GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

Hugleiðing dagsins
Tólf sporin kenna okkur að eftir því sem trúin eykst, þeim mun meiri verður öryggistilfinningin. Lamandi ótti við tilgangsleysi byrjar að fjara út. Þegar við byrjum að lifa samkvæmt prógraminu förum við að sjá að besta meðalið við ótta er andleg vakning. Við hættum að vera hrædd við að taka ákvarðanir, því við förum að átta okkur á að ef við gerum mistök, þá getum við alltaf lært af reynslunni. Og reynist ákvörðunin vera rétt, þá getum við þakkað guði fyrir að veita okkur hugrekki og náð til þess að ákveða.

Er ég þakklátur fyrir það hugrekki og þá náð sem mér hefur hlotnast frá mínum æðri mætti?

Bæn dagsins
Guð gefi mér kraft til þess að framkvæma, vitandi það að það eru helmingslíkur á að ég taki rétta ákvörðun og að ég geti lært af reynslunni, taki ég ranga. Í langan tíma var mér ómögulegt að taka ákvörðun. En nú finn ég fyrir gleði vitandi að ég er fær um að velja og taka ákvarðanir. Takk guð, fyrir hugrekkið.

Minnispunktur dagsins
Frelsi er að velja.

Hugleiðing dagsins
Það var eftir að ég kynntist félgsskapnum í GA sem ég hitti fyrir fólk sem skyldi mig þegar ég talaði um ótta minn. Þau höfðu gengið í gegnum það sama og ég; þau skyldu mig. Mér hefur lærst að margt af ótta mínum hefur að gera með hlutgerningu. Það er til að mynda fullkomlega eðlilegt að hafa “smá” áhyggjur af því að ástvinur manns yfirgefi mann. En þegar sá ótti er farinn að taka yfir samband mitt við viðkomandi, þá á ég við vanda að stríða. Því verður það að vera hluti af ábyrgð minni gagnvart sjálfum mér, að óttast ekki það sem er ekki til.

Er ég að verða óttalaus – í stað þess að vera fullur ótta?

Bæn dagsins
Guð hjálpi mér að hrekja á brott ótta minn – þennan hugarburð, ímyndun, hugarflug og hugarfóstur áfalla, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Megi mér auðnast að hemja ímyndunarafl mitt og einblína á stað og stund, í stað þess að sjá framtíðina í röngu ljósi.

Minnispunktur dagsins
Uppskrúfaður ótti er, eins og skuggi á vegg, stærri en efni standa til.

Hugleiðing dagsins
Eyði ég orku og tíma í að kljást við aðstæður sem eru í raun ekki þess virði? Er ég eins og Don Kíkóti að ímynda mér að vindmyllur séu stórhættulegir risar, sem ég berst við þar til allur vindur er úr mér? Í dag ætla ég að hindra ímyndunarafl mitt í að gera úlfalda úr mýflugu, gera eitthvað smávægilegt að stóru máli. Ég ætla að reyna að sjá aðstæður eins og þær eru og einungis veita þeim þá athygli og það gildi sem þær í raun eiga skilið.

Er ég byrjaður að trúa því ,sem segir í öðru reynslusporinu, að máttur mér æðri geti komið mér til þess að hugsa og lifa eðliega á ný?

Bæn dagsins
Guð hjálpi mér að sjá hlutina í réttu samhengi. Hjálpaðu mér að forðast að upphefja smávægileg vandamál, að leggja of mikla merkingu í hversdagslegar samræður, að búa til fjall úr steinvölu. Hjálpaðu mér að hemja ótta minn svo hann bólgni ekki út eins og púkinn á fjósbitanum. Hjálpaðu mér að endurheimta gildismat mitt, sem brenglaðist þegar ég var virkur spilafíkill.

Minnispunktur dagsins
Heilbrigð dómgreind er að sjá hlutina í réttu samhengi.

Hugleiðing dagsins
Eftir því sem heilsa okkar batnar og þörfin fyrir spilamennsku minnkar, förum við að sjá margt í nýju ljósi. Mörg okkar hafa áttað sig á að reiði getur tekið á sig margar birtingarmyndir; óþolinmæði, kaldhæðni, vantraust, kvíði, öfund, tortryggni, óánægja, sjálfsvorkun, meinfýsni, vantraust og afprýði. Þegar innsæi okkar eykst förum við að sjá hversu oft reiði er undirrótin að óþægilegri og eirðarlausri tilfinningalegri líðan okkar. Slíkt innsæi hjálpar okkur að skilja reiðina og finna leiðir til þess að kljást við hana.

