GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

17.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ef við fundum fyrir sektarkennd, niðurbroti eða samviskubiti vegna fíknar okkar eða hegðunar, þá jók það á þá tilfinningu að finnast við vera utangarðs/útskúfuð. Á stundum óttuðumst við eða jafnvel trúðum því að við ættum skilið að finna svona til: við héldum á stundum að við værum utangarðsmenn. Við gátum ekki einu sinni tjáð okkur um líðan okkar og gátum varla afborið að leiða hugann að því hvernig okkur leið. Við fórum því fljótlega aftur að spila.

Man ég vel hvernig þetta var?

Bæn dagsins
Megi ég minnast þess hversu oft mér fannst ég vera alein/-n að burðast með skömmina og sektina, á meðan ég var virkur spilafíkill. Hin falska gleði spilasalanna eða yfirborðskenndu samskipti gátu ekki komið í veg fyrir að mér leið eins og utangarðsmanni. Megi ég meta það tækifæri sem ég hef fengið til þess að eignast nýja vini og félaga í GA samtökunum. Megi ég gera mér grein fyrir að þau sambönd sem ég mynda í dag eru heilbrigðari, áreiðanlegri og þroskaðri.

Minnispunktur dagsins
Þökk sé Guði fyrir nýja vini.

16.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Mörg okkar, sem erum í GA prógraminu, eigum það sameiginlegt að hafa stundað fjárhættuspil til þess að “tilheyra”, til þess að vera “stór kall/kona” eða til þess að “vera hluti af hópnum.” Önnur spiluðu til þess að tryggja sér stað – finnast þau eiga samleið með mannkyninu. Og stundum hafði spilamennskan þessi áhrif, sló tímabundið á þá tilfinningu að finnast við vera öðruvísi – standa utan við venjulegt líf. En þegar áhrifin af spilunum hurfu, þá stóðum við oftar en ekki eftir með enn meiri tómleikatilfinningu, fannst við vera enn meira utan við og öðruvísi en nokkru sinni.

Finnst mér stundum eins og “mitt tilvik sé sérstakt”?

Bæn dagsins
Megi guð gefa að ég komist yfir þá tilfinningu að finnast ég vera “öðruvísi” eða á nokkurn hátt einstakur/einstök. Það er hugsanlegt að þessi tilfinning hafi komið mér til þess að stunda fjárhættuspil í upphafi. Hún átti þátt í að hindra að ég sæi hversu alvarleg fíknin var orðin hjá mér, því ég hugsaði með mér “Ég er öðruvísi. Ég ræð við þetta.” Megi ég nú átta mig á því að ég raunverulega tilheyri fjölmennum félagsskap fólks sem er alveg eins og ég. Með hverri reynslu, sem félagar í GA deila með sér, þeim mun minni verður sérstaða hvers og eins.

Minnispunktur dagsins
Ég er ekki einstakur/einstök.

15.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Þegar ég horfi til baka til síðustu örvæntingarfullu daganna áður en ég kom í GA, þá man ég sterklega þann einmannaleika og einangrun sem einkenndi líf mitt. Sú líðan var ríkjandi jafnvel þó ég væri umvafinn fjölskydu minni. Og þó svo ég reyndi að látast vera hress og glaður og félagslyndur þá var oftar en ekki reiði kraumandi undir niðri, vegna þess að mér fannst ég ekki falla í hópinn.

Mun ég nokkru sinni gleyma þeirri eymd sem fylgir því að vera einmanna í margmenni?

Bæn dagsins
Ég þakka guði fyrir þá miklu gleði sem felst í því að vita og finna að ég er ekki lengur einn. Megi ég ekki vænta þess að einsemdin hverfi á einni nóttu. Megi ég gera mér grein fyrir því að það munu koma stundir þar sem ég finn fyrir einmannaleika, sérstaklega þar sem ég verð að segja skilið við fyrrum spilafélaga mína. Ég bið þess að ég muni eignast nýja vini sem eru í bata frá spilafíkn. Ég þakka guði fyrir félagsskapinn í GA.

Minnispunktur dagsins
Ég er ekki einn.

14.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Nietzche ritaði; “Það er mjög algeng ranghugmynd – að fyllast hugrekki vegna eigin sannfæringar; það ætti frekar að vera að hafa þor til þess að þola atlögu að eigin sannfæringu.” GA prógramið hjálpar mér að losna við gömlu hugmyndirnar mínar með því að deila með öðrum og vinna Sporin Tólf. Hafandi gert gert óttalaus, siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil í lífi mínu; hafandi viðurkennt fyrir sjálfum mér og annarri manneskju nákvæmlega í hverju yfirsjónir mínar fólust; og hafandi orðið þess albúinn að losna við þessa skapgerðarbresti mína – mun ég í auðmýkt biðja Guð um að losa mig við brestina.

