GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in June, 2024

30.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ég hef lært það í GA prógraminu að fyrir mig er galdurinn ekki það að hætta að spila, heldur er það að geta viðhaldið því að vera hættur og að læra hvernig ég geti forðast að byrja aftur. Því Guð veit að ég reyndi ótal sinnum að hætta, með því að lesa yfir hausamótunum á sjálfum mér hversu slæmt það væri, ekki bara fyrir líf mitt heldur líka fyrir allar hliðar á hegðan minni. Spilamennskan var í raun að breyta því hver ég var – hvernig ég hagaði mér. Til þess að viðhalda því að vera hættur, þá varð ég að þróa jákvæða og viðvarandi hegðun. Ég hef orðið að læra að lifa frjáls frá fíkninni, þroska með mér nýja hætti, ný áhugamál og ný viðhorf.

Tekst mér að vera sveigjanlegur í hinu nýja lífi mínu? Er mér að takast að beita frelsinu til þess að segja skilið við takmörkuð markmið?

Bæn dagsins
Ég bið þess að hið nýja líf mitt megi verða fullt af nýrri hegðan, nýjum vinum, nýrri athafnasemi, nýjum leiðum til þess að sjá hlutina. Ég þarfnast hjálpar Guðs til þess að yfirfara lífsstíl minn svo hann geti innifalið allt það nýja sem hann verðu að innihalda. Ég mun líka þurfa að koma sjálfur með nokkrar nýjar hugmyndir. Megi frelsi mitt frá spilafíkn hjálpa mér að velja með opnum og skýrum huga.

Minnispunktur dagsins
Að hætta er að byrja.

29.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Þegar við gáfumst loks upp og snerum okkur að GA prógraminu, þá voru mörg okkar sem veltu fyrir sér hvað þau ættu að gera við allan þennan tíma sem við höfðum fyrir stafni. Allar þær stundir sem höfðu áður farið í að skipuleggja, fela, upphugsa fjarvistarsannanir, tapa, fá lánað, ráðskast með reikninga – og allt hitt sem fylgdi spilafíkninni – söfnuðust upp í huga okkar og við urðum að finna eitthvað til þess að fylla þær. Við þurftum nýjar leiðir til þess að fá útrás fyrir orkuna sem áður fór í að fóðra fíknina. Við áttuðum okkur fljótlega á því að það er mun auðveldara að finna sér eitthvað til þess að hafa fyrir stafni heldur en að hætta bara áráttunni og láta ekkert koma í staðinn.

Er ég að finna huga mínum og orku nýjan farveg?

Bæn dagsins
Ég bið þess, nú þegar ég er loks laus undan bagga fíknar minnar, að ég megi snúa mér til míns Æðri máttar og hann muni veita mér leiðsögn um það hvernig ég geti varið tíma mínum á uppbyggilegan og skapandi hátt. Megi sá sami máttur og lætur leiðir fólks liggja saman og tengir ákveðnar manneskjur við tiltekna atburði, leiða mig eftir farsælum leiðum til góðra og nýrra staða.

Minnispunktur dagsins
Hending er hugsanlega eitthvað stærra og meira en bara breyting.

28.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég heyri nánast á hverjum degi af einhverju sem virðist vera einkennileg tilviljun í lífi vina minna í GA samtökunum. Og ég hef sjálfur upplifað slíkar “tilviljanir” endrum og sinnum; að birtast á réttum stað á réttum tíma; hringja óvænt í vin, sem virkilega þurfti að heyra í mér einmitt á þeirri stundu; heyra “söguna mína” á ókunnum fundi í ókunnum bæ. Nú orðið vel ég að trúa því að margar þessara svokölluðu “tilviljana” séu í raun lítil kraftaverk guðs, sem kýs að framkvæma þau á laun.

Er ég ætíð þakklátur fyrir það kraftaverk sem bati minn er?

Bæn dagsins
Megi vitund mín um æðri mátt vaxa að næmni eftir því sem ég heyri af fleiri slíkum “tilviljunum”, tilviljunum sem ganga á skjön við tölfræði, veikindi sem læknast þrátt fyrir spár um annað, björgun frá bráðum bana, tilviljanakenndar aðstæður sem breyta lífi fólks. Þegar hið óútskýranlega gerist, megi ég þá skynja það sem enn eitt af fjölmörgum kraftaverkum guðs. Minn eigin bati og björgun frá örvinglan og dauða er gott merki um slíkt kraftaverk.

Minnispunktur dagsins
Líf mitt er kraftaverk.

