GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

Hugleiðing dagsins
Þeir GA félagar sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir í GA prógraminu – og um leið þeir sem ég hef lært mest af – virðast sannfærðir um það að dramb sé, eins og einn orðaði það, “grunn-syndin.” Í trúarlegri siðfræði er dramb fyrsta af höfuðsyndunum. Dramb er jafnframt talið alvarlegast, sker sig úr hópnum sakir einstæðra eiginleika sinna. Dramb treður sér inn í andlega sigra okkar. Það smeygir sér inn í öll okkar afrek og velgengni, jafnvel þau sem við eignum Guði.

Streitist ég gegn drambinu með því að vinna Tíunda Sporið reglulega, horfandi í augu við sjálfan mig og leiðrétti það sem aflaga fer?

Bæn dagsins
Megi ég stöðugt vera á verði gagnvart laumulegum aðferðum drambsins, sem reynir ætíð að troða sér inn í hvert afrek, hvern sigur, hvern endurgoldin hlýhug. Megi ég gera mér grein fyrir að hvenær sem hlutirnir ganga vel hjá mér, þá er drambið á staðnum tilbúið til þess að eigna sér heiðurinn. Megi ég vera á varðbergi gagnvart því.

Minnispunktur dagsins
Setjum drambið á sinn stað.

Hugleiðing dagsins
Leyndardómar sjálfsálitsins; særandi þegar það er uppblásið og sárt að draga úr því, og hindrar mig oftar en ekki í því að vinna GA prógramið af heilum hug. Þó svo að ég sé með sannleikann mér til halds og trausts, þá fell ég oftar en ekki í þá gryfju að grípa til gömlu hugmyndanna, sem svo oft komu mér fram á hengibrún örvæntingarinnar. Það krefst mikillar vinnu að draga úr uppblásnu sjálfsáliti og stundum blæs það út án þess að ég verði þess var. Ég var alltaf fullviss um að kerfin, sem ég var búinn að koma mér upp í spilamennskunni, myndu virka; en það gerðu þau aldrei. Ég efaðist um að GA myndi virka; en það virkaði – einn dag í einu.

Er ég viljugur, bara í dag, að hætta að notast við mínar gömlu hugmyndir og fara að stóla á GA leiðina?

Bæn dagsins
Megi ég vita að uppbólgið sjálfsálit er ekki viðeigandi fyrir mig sem óvirks spilafíkils. Það kemur í veg fyrir að ég sjái galla mína. Það gerir annað fólk afhuga mér og kemur í veg fyrir að ég geti hjálpað öðrum. Það hindrar framþróun mína því það fær mig til þess að trúa því að ég hafi stundað nægilega mikla sjálfsskoðun og að ég sé “læknaður.” Ég bið til míns Æðri Máttar um að ég megi vera nægilega raunsær til þess að taka við velgengni minni í GA prógraminu án þess að það blási út stolt mitt.

Minnispunktur dagsins
Stolt getur hindrað framfarir.

Hugleiðing dagsins
Þegar stolt er aðaldrifkraftur minn – þegar sjálfið er við stjórn – þá er ég að hluta til eða algjörlega blindur á galla mína og ókosti. Á þeirri stundu er huggun það sísta sem ég þarfnast. Ég þarfnast miklu frekar félaga úr GA prógraminu sem skilur hvað er í gangi og sem hikar ekki við að brjóta gat á veggin sem mitt eigið sjálfsálit hefur reist í kringum mig, svo ég megi á ný njóta sólargeisla skynseminnar.

Gef ég mér tíma til þess að yfirfara og endurskoða framfarir mínar, að tékka á sjálfum mér á hverjum degi, og reyna umsvifalaust að ráða bót á því sem fer úrskeiðis?

Bæn dagsins
Ég bið þess að GA félagarnir – eða bara einn þeirra – sé nægilega heiðarlegur til þess að sjá þegar ég byrja að hrasa um stoltið og nægilega hugrakkur til þess að benda mér á það. Ég traðkaði svo lengi á eigin sjálfsvirðingu að það er hætt við að hún tútni út, þegar mér byrjar að ganga vel í GA prógraminu, uns hún verður útbólgið sjálfsálit. Megi gestsaugað sýna mér raunsanna mynd af því hvernig ég er að höndla afrekið að vera spilalaus – með þakklátri auðmýkt eða með stolti.

Minnispunktur dagsins
Sjálfsvirðing eða sjálfsánægja?

Hugleiðing dagsins
Við höfum nánast öll fundið fyrir særðu stolti, þegar við leituðum okkur hjálpar í GA prógraminu, Sporunum Tólf og í félagsskap GA. Við uppgötvuðum galla okkar – og þá sérstaklega þann sem tengist stoltinu – og byrjuðum að skipta út sjálfsánægju fyrir þakklæti. Þakklæti fyrir það kraftaverk sem bati okkar er, þakklæti fyrir þau forréttindi að fá að vinna með öðrum, og þakklæti fyrir guðs gjöf, sem gerir okkur kleift að umbreyta hörmungum í vöxt og gæfu.