Er ég að reyna að fylgja prógraminu?

Bæn dagsins
Ég bið þess að ég megi halda áfram að vinna Sporin Tólf, aftur og aftur, ef þörf krefur. Prógramið hefur virkað fyrir þúsundir og aftur þúsundir spilafíkla um allan heim, sem eru í bata. Það getur líka virkað fyrir mig. Megi ég hinkra við, með reglulegu millibili, og athuga hvort ég sé í raun að iðka GA prógramið, eins og það er sett fram.

Minnispunktur dagsins
Eitt spor í einu.

13.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Manneskja sem vaknar á hverjum morgni með taugarnar þandar til hins ítrasta og hjartað fullt af sársauka, til þess að takast á við skelfilegan raunveruleikann; manneskja sem skjögrar í gegnum daginn í örvæntingu með þá ósk eina að mega verða dauðanum að bráð en berst þó áfram; manneskja sem fer í gegnum þetta allt dag eftir dag – slík manneskja býr yfir gríðarlegri seiglu og kjarki. Slíkt krefst raunverulegs hugrekkis. Hugrekkis sem einkennist af sjálfsbjargarviðleitni. Hugrekkis sem hægt er beita til góðra verka ef viðkomandi skyldi einhvern tíma rata til GA. Slík manneskja hefur öðlast hugrekki og kjark með miklum erfiðismunum og þegar hún kemur til GA þá mun hún uppgötva nýjar og yndislegar leiðir við beitingu þess.

Hef ég þann kjark og það hugrekki sem þarf til þess að halda áfram að reyna, einn dag í einu?

Bæn dagsins
Megi ég beita þeirri seiglu og þeim kjarki sem ég öðlaðist á meðan ég var virkur spilafíkill, til góðra nota í prógraminu. Fyrst ég var fær um að þrauka og halda lífi í gegnum hörmungar fíknarinnar, megi ég á sama hátt beita kjarki og seiglu við að öðlast bata með hjálp prógramsins. Megi kjarkur minn nýtast mér á uppbyggilegan hátt.

Minnispunktur dagsins
Guð varðveitti mig til þess að hjálpa sér við áform sín.

12.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég verð að hafa kjark á hverjum degi, á sama hátt og þrá mín að standast hvert veðmál, þá vanabindandi athöfn. Kjarkurinn verður að vera viðvarandi, án frávika og frestunaráráttu, án fljótfærni og fyrirhyggjuleysis og án ótta við hindranir. Þetta virðist svo vissulega vera til mikils ætlast, ef ekki væri fyrir þá sök að þetta er bara bundið við daginn í dag og í deginum í dag hef ég mikil áhrif.

Beiti ég Æðruleysisbæninni á hvað eina í lífi mínu?

Bæn dagsins
Megi sérhver nýr morgunn bjóða mér gnótt kjarks, sem endist mér í gegnum daginn. Ef kjarkur minn endurnýjast á hverjum degi og ég veit að ég þarfnast einungis dagsskammts af kjarki, þá mun sá kjarkur ætíð vera ferskur og hann mun aldrei þrjóta. Megi ég gera mér grein fyrir, eftir því sem dagarnir líða, að ótti minn frá fyrstu dögum batans er horfinn, daglegur skammtur minn af kjarki gerir mér kleift að takast á við æ stærri og erfiðari verkefni.

Minnispunktur dagsins
Guð gefi mér hugrekki – bara fyrir daginn í dag.

11.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég geri mér nú grein fyrir því að ég get ekki lengur notast við falskt hugrekki, sem var í raun einskær mannalæti, ég leitast frekar eftir og bið um kjark til þess að breyta því sem ég get. Slíkur kjarkur er vitaskuld ekki þess eðlis að hann geri mig að sterkri og kjarkmikilli manneskju, sem geti tekist á við hvaða aðstæður sem er án þess að blikna. Sá kjarkur sem ég þarfnast er miklu frekar þess eðlis að hann er viðvarandi og skynsamlegur og tengir daginn í dag við morgundaginn – og tekst á við verkefni dagsins í dag án þess að byggja upp ótta og kvíða við hugsanlega niðurstöðu.

