GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in March, 2024

11.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Eftir að ég kynntist GA, þá fór ég að átta mig á hversu illa mér hefur gengið í nánum samskiptum við annað fólk. Eigingirni mín gróf mér tvær gryfjur; annað hvort vildi ég stjórna öðrum eða ég var alltof háður viðkomandi. Félagar mínir í Prógraminu hafa hafa kennt mér að ósjálfstæði mitt hafi í raun þýtt að ég gerði kröfu – kröfu um yfirráð og stjórn á fólki og aðstæðum í umhverfi mínu.

Reyni ég enn að búa til tilfinningalegt öryggi með því að stjórna öðrum eða með því að vera háður þeim?

Bæn dagsins
Megi ég snúa mér fyrst til guðs í leit að saðningu vegna þrár minnar fyrir ást, vitandi það að það eina sem guð biður um er trú. Megi ég hætta að reyna að veiða þá sem eru mér hjartfólgnir í tilfinningalegt net, með því að stjórna viðkomandi eða með því að vera óhóflega háður þeim – sem er í raun ekkert annað en önnur birtingarmynd stjórnsemi. Megi ég veita öðrum það svigrúm sem þeir þurfa til þess að vera þeir sjálfir. Megi guð sýna mér hvernig það sé að eiga í þroskuðu sambandi við annað fólk.

Minnispunktur dagsins
Að hafa tiltrú á ást guðs.

10.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Thomas Merton skrifaði í bókinni Enginn maður er eyland “Við verðum að vera sönn innra með okkur, sönn gagnvart okkur sjálfum, áður en við getum skynjað sannleikann í umhverfi okkar… Við verðum sönn innra með okkur með því að leiða sannleikann í ljós, eins og við sjáum hann.” Þar sem bati minn er að stórum hluta byggður á andlegum þroska þá er það grundvallaratriði að ég skapi stað innra með mér, þar sem sannleikur og kærleikur ríkir, stað þar sem guð getur átt fótfestu. Og eftir því sem ég stækka þennan stað þá mun guð vaxa innra með mér. Andlegt ástand mitt var í lægstu lægðum þegar ég kom í GA.

Ætla ég, í dag, að hindra áráttuhegðun mína í því að koma upp á milli mín og míns innri sannleika?

Bæn dagsins
Megi ég skynja muninn á því að finna fyrir guði innra með mér og svo þess tómleika sem ég fann þegar ég var að spila. Hjálpaðu mér að skilja að einungis með stöðugri sjálfskoðun og að horfast í augu við hver ég sé, þá muni andlegur bati minn halda áfram.

Minnispunktur dagsins
Innri sannleikur hleypir guði að.

9.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Í GA lærum við, þegar við förum að þroskast andlega, að við þurfum að endurskoða rækilega hin gömlu viðhorf okkar gagnvart eðlishvötum okkar. Kröfur okkar um tilfinningalegt öryggi og ríkidæmi, um persónulega upphefð og völd, allt þetta verðum við að milda og beina í réttan farveg. Okkur lærist að það eitt að uppfylla þessar kröfur getur ekki verið eina markmið og tilgangur lífs okkar. En þegar við erum viljug til þess að setja andlegan þroska ofar öllu, þá – og einungis þá – eigum við raunhæfan möguleika á því að öðlast heilbrigða skynjun og þroskaða ást.

Er ég tilbúinn til þess að setja andlegan þroska í fyrsta sæti?

Bæn dagsins
Megi andlegur þroski minn milda vanabundna þrá mína efitr veraldlegu öryggi. Megi mér skiljast að hið sanna öryggi er andlegt. Ef ég hef trú á mínum æðri mætti þá mun viðhorf mitt breytast. Megi þroski minn hefjast með andlegri vakningu.

Minnispunktur dagsins
Læra að meta andlegt líf.