Er ég farinn að gera mér grein fyrir því að “stolt er fyrir persónuleika eins og háaloft er fyrir byggingu – sá hluti sem er efst uppi og yfirleitt galtómur”?

Bæn dagsins
Guð, viltu vinsamlegast láta mig vita ef ég byrja að hrasa um eigin stolt. Sem betur fer fyrir mig þá er GA prógramið með verkfæri til þess að koma auga á svona vankanta – skýr augu fundargesta, sem sjá stundum það sem hulið fyrir mér. Megi ég vita að öll velgengni hefur ætíð stigið mér til höfuðs. Megi ég vera á varðbergi gagnvart slíku, nú þegar ég er byrjaður að byggja upp heilbrigt sjálfsöryggi.

Minnispunktur dagsins
Velgengni sem er sjálfumglöð getur valdið bakslagi.

Hugleiðing dagsins
Það kemur mér alltaf jafn skemmtilega á óvart hve umfjöllunarefni þeirra funda sem ég sæki virðist passa við það sem ég er að takast á við í mínu lífi. Við getum einungis verið nemendur þegar við erum í návist kennara – og þegar nemandinn er tilbúinn þá birtist kennari. Við getum einungis lært ef okkur er kennt, og við getum ekki kennt nema hafa lært. Ég hef áttað mig á, að þrátt fyrir að guð sé mesti kennarinn sem um getur, þá lærum við oftast af þeim sem hann hefur kennt.

Er ég að læra þegar ég hlusta? Deili ég því sem ég hef lært?

Bæn dagsins
Megi ég ekki gleyma þeim mjög svo mikilvæga lærdómi sem ég hef lært í GA. Við erum öll nemendur í GA og við erum öll kennarar. Megi ég vita að ef ég held ekki áfram að læra, þá getur það verið vegna þess að ég vilji ekki lengur vera nemandi. Ef ég er ekki að deila, þá getur verið að ég þurfi að vera opinn fyrir meiri lærdómi.

Minnispunktur dagsins
Ef ég held áfram að vera lærdómsfús þá mun ég halda áfram að finna kennara.

Hugleiðing dagsins
Í fjórða sporinu er mælst til þess að við gerum óttalaus, siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil í lífi okkar. Fyrir mörg okkar og sérstaklega fyrir nýliðann þá virðist það vera ógjörningur. Í hvert einast skipti sem við setjumst niður og ætlum að byrja að horfa inn á við þá kemur Stoltið í veg fyrir það og segir, með hæðnisglotti, “Hér er ekkert sem þú þarft að skoða” Og Óttinn kemur Stoltinu til hjálpar og segir “Það er eins gott fyrir þig að vera ekki að skoða neitt hér.” En á endanum komumst við að því að stolt og ótti eru jafnáþreifanleg og reykur, þau leysast upp fyrir augum okkar. Þegar við blásum þeim í burt og gerum óttalaus reikningsskil, þá finnum við fyrir létti og öðlumst nýja tiltrúa á okkur sjálf. Tiltrú sem orð geta ekki lýst.

Hef ég gert reikningsskil í lífi mínu? Hef ég deild ávinninginum með öðrum, til þess að hvetja þá áfram?

Bæn dagsins
Megi ég ekki láta eigin tregðu hindra mig í að gera siðferðisleg reikningsskil í lífi mínu. Megi ég ekki byrja á Fjórða Sporinu einvörðungu til þess að láta staðar numið vegna þess að verkefnið vex mér í augum. Megi ég vita að reikningsskilin mín í dag, jafnvel þó ég reyni að vera fullkomlega heiðarlegur, verða aldrei tæmandi. Því ég er stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt í eigin fari, sem ég var blindur á í gær.

Minnispunktur dagsins
Þökk sé guði fyrir framfarir.

Hugleiðing dagsins
Stundum, þegar orðin “Ef ekki væri fyrir náð guðs þá væri ég á sama stað” koma upp í hugann, þá rifjast upp fyrir mér þegar ég hugsaði svona þegar ég sá aðra spilafíkla, á þeim stað í lífinu sem mér fannst vera “vonlaus og bjargarlaus.” Lengi vel notaði ég þennan hugsunarhátt sem flóttaleið og sjáfsafneitun á eigin spilafíkn, með því að benda á aðra sem væru verr staddir en ég. “Ef ég skyldi nokkurn tíma verða svona, þá hætti ég að spila,” var setning sem ég notaði oft. Í dag hafa þessi orð allt aðra merkingu, þar sem þau merkja þakklætið sem ég finn fyrir þegar ég þakka mínum Æðri Mætti fyrir bata minn og það líf sem ég hef öðlast með hjálp GA prógramsins.

Var nokkurn tíma einhver sem var “vonlausari og bjargarlausari” en ég?

Bæn dagsins
Megi ég vita að ef ekki væri fyrir náð guðs, þá gæti ég verið dáinn eða hafa misst vitið, því margir þeirra sem voru samferða mér í fíkninni eru ekki lengur á meðal okkar. Megi þessi sama náð guðs hjálpa þeim sem eru enn föst í hnignuninni, sem eru hægt en örugglega á leið í hörmungar.

