GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

5.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég kenndi öllu öðru en sjálfum mér um vandræði mín, áður en ég hætti að spila með hjálp GA. En nú hef ég lært að horfast í augu við erfiðleikana, ekki til þess að leita að sökudólg, heldur til þess að átta mig á og sjá hvernig viðhorf mitt olli vandamálum. Ég verð líka að læra að takast á við afleiðingar orða minna og gjörða og leiðrétta mig þegar ég hef rangt fyrir mér.

Vinn ég 10 sporið með því að iðka stöðuga sjálfsrannsókn? Og viðurkenni ég það undanbragðalaust þegar út af ber?

Bæn dagsins
Megi ég kynnast léttinum og frelsinu sem fylgi því að viðurkenna það þegar ég geri eitthvað rangt. Megi ég – kannski í fyrsta skipti á ævinni – taka ábyrgð á gjörðum mínum og horfast í augu við afleiðingar þeirra. Megi mér auðnast að tengja aftur saman afleiðingu og verknað.

Minnispunktur dagsins
Að taka ábyrgð á eigin verkum.

4.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Við vitum ekki með vissu hvað dagurinn ber í skauti sér; við vitum kannski ekki hvort við verðum ein eða í félagsskap. Okkur getur fundist dagurinn of langur – eða of stuttur. Við gætum staðið frammi fyrir verki sem við erum fús að vinna eða verki sem við viljum forðast. Dagurinn er ekki eins hjá neinum tveimur manneskjum, en hann á þó eitt sameiginlegt hjá öllum; hver og einn getur valið að hugsa á jákvæðum nótum í dag. Það val; að velja jákvæða hugsun byggir frekar á innri skuldbindingu heldur en því sem við gerum.

Get ég sætt mig við þá staðreynd að ég einn hef vald yfir því hvert viðhorf mitt er?

Bæn dagsins
Megi skuldbinding mín vera sterk í dag, hvort heldur dagurinn sé fullur af hversdaglegum verkum eða athyglisverðum. Megi ég velja að gera þetta að góðum degi, fyrir mig og þá sem umgangast mig.

Minnispunktur dagsins
Viðhalda skuldbindingunni.

3.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Mér hefur gengið betur að átta mig á sjálfum mér, eftir að ég gekk í GA. Eitt af því sem er hvað þýðingarmest er að skoðanir eru ekki staðreyndir. Þó mér finnist eitthvað eiga að vera svona eða hinseginn þýðir ekki endilega að það sé svo. Gríski heimspekingurinn Epictetus orðaði þetta svo; “Menn hafa ekki áhyggjur af hlutum, heldur því hvaða hugmynd við gerum okkur um hlutinn. Þegar við tökumst á við erfiðleika, verðum áhuggjufull eða finnum til óþæginda, þá skulum við engum um kenna nema sjálfum okkur. Það er; hugmynda okkar um hluti.”

Trúi ég því að það sem mér hefur lærst í batanum, glatist aldrei að fullu?

Bæn dagsins
Megi mér auðnast að átta mig á hvað er raunverulegt í hugmyndum mínum um raunveruleikann. Megi mér skiljast að aðstæður, hlutir – jafnvel fólk – litast í huga mínum af viðhorfi mínu gagnvart þeim.

Minnispunktur dagsins
Að flokka raunveruleika frá óraunveruleika.

2.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Hvernig væri að eyða hluta af deginum í að hugleiða kosti mína frekar en galla? Hví ekki að hugsa frekar um sigra en ósigra – um það hve blíður og nærgætinn ég geti verið. Ég hef hneigst til þess að velta mér upp úr biturð og napurleika varðandi allt sem ég hef sagt, gert og fundist. Í dag ætla ég, þó ekki sé nema í hálftíma, að reyna að sjá líf mitt í jákvæðu ljósi.

Hef ég hugrekki til að breyta því sem ég get breytt?

Bæn dagsins
Megi ég, með ró og endurmati á sjálfum mér, þróa með mér jákvæðara viðhorf. Hafi ég verið skapaður í guðsmynd þá hlýtur að vera góðmennska innra með mér. Ég ætla að hugleiða þá góðmennsku og og birtingarmynd hennar. Ég ætla að hætta að draga úr ágæti mínu, jafnvel í mínum leyndustu hugsunum. Ég ætla að bera virðingu fyrir öllu sem hefur verið skapað í guðsmynd. Ég ætla að bera virðingu fyrir sjálfum mér.

Minnispunktur dagsins
Að hafa sjálfsvirðingu er að bera virðingu fyrir guði.

1.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Við höfum svo miklu meiri stjórn á hugsunum okkar eftir að við hættum að spila og urðum frjáls. En umfram allt annað þá erum við fær um að breyta viðhorfi okkar. Sumir félagar í GA sjá stafina GA sem ensku orðin “Great Attitude” eða frábært viðhorf. Á meðan við vorum virk þá drógum við úr allri jákvæðni eða bjartsýni með orðunum “Já, en…..” Í dag hefur mér lærst að útiloka svona neikvæðni úr orðaforða mínum.

Vinn ég í því að breyta viðhorfi mínu? Er ég staðráðinn í því að draga fram hið jákvæða?

Bæn dagsins
Megi ég finna lækninguna og styrkinn sem felst í því að hafa guð með sér. Megi mér auðnast að fylgja andlegri leiðsögn GA prógramsins, íhuga skrefin, vinna skrefin – eitt í einu – og vinna þau síðan aftur og aftur. Í þessu felst bati minn.

Minnispunktur dagsins
Að vinna að minnsta kosti eitt spor.