Hvaða merkingu hefur “kjarkur” fyrir mig í dag?

Bæn dagsins
Megi ég einugnis takast á við það sem ég hef möguleika á að breyta. Og sú breyting verður að byrja á mér sjálfum, einn dag í einu. Megi ég gera mér grein fyrir að sátt er oft á tíðum birtingarmynd hugrekkis. Ég bið ekki um ofurhugrekki, heldur bara um þrautsegju til þess að takast á við það sem lífið býður upp á án þess að það yfirbugi mig.

Minnispunktur dagsins
Kjarkur er að takast á við einn dag í einu.

10.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Efasemdarmaður, sem byrjar að feta stigu bænarinnar, ætti að gefa sér stund til þess að meta afraksturinn. Ef hann heldur sig við efnið þá fer hann nánast örugglega að finna fyrir meira æðruleysi, meiri umburðarlyndi, minni ótta og minni reiði. Hann mun öðlast hljóðlátt hugrekki – þá tegund hugrekkis sem er ekki þrungin spennu. Hann mun verða fær um að skoða það sem “misheppnast” og það sem “heppnast” og sjá hlutina í réttu ljósi. Vandamál og ógæfa fara að stuðla að þroska í stað þess að vera rót hörmunga. Honum fer að líða eins og frjálsum manni og andlega heilum.

Eru undursamlegir og óútskýranlegir hlutir farnir að eiga sér stað í mínu lífi?

Bæn dagsins
Megi ég, fyrir tilstuðlan bænarinnar – tjáskipti mín við minn Æðri Mátt, fara að sjá reglu komast á líf mitt. Megi ég verða afslappaðri, andlega heilli, opnari, hugrakkari, ástríkari, ekki eins fastur í vandamálum, óhræddari við að tapa og ekki eins hræddur við að lifa. Megi ég gera mér grein fyrir að framagreint er líka efst á óskalista guðs, fyrir mína hönd. Verði guðs vilji.

Minnispunktur dagsins
Fyllast ró og vita að Hann er guð.

9.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
La Rochefocauld ritaði; “Fullkomið hugrekki er að gera það – sem við værum fær um ef allur heimurinn fylgdist með – þegar enginn sér til okkar.” Þegar við höfum ástundað GA prógramið í einhvern tíma þá lærum við að bera kennsl á þrálátan ótta, að þekkja hann og verðum fær um að höndla hann. Við förum að sjá sérhvert mótlæti sem guðsgjöf sem gerir okkur kleift að þroska með okkur það hugrekki sem sprettur af hógværð fremur en af mannalátum.

Er ég farinn að átta mig á að það að blístra til þess að viðhalda hugrekki er eingöngu æfing í blístri ?

Bæn dagsins
Megi ég finna hugrekki í mínum Æðri Mætti. Þar sem mér eru allir vegir færir, með guðs hjálp, þá hlýt ég að geta unnið bug á þessum lævísa ótta sem hrjáir mig – sem oft á tíðum birtist sem ótti við að missa einhvern eða eitthvað sem er mikilvægt í mínu lífi. Ég bið þess að verða viljugur til þess að losa mig við þennan ótta.

Minnispunktur dagsins
Bæn er meria en blístur í myrki.

8.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
GA prógramið kenndi mér að ég þarf ekki að afsaka mig gagnvart neinum fyrir að reiða mig á guð, eins og ég skil hann. Í reynd, þá hef ég nú góða ástæðu til þess að trúa ekki þeim sem telja andlegu leiðina veru einvörðungu fyrir hina veiklundaðu. Fyrir mig er andlega leiðin styrkleiki. Vitnisburður fortíðar er sá að þeir sem hafa trú og traust, þá skortir sjaldnast hugrekki. Þeir treysta sínum guði. Því afsaka ég mig aldrei fyrir að trúa á hann og reyni frekar að láta mátt hans sjást í verkum hans í mér.

Er ég að framkvæma í samræmi við það sem ég segi?

Bæn dagsins
Megi trú mín og traust öðlast staðfestingu þegar ég sé mátt guðs í verkum hans fyrir annað fólk, alveg frá upphafi tímans. Megi ég sjá að það eru hinir hugrökku, kraftaverkamanneskjurnar og hinir hamingjusömu sem hafa viðurkennt sína andlegu hlið. Megi ég ætíð sjá handbragð guðs í þeim sem trúa.

Minnispunktur dagsins
Að sjá guð að verki.