni mín gróf mér tvær gryfjur; annað hvort vildi ég stjórna öðrum eða ég var alltof háður viðkomandi. Félagar mínir í Prógraminu hafa hafa kennt mér að ósjálfstæði mitt hafi í raun þýtt að ég gerði kröfu – kröfu um yfirráð og stjórn á fólki og aðstæðum í umhverfi mínu.

Reyni ég enn að búa til tilfinningalegt öryggi með því að stjórna öðrum eða með því að vera háður þeim?

Bæn dagsins
Megi ég snúa mér fyrst til guðs í leit að saðningu vegna þrár minnar fyrir ást, vitandi það að það eina sem guð biður um er trú. Megi ég hætta að reyna að veiða þá sem eru mér hjartfólgnir í tilfinningalegt net, með því að stjórna viðkomandi eða með því að vera óhóflega háður þeim – sem er í raun ekkert annað en önnur birtingarmynd stjórnsemi. Megi ég veita öðrum það svigrúm sem þeir þurfa til þess að vera þeir sjálfir. Megi guð sýna mér hvernig það sé að eiga í þroskuðu sambandi við annað fólk.

Minnispunktur dagsins
Að hafa tiltrú á ást guðs.

10.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Thomas Merton skrifaði í bókinni Enginn maður er eyland “Við verðum að vera sönn innra með okkur, sönn gagnvart okkur sjálfum, áður en við getum skynjað sannleikann í umhverfi okkar… Við verðum sönn innra með okkur með því að leiða sannleikann í ljós, eins og við sjáum hann.” Þar sem bati minn er að stórum hluta byggður á andlegum þroska þá er það grundvallaratriði að ég skapi stað innra með mér, þar sem sannleikur og kærleikur ríkir, stað þar sem guð getur átt fótfestu. Og eftir því sem ég stækka þennan stað þá mun guð vaxa innra með mér. Andlegt ástand mitt var í lægstu lægðum þegar ég kom í GA.

Ætla ég, í dag, að hindra áráttuhegðun mína í því að koma upp á milli mín og míns innri sannleika?

Bæn dagsins
Megi ég skynja muninn á því að finna fyrir guði innra með mér og svo þess tómleika sem ég fann þegar ég var að spila. Hjálpaðu mér að skilja að einungis með stöðugri sjálfskoðun og að horfast í augu við hver ég sé, þá muni andlegur bati minn halda áfram.

Minnispunktur dagsins
Innri sannleikur hleypir guði að.

9.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Í GA lærum við, þegar við förum að þroskast andlega, að við þurfum að endurskoða rækilega hin gömlu viðhorf okkar gagnvart eðlishvötum okkar. Kröfur okkar um tilfinningalegt öryggi og ríkidæmi, um persónulega upphefð og völd, allt þetta verðum við að milda og beina í réttan farveg. Okkur lærist að það eitt að uppfylla þessar kröfur getur ekki verið eina markmið og tilgangur lífs okkar. En þegar við erum viljug til þess að setja andlegan þroska ofar öllu, þá – og einungis þá – eigum við raunhæfan möguleika á því að öðlast heilbrigða skynjun og þroskaða ást.

Er ég tilbúinn til þess að setja andlegan þroska í fyrsta sæti?

Bæn dagsins
Megi andlegur þroski minn milda vanabundna þrá mína efitr veraldlegu öryggi. Megi mér skiljast að hið sanna öryggi er andlegt. Ef ég hef trú á mínum æðri mætti þá mun viðhorf mitt breytast. Megi þroski minn hefjast með andlegri vakningu.

Minnispunktur dagsins
Læra að meta andlegt líf.