8.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Þó ég breyti hegðun minni, því sem ég segi og geri, þá er það engin sönnun þess að það hafi orðið breyting á viðhorfi mínu. Ég lifi í sjálfsblekkingu ef ég tel mér trú um að ég geti dulbúið tilfinningar mínar. Þær munu á endanum ná að skína í gegn og halda áfram að valda mér vanda í samskiptum mínum við annað fólk. Það dugar ekkert hálfkák þegar ég ætla að losa mig við bresti mína, bresti sem sem ég hef svo lengi reynt að fela.

Hef ég verið fullkomlega heiðarlegur í sjálfsskoðuninni?

Bæn dagsins
Megi mér skiljast að tilfiinningar mínar munu á endanum verða sýnilegar öðrum – stundum án þess að ég geri mér grein fyrir því. Megi mér auðnast að vera fullkomlega heiðarlegur gagnvart sjálfum mér og tilfiiningum mínum. megi ég öðlast það innsæi sem kemur með trausti á æðri mátt.

Minnispunktur dagsins
Birtingarmynd tilfinninga getur verið skökk.

7.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Það er kominn tími til að ég átti mig á því að viðhorf mitt – til lífsins og fólksins í kringum mig – getur haft áþreifanleg, mælanleg og afgerandi áhrif á það sem ég upplifi dagsdaglega. Ef ég er jákvæður þá get ég búist við að eitthvað jákvætt gerist. Og ef ég leitast við, á hverjum degi, að byggja viðhorf mitt og afstöðu á traustum andlegum grunni, þá veit ég að líf mitt mun breytast til hins betra.

Geri ég mér grein fyrir að frelsi mitt í dag frá spilafíkn er háð andlegri líðan minni?

Bæn dagsins
Sjúkdómur minn er andlegur – sem og tilfinningalegur – og því verð ég að leita andlegs bata með daglegu samneyti við guð. Megi ég finna frið og ró í huga mér svo ég geti átt kyrrðarstund með guði. Megi mér auðnast að sjá vilja guðs.

Minnispunktur dagsins
Að eiga kyrrðarstund með guði.

6.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég græði ekkert á því að nota sjálfsblekkingu til þess að forðast afleiðingar mistaka minna. Um leið og mér verður þetta ljóst þá veit ég að mér miðar áfram. Í bókinni Enginn maður er eyland eftir Thomas Merton segir; “Við verðum að vera heiðarleg og sönn gagnvart okkur sjálfum, áður en við verðum fær um að greina hvað sé raunverulegt í umhverfi okkar.” Við verðum sönn innra með okkur með því að leyfa sannleikanum, eins og við sjáum hann, að birtast.

Er ég sannur gagnvart sjálfum mér?

Bæn dagsins
Megi minn æðri máttur hjálpa mér að leyða sannleikann til lykta, eins og ég sé hann.
Megi ég aldrei aftur koma mér undan afleiðingum gjörða minna. Að koma sér undan afleiðingum gjörða sinna var orðið að einhverskonar leik hjá okkur spilafíklunum, uns við misstum sjónar á sambandinu á milli gjörða og afleiðinga þeirra. En, þegar mér er að batna, bið ég þig guð að hjálpa mér að finna jafnvægið á ný.

Minnispunktur dagsins
Tengja saman verknað og afleiðingu.

5.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég kenndi öllu öðru en sjálfum mér um vandræði mín, áður en ég hætti að spila með hjálp GA. En nú hef ég lært að horfast í augu við erfiðleikana, ekki til þess að leita að sökudólg, heldur til þess að átta mig á og sjá hvernig viðhorf mitt olli vandamálum. Ég verð líka að læra að takast á við afleiðingar orða minna og gjörða og leiðrétta mig þegar ég hef rangt fyrir mér.

Vinn ég 10 sporið með því að iðka stöðuga sjálfsrannsókn? Og viðurkenni ég það undanbragðalaust þegar út af ber?