27.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég er smátt og smátt að losna við frestunaráráttu mína. Ég var vanur að fresta öllu til morguns og það leiddi auðvitað til þess að ég kom engu í verk. Í stað þess að drífa hlutina af þá var mitt mottó “á morgun er nýr dagur.” þegar ég var virkur þá hafði ég mikilfenglegar áætlanir; þegar ég svo var á niðurtúr þá var ég of þunglyndur til þess að gera nokkurn skapaðan hlut. Mér hefur lærst í GA prógraminu að það er mun betra að gera einstaka sinnum mistök heldur en að koma aldrei neinu í verk.

Er mér að lærast að “drífa þetta af”?

Bæn dagsins
Megi guð hjálpa mér að læknast af mínum vanalega seinagangi og drolli og “koma mér til kirkju á réttum tíma.” Megi ég losa sjálfan mig undan þessari sjálfsköpuðu óreiðu sem fylgir ævilangri frestunaráráttu; bókasafnsbækur komnar langt fram yfir skiladag, of seinn á stefnumót , verkefnum skilað of seint, ekki staðið við skilafrest, máltíðir hálfeldaðar. Megi ég átta mig á að ég sem óvirkur spilafíkill þarfnast þess að hafa hlutina í röð og reglu. Megi guð veita mér það æðruleysi sem ég þarf til þess að koma daglegu lífi mínu í gott skipulag.

Minnispunktur dagsins
Ég læt ekki þá tilhneigingu mína til þess að fresta hlutunum trufla mig svo ég fari að fresta hlutunum.

26.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Hversu mörg okkar gera ráð fyrir að kkoma til með að segja eftirfarandi; “Jæja, nú er ég að verða búinn að losna við fíknina. Hvað meira gæti ég hugsanlega viljað, eða gert? Ég er fínn eins og ég er.” Reynslan hefur sýnt okkur að gjaldið fyrir svona sjálfumgleði – eða kurteisislegar orðað, sjálfsánægju – er óhjákvæmileg hrösun, sem endar fyrr eða síðar með falli. Við verðum að vaxa og þroskast því annars mun okkur hnigna. Fyrir okkur getur “status quo” einungis átt við um daginn í dag, ekki morgundaginn. Við verðum að breytast; við getum ekki staðið í stað.

Freistast ég stundum til þess að láta gott heita?

Bæn dagsins
Megi ég horfa á umhverfi mitt og sjá að allt sem lifandi er er annaðhvort að vaxa eða hnigna; engin lífvera býr við óbreytt ástand. Lífið flæðir áfram. megi ég berast áfram með flæði lífsins, óhræddur við breytingar og fær um að losa mig undan þeim snörum á leiðinni sem trufla og halda aftur af vexti mínum og þroska.

Minnispunktur dagsins
Að lifa er að breytast.

25.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Ef ég skyldi einhvern tíma fá þá flugu í höfuðið að ég þurfi ekki lengur á GA prógraminu að halda, megi ég þá minnast þess að prógramið gerir svo miklu meira fyrir mig heldur en að hjálpa mér að takast á sjálfa spilafíknina. Megi ég líka minna sjálfan mig á að GA prógramið og tólf sporin hjálpa mér að fullþroska hæfileika mína, prógramið er grundvallarviðhorf.

Mun ég nokkurn tíma vaxa upp úr þörf minni fyrir GA prógramið?

Bæn dagsins
Megi æðri máttur minn leiða mig í gegnum tólf sporin, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur, uns sporin verða að lífsreglu. Að vinna sporin er ekki hraðnámskeið í þvi að bæta líf sitt, þau eru lífið. Lífið sem ég hef endurheimt með hjálp æðri máttar og félagsskaparins í GA. Félagsskapar sem er, líkt og ég, í besta hugsanlega bata.

Minnispunktur dagsins
Eitt spor í einu, frá ánauð til ríkulegs lífs.

24.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Megintilgangur GA prógramsins er að frelsa okkur frá spilafíkn, án þess frelsis höfum við ekkert. En þar með er ekki hægt að segja sem svo; “spilafíkn er eina vandamálið sem ég á við að etja. Fyrir utan spilafíkn, þá er ég frábær persóna. Ef ég bara losna við fíknina þá er ég á grænni grein.” Ef ég blekki sjálfan mig með slíkum villandi pælingum, þá mun ég að öllum likindum ekki ná neinum árangri í að takast á við raunveruleg vandamál og ekki getað axlað ábyrgð. Það mun fljótlega leiða til þess að ég fell og fer aftur að spila. Það er vegna þessa sem tólf sporin hvetja okkur til þess að “beita þessum grundvallaratriðum í öllum þáttum daglegs lífs.”

Snýst líf mitt bara um það að vera laus við spilafíknina eða einnig um lærdóm, þjónustu og kærleika?