Hugleiðing dagsins
Félagar okkar í GA samtökunum hafa sýnt okkur fram á að einn helsti brestur okkar var sjálfhverfur ótti – aðallega ótti við að missa eitthvað sem við höfðum eða ótti við að fá ekki eitthvað sem við ágirntumst. Af því að við lifðum við ófullnægðar væntingar, þá vorum við stöðugt full af gremju og kvíða. Við verðum þar af leiðandi, ef við ætlum að öðlast hugarró, að finna leiðir til þess að draga úr þessum væntingum, þessum kröfum.

Er ég fullkomlega fús til þess að láta guð fjarlægja skapgerðarbresti mína?

Bæn dagsins
Megi ég sleppa því að gera óraunhæfar væntingar til lífsins. Væntingar, sem vegna þess hversu óraunverulegar þær eru, verða aldrei að raunveruleika. Guð gefi að ég geri ekki óhóflegar kröfur til annarra. Kröfur sem ekki er hægt að standa undir og það fyllir mig síðan vonbrigði og höfnun.

Minnispunktur dagsins
Undirbúningur fyrir vonbrigði.

Hugleiðing dagsins
Ef mér tekst að lifa í deginum í dag, taka bara einn dag í einu, þá er minni hætta á að ég fari að hafa áhyggjur af því sem gæti gerst á morgun. Áhyggjur komast ekki að á meðan ég beini sjónum mínum að deginum í dag. Ég ætla að reyna að fylla hverja mínútu dagsins í dag með einhverju jákvæðu – sem ég sé, heyri eða kem í verk. Þá get ég, þegar dagurinn er á enda, horft til baka með velþóknun, æðruleysi og þakklæti.

Leyfi ég mér stundum að velkjast um í sjálfsvorkun?

Bæn dagsins
Megi mér takast að losna við þessa sjálfsvorkun og fara að lifa í deginum í dag. Megi mér takast að sjá allt hið jákvæða frá dögurð til náttmáls, læra að tjá mig um það og þakka guði fyrir. Megi mér takast að stöðva sjálfan mig ef ég vil frekar njóta þess velkjast um í eymd og sjálfsvorkun heldur en að meta hið góða í lífi mínu.

Minnispunktur dagsins
Dagurinn í dag er góður.

Hugleiðing dagsins
“Hvað ef…” Hve oft höfum við ekki heyrt þessi orð hjá nýliðum í GA programinu? Og hversu oft kemur það ekki fyrir að við sjálf notum þessi orð? “Hvað ef ég missi vinnuna?” “Hvað ef bíllinn bilar”? “Hvað ef ég veikist og get ekki unnið”? “Hvað ef barnið mitt verður háð eiturlyfjum?” “Hvað ef hvað eina sem örvæntingarfullt ímyndunaralf okkar getur varpað fram? Þetta eru tvö lítil orð – en þau eru drekkhlaðin kvíða, ótta og áhyggjum. Svarið við “Hvað ef…” er einfalt, “Ekki fara fram úr sjálfum þér.” Við getum bara tekist á við vandamálin þegar þau koma upp, með því að lifa einn dag í einu.

Held ég hugsunum mínum á jákvæðum nótum?

Bæn dagsins
Megi ég vaxa andlega og ekki vera heftur af kvíða. Megi mér takast að losna undan óþarfa áhyggjum og njóta dagsins. Reka óttann á braut með trú. Ef ég bý til pláss fyrir guð þá mun nærvera hans losa mig við óttann.

Minnispunktur dagsins
Ímynduð vandræði taka sinn toll.

Hugleiðing dagsins
Óttinn stjórnaði lífi okkar, áður en við kynntumst GA. Við vorum undir oki fíknar og þráhyggju og óttuðumst allt og alla. Við vorum óttaslegin gagnvart okkur sjálfum og ef til vill óttuðumst við mest óttann sjálfan. Nú, þegar mér er unnt að þiggja hjálp frá mínum æðri mæti, þá finnst mér ég vera fær um að takast á við hvað eina sem fyrir mig er lagt. Ég er að vinna bug á óttanum og öðlast þægilegt sjálfstraust.

Trúi ég því að “hugrekki sé ótti sem lærði að biðja….”?

Bæn dagsins
Guð gefi að trú mín vinni bug á óttanum sem ég var svo heltekinn af. Óttinn hefur svo lengi verið hluti af mínu lífa að hann var orðinn að vana. Guð gefi að mér megi auðnast að sjá að ég hafi hugsanlega skýlt mér á bak við óttann til þess að forðast að taka ákvarðanir og þá ábyrgð sem fylgir því að ná árangri.

Minnispunktur dagsins
Ótti felur sig á bak við óákveðni.

Hugleiðing dagsins
Ég get gert óttann útlægan með því að gera mér grein fyrir sannleikanum. Er ég hræddur við að vera einn? Ég get losnað við þennan ótta með því að gera mér grein fyrir því að ég er í raun aldrei einn, guð er ætíð með mér hvar sem ég er og hvað sem ég geri. Er ég hræddur um að ég hafi ekki næg fjárráð til þess að framfleyta mér? Þann ótta get ég hrakið á brott um leið og ég geri mér grein fyrir því að guð er óþrjótandi og óbrigðul auðlind, nú sem endranær.

Í dag hef ég kraft til þess að breyta ótta í trú. Get ég sagt í fullri hreinskilni, “Ég mun treysta og ég mun ekki vera hræddur”?

Bæn dagsins
Ég mun ekkert óttast, því guð er með mér. Megi mér lærast að snúa mér til míns æðri máttar þegar ég er óttasleginn. Ég bið þess af krafti að trú mín á guð – og traust á því sem ég á í vændum af hendi guðs – sé nægilega sterk til þess að reka á burt óttann, sem dregur úr hugrekki mínu.

Minnispunktur dagsins
Snúa ótta yfir í trú.