Bæn dagsins
Megi ég kynnast léttinum og frelsinu sem fylgi því að viðurkenna það þegar ég geri eitthvað rangt. Megi ég – kannski í fyrsta skipti á ævinni – taka ábyrgð á gjörðum mínum og horfast í augu við afleiðingar þeirra. Megi mér auðnast að tengja aftur saman afleiðingu og verknað.

Minnispunktur dagsins
Að taka ábyrgð á eigin verkum.

4.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Við vitum ekki með vissu hvað dagurinn ber í skauti sér; við vitum kannski ekki hvort við verðum ein eða í félagsskap. Okkur getur fundist dagurinn of langur – eða of stuttur. Við gætum staðið frammi fyrir verki sem við erum fús að vinna eða verki sem við viljum forðast. Dagurinn er ekki eins hjá neinum tveimur manneskjum, en hann á þó eitt sameiginlegt hjá öllum; hver og einn getur valið að hugsa á jákvæðum nótum í dag. Það val; að velja jákvæða hugsun byggir frekar á innri skuldbindingu heldur en því sem við gerum.

Get ég sætt mig við þá staðreynd að ég einn hef vald yfir því hvert viðhorf mitt er?

Bæn dagsins
Megi skuldbinding mín vera sterk í dag, hvort heldur dagurinn sé fullur af hversdaglegum verkum eða athyglisverðum. Megi ég velja að gera þetta að góðum degi, fyrir mig og þá sem umgangast mig.

Minnispunktur dagsins
Viðhalda skuldbindingunni.

3.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Mér hefur gengið betur að átta mig á sjálfum mér, eftir að ég gekk í GA. Eitt af því sem er hvað þýðingarmest er að skoðanir eru ekki staðreyndir. Þó mér finnist eitthvað eiga að vera svona eða hinseginn þýðir ekki endilega að það sé svo. Gríski heimspekingurinn Epictetus orðaði þetta svo; “Menn hafa ekki áhyggjur af hlutum, heldur því hvaða hugmynd við gerum okkur um hlutinn. Þegar við tökumst á við erfiðleika, verðum áhuggjufull eða finnum til óþæginda, þá skulum við engum um kenna nema sjálfum okkur. Það er; hugmynda okkar um hluti.”

Trúi ég því að það sem mér hefur lærst í batanum, glatist aldrei að fullu?

Bæn dagsins
Megi mér auðnast að átta mig á hvað er raunverulegt í hugmyndum mínum um raunveruleikann. Megi mér skiljast að aðstæður, hlutir – jafnvel fólk – litast í huga mínum af viðhorfi mínu gagnvart þeim.

Minnispunktur dagsins
Að flokka raunveruleika frá óraunveruleika.

2.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Hvernig væri að eyða hluta af deginum í að hugleiða kosti mína frekar en galla? Hví ekki að hugsa frekar um sigra en ósigra – um það hve blíður og nærgætinn ég geti verið. Ég hef hneigst til þess að velta mér upp úr biturð og napurleika varðandi allt sem ég hef sagt, gert og fundist. Í dag ætla ég, þó ekki sé nema í hálftíma, að reyna að sjá líf mitt í jákvæðu ljósi.

Hef ég hugrekki til að breyta því sem ég get breytt?

Bæn dagsins
Megi ég, með ró og endurmati á sjálfum mér, þróa með mér jákvæðara viðhorf. Hafi ég verið skapaður í guðsmynd þá hlýtur að vera góðmennska innra með mér. Ég ætla að hugleiða þá góðmennsku og og birtingarmynd hennar. Ég ætla að hætta að draga úr ágæti mínu, jafnvel í mínum leyndustu hugsunum. Ég ætla að bera virðingu fyrir öllu sem hefur verið skapað í guðsmynd. Ég ætla að bera virðingu fyrir sjálfum mér.

Minnispunktur dagsins
Að hafa sjálfsvirðingu er að bera virðingu fyrir guði.