Leyfi ég tilfinningum mínum að bera mig ofurliði?

Bæn dagsins
Megi augu mín opnast fyrir þeirri staðreynd að reiði, líkt og meistari dulargervis, hefur margar birtingarmyndir og mörg andlit. Megi ég afhjúpa hin mörgu gervi reiðinnnar og þekkja hana eins og hún í raun er.

Minnispunktur dagsins
Reiði á sér mörg gervi.

Hugleiðing dagsins
Þegar við heyrum einhvern segja eitthvað í fljótfærni eða andstyggilegt, þá segjum við stundum að viðkomandi “sé ekki með sjálfum sér”, í þeirri merkingu að sá hinn sami hafi gleymt sér í í skyndilegri og ósjálfráða bræði. Ef ég hef ætíð hugfast hvernig manneskja ég vill vera þá mun ég vonandi ekki “vera ekki með sjálfum mér” og láta undan augnabliks reiðikasti. Ég mun trúa því að hið jákvæða sigri ætíð hið neikvæða; hugrekki yfirvinni ótta – þolinmæði yfirvinni reiði og pirring: kærleikur yfirvinni hatur.

Leitast ég ætíð eftir framförum?

Bæn dagsins
Í dag bið ég guð, honum sem allir vegir eru færir, um að hjálpa mér að umbreyta neikvæðni yfir í jákvæðni – reiði í athafnasemi, ótta í tækifæri til þess að vera hugrakkur, hatri í kærleika. Megi ég gefa mér tíma til þess að rifja upp slík tilvik þar sem jákvætt hlaust af neikvæðu. Efst í huga mér er kraftaverk guðs; frelsi mitt frá ánauð spilafíknar.

Minnispunktur dagsins
Umbreyta neikvæðu yfir í jákvætt.

Hugleiðing dagsins
Í GA lærist okkur að refsingin bitnar á okkur ef við ætlum að refsa öðrum. Ef ég leyfi mér að fá útrás fyrir bræði mína, hversu réttlát sem hún kann að vera, með því að hefna mín, þá skilur það eftir sig dreggjar biturðar og sársauka. Slíkt var hluti af tilbreytingarlausu lífi mínu áður en ég kynntist GA. En í því nýja lífi sem ég hef öðlast þá hugsa ég lengra fram í tímann og horfist í augu við tilfinningar mínar, viðurkenni þær og sleppi þar af leiðandi takinu á þeim.

Hefur ásakandi hróp mitt gert það að verkum að rödd guðs heyrist ekki?

Bæn dagsins
Megi ég forðast samskipti sem felast í því að uppnefna og brjóta niður viðmælanda minn. Ef ég reiðist, megi mér þá auðnast beina reiði minni að því sem viðkomandi gerði, ekki hvernig persóna hann er. Megi ég forðast að gera lítið úr manneskjunni né heldur að gera grín að skapgerðaeinkennum hennar. Megi ég treysta guði til þess að leiðbeina mér.

Minnispunktur dagsins
Að takast á við reiði á viðeigandi hátt.

Hugleiðing dagsins
Ef ég verð reiður í dag, þá ætla ég að hinkra ögn við áður en ég segi eitthvað, minnugur þess að reiði mín getur snúist í höndunum á mér og gert mér erfiðara fyrir. Ég ætla líka að muna það að vel tímasett þögn getur fært mér stjórn yfir aðstæðum, sem eru þrungnar spennu, en reiðiþrungin ámæli geta það aldrei. Á slíkum stundum þá ætla ég að muna að ég hef enga stjórn yfir öðrum, einungis guð er almáttugur.

Hefur mér lærst að ég einn get rústað eigin hugarró?