Minnispunktur dagsins
Ég hef séð storbrotna náð guðs.

Hugleiðing dagsins
Spilafíkn mín var í raun eins og þjófur, á fleiri vegu en ég get talið upp. Spilafíknin rændi mig ekki bara fjármunum, eignum og öðrum veraldlegum hlutum, heldur ekki síður sæmd og sjálfsvirðingu. Og á sama tíma þjáðust mínir nánustu við hlið mér. Spilafíknin hafði einnig af mér getuna til þess að koma vel fram við sjálfan mig, á þann hátt sem guð myndi koma fram við mig. Í dag er þessu þveröfugt farið, ég er fær um að elska sjálfan mig – upp að því marki að ég ber meiri kærleika til sjálfs mín en ég þarf á að halda. Svo ég gef þann kærleika áfram til annarra í GA prógraminu, alveg eins og þau hafa gefið mér sinn kærleik.

Er ég þakklátur guði fyrir að hafa komið mér í prógram þar sem kærleikur hjálpar fólki að ná bata?

Bæn dagsins
Þökk sé guði fyrir líf sem er þess eðlis að það skapar svo mikinn kærleika og umhyggju að við í GA prógraminu komumst ekki hjá því að læra að elska okkur sjálf. Þegar ég finn að einhverjum er annt um mig þá er líklegra að ég sannfærist um að ég sé nú, þrátt fyrir allt, kærleiksins verður. Megi ég ætíð vera meðvitaður um þann kærleik sem ég er fær um að gefa – og gefa hann.

Minnispunktur dagsins
Að einhverjum skuli þykja annt um mig gerir það að verkum að mér finnst ég vera þess virði.

Hugleiðing dagsins
Dag Hammerskjold ritaði eftirfarandi;
“Þú getur ekki leikið þér að dýrinu innra með þér án þess að verða samdauna því, leikið þér að ósannindum án þess að fyrirgera rétti þínum til sannleikans, leikið þér að grimmd án þess að tapa tilfinninganæmni hugans. Sá sem vill halda garði sínum snyrtilegum tekur ekki frá reit fyrir illgresið.”
Ef ég ætla mér að halda mínum garði snyrtilegum þá verð ég ætíð að muna að skilja ekki eftir reit þar sem illgresið fær vaxið, að öðrum kosti gæti það komið mér um koll seinna meir. Með því að koma mér í aðstæður þar sem freistingar eru á hverju strái, fylgjast með útdrætti í Lottó eða niðurstöðum leikja á Lengjunni eða fara inn á spilastaði, þá gæti það skapað vaxtarskilyrði fyrir illgresið í huga mér.

Geri ég mér grein fyrir því að ef ég fæ skyndliega í hendurnar fjármagn, sem ég er ekki ábyrgur fyrir, þá kallar það einvörðungu á skjótan og hraðan vöxt illgreisis?

Bæn dagsins
Megi ég nota meira af tíma mínum til þess að huga að og hlynna það sem veitir mér hamingju, gleði, frið og æðruleysi, frekar en að eyða tíma mínum í að skapa vaxtarskilyrði fyrir eymd, sársauka og þjáningar. Megi ég ekki gleyma því að slíkt illgresi bíður ætíð færis að vaxa og dafna, ef ég sofna á verðinum.

Minnispunktur dagsins
Við uppskerum eins og við sáum.

Hugleiðing dagsins
Nafntogaður heimspekingur ritaði eitt sinn “Okkar eigið sjálf er vel falið fyrir okkar eigin sjálfi.” “Af öllum fjársjóðsnámum heimsins þá er okkar eigin sú síðasta sem við gröfum í.” Tólf BataSpor GA hafa hjálpað mér að afhjúpa mitt “eigið sjálf,” sem var svo lengi hulið undir örvæntingarfullri þörf minni á viðurkenningu frá öðrum. Ég er byrjaður að öðlast sanna tilfinningu fyrir sjálfum mér og fá þægilegt sjálfstraust, þökk sé GA prógraminu og mínum Æðri mætti. Ég þarf ekki lengur að bregða mér í mörg líki, stöðugt skiptandi um hlutverk þegar ég reyni að falla inn í hópinn.

Keppi ég að því á öllum stundum að vera sannur gagnvart sjálfum mér?

Bæn dagsins
Ég bið þess að ég megi vera heiðarlegur við sjálfan mig og að ég muni halda áfram – með guðs hjálp og vina minna – að reyna að þekkja sjálfan mig. Megi ég vita að ég verð ekki skyndilega heill, heilsteyptur, samkvæmur sjálfum mér; það getur og mun taka tíma að þroskast, að átta mig á eigin gildum og forgangsatriðum. Megi ég gera mér grein fyrir að ég hef fengið góða byrjun á þeirri vegferð að verða ég sjálfur.

Minnispunktur dagsins
Ég er á leið með að verða sá sem ég vil verða.