Bæn dagsins
Megi mér lærast að ég get valið hvernig ég tekst á við reiðina – með þögn eða með bræðiskasti, í heift, með hnúunum, með koddaslag, með skammarræðu, með flókinni áætlun um “hefnd yfir” þeim sem olli reiðinni, með kuldalegu augnaráði, með ískaldri yfirlýsingu um hatur – eða með einfaldri framsetningu á staðreynd, “ég er reiður við þig vegna þess að” (með 25 orðum eða minna). Eða þá að ég get, ef þörf krefur, umbreytt reiðinni í orku með því að moka innkeyrsluna, fara í keilu, spila einn leik í tennis eða þrífa húsið. Ég bið þess að guð muni sýna mér fram á viðeigandi leið til þess að takast á við reiðina.

Minnispunktur dagsins
“Ég er reiður vegna þess að ………”

Hugleiðing dagsins
Hvað með “réttláta reiði”? Ef einhver svindlar á okkur eða kemur fram við okkur á viðurstyggilegan hátt, eigum við þá ekki rétt á því að fyllast bræði? Reynsla fjölda annarra GA félaga segir okkur að allt daður við bræði og heift eru yfirleitt mjög hættulegt. Þannig að á meðan við verðum að geta horfst í augu við reiðina og viðurkennt fyrir sjálfum okkur að “við séum reið”, þá megum við ekki leyfa bræðinni að safnast fyrir og kruma undir niðri, sama hversu réttlát hún er.

Get ég viðurkennt þá staðreynd að ef ég á að lifa þá verð ég að lifa frjáls frá reiðinni?

Bæn dagsins
Jafnvel þó ég leggi mig í líma við að forðast það, þá verð ég að vera meðvitaður um að það verður alltaf til fólk og aðstæður sem munu vekja hjá mér reiði. Þegar reiði mín virðist ekki vera réttlætanleg – engin skynsamleg rök fyrir henni – þá get ég afneitað reiðinni, jafnvel gagnvart sjálfum mér. Megi ég bera kennsl á reiði mína, hvort sem hún er skynsamleg eður ei, áður en ég gref hana lifandi.

Minnispunktur dagsins
Það er í lagi að finna fyrir reiði.

Hugleiðing dagsins
Þegar ég verð reiður, get ég þá horfst í augu við reiðina og viðurkennt hana sem staðreynd í stað þess að leyfa henni að safnast fyrir og magnast upp þar til ég spring úr bræði? Mér hefur loks lærst að innibyrgð reiði eyðileggur mjög skjótt þá hugarró sem er svo mikilvæg fyrir áframhaldandi bata minn. Þegar ég verð fokillur og missi stjórn á skapi mínu þá er ég ómeðvitað að láta stjórnina í hendurnar á manneskjunni, hlutnum eða staðnum sem ég reiður út í.

Þegar ég verð reiður ætla ég þá að reyna að muna að ég er að stofna sjálfum mér í hættu? Ætla ég að “telja upp að tíu” með því að hafa samband við félaga í GA samtökunum og fara með æðruleysisbænina?

Bæn dagsins
Megi ég bera kennsl á reiðina og leyfa henni að fá útrás í smáskömmtum og viðurkenna þar með þá staðreynd að ég er reiður, í stað þess að leyfa reiðinni að grafa um sig í huga mér uns hún verður að bræði og springur á þann hátt sem ég hef enga stjórn á.

Minnispunktur dagsins
Reiði er. Bræði þarf ekki að vera.

Hugleiðing dagsins
Það hjálpar mér, þegar ég þarf að breyta viðhorfi mínu úr neikvæðu í jákvætt, að skrifa niður það sem ég þakklátur fyrir. Í dag ætla ég að gefa mér tíma til þess að útbúa lista yfir hið jákvæða í lífi mínu og það lán sem fylgir því kraftaverki sem bati minn er. Ég er þaklátur fyrir einfalda hluti eins og; það að geta sofnað glaður, að vakna glaður yfir því að vera á lífi, að takast á við lífið á þess eigin skilmálum – með ró í huga og sjálfsvirðingu.

Er ég búinn að gleyma því að öllum þörfum mínum hefur verið fullnægt í dag? Fer ég yfir það hve lánsamur ég er, á hverjum degi?

Bæn dagsins
Á þessum ástríka degi, megi ég telja upp allt það góða í lífi mínu og vera þakklátur fyrir. Megi ég ekki ganga að neinu láni sem gefni, þar á meðal mínum eigin hjartslætti og snertinfgu fersks andrúmslofts þegar ég anda.

Minnispunktur dagsins
Að gera mér grein fyrir – og hugleiða – hve lánsamur ég er.