Bæn dagsins
Megi ég njóta þess og vera þakklátur fyrir bindindi mitt, sem er uppspretta alls góðs. En megi mér auðnast að láta ekki þar staðar numið heldur reyna að öðlast skilning á sjálfum mér, eðli guðs og mannkyns. Frelsi frá fíkninni er fyrsta frelsið. Megi ég vera þess fullviss að fleira mun fuylgja í kjölfarið – frelsi frá þröngsýni, frelsi frá óróleika vegna innibyrgðra tilfinninga, frelsi frá því að vera öðrum háður, frelsi frá tilveru án guðs. Megi prógramið sem leysti bráða þörf mína einnig leysa úr þrálátri þörf minni.

Minnispunktur dagsins
Frelsun frá spilafíkn er bara byrjunin.

23.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Sjálfsánægja er óvinur minn, við eigum auðvelt með að sjá hana hjá öðrum en erfitt með að bera kennsl á hana og viðurkenna hjá sjálfum okkur. Sjálfsánægja merkir einfaldlega að vera viss um að maður hafi alltaf rétt fyrir sér – taka það sem gefið að maður geti ekki haft rangt fyrir sér. Í sjálfsánægju felst einnig að dæma aðra út frá því sem við teljum vera rétt. Sjálfsánægja útilokar skilning og vinsemd og virðist réttlæta eiginleika hjá okkur sem við sjálf myndum finnast vera óþolandi hjá öðrum.

Hneigist ég til þess að gera ráð fyrir því að mín sjónarmið séu ætíð rétt?

Bæn dagsins
Guð, beindu mér af braut sjálfsánægjunnar, því hugarástandi að hafa ætíð rétt fyrir mér. Þegar ég er drjúgur með sjálfan mig þá er ég ekki lengur leitandi. Ef ég geri ráð fyrir að ég hafi ætíð rétt fyrir mér þá er ég ekki á varðbergi fyrir eigin mistökum, mistökum sem geta leitt mig í ógöngur. Guð gefi að ég verði fær um að læra. Guð gefi að ég vaxi, í hjarta, huga og andlega.

Minnispunktur dagsins
Sjálfsánægja bregður fæti fyrir vöxt.

22.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Þegar okkur verður hugsað um öfugsnúið eða brostið samband okkar við aðra manneskju þá snúast tilfinningar okkar til varnar. Til þess að forðast að horfast í augu við hvað við gerðum á hlut viðkomandi þá einblínum við, full gremju, á hvað hann eða hún gerði á okkar hlut. Það hlakkar í okkur þegar við minnumst smávægilegra atvika og notum okkur þau sem afsökun til þess að gera lítið úr eða jafnvel gleyma okkar eigin hegðun. Við verðum að minnast þess að við erum ekki þau einu sem kljást við sýktar tilfinningar. Við erum oftar en ekki í samskiptum við þjáningarbræður, þar á meðal þau sem eru að takast á við slæma líðan af okkar völdum.

Ef ég er við það að biðja aðra fyrirgefrningar, er þá ekki rétt að ég fyrirgefi þeim?

Bæn dagsins
Þegar ég kenni öðrum um eða leita að sök hjá þeim, megi þá minn Æðri máttur benda mér á að líta í eigin barm og horfast í augu við eigin sektarkennd, sem ég hef svo auðveldlega falið. megi ég bera kennsl á þessa hegðun sem það sem hún í raun er.

Minnispunktur dagsins
Gremja á röngunni er sektarkennd.

21.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
“Milliliðalaust” er lykilorð í níunda sporinu. Því miður er það svo að mörg okkar vonast stundum til þess að með því að bæta óbeint fyrir brot okkar, þá getum við komið okkur undan þeirri niðurlægingu og kvöl sem það gæti kostað okkur ef við töluðum beint við þann sem við beittum rangindum. Þetta eru undanbrögð og mun aldrei gefa okkur hið sanna frelsi sem felst í því að takast á við misgjörðir okkar úr fortíðinni. Það sýnir aftur á móti að við erum enn að reyna að verja eitthvað sem er í raun óverjandi og höngum með því í hegðun sem við ættum að láta af. Oftast nær er það stolt okkar og ótti sem stendur helst í veginum fyrir því að við bætum fyrir brot okkar milliliðalaust.

Geri ég mér grein fyrir þeim sanna varanlega ávinningi þegar ég bæti fyrir brot mín?

Bæn dagsins
Megi ég vera þess fullviss að besta umbunin, þegar ég bæti fyrir brot mín, verður ætíð mín. En megi ég að sama skapi forðast að gera reikningsskil gjörða minni einvörðungu með eigin hag fyrir brjósti – að vera fyrirgefið, að öðlast aftur samþykki einhvers, að flagga hinum “nýja mér.” Uppþensla eigin stolts og að gera öðrum til geðs eru ekki hluti af hinum “nýja mér.” Guð forði mér frá tækifærismennsku.

Minnispunktur dagsins
Ekki blása upp eigið stolt né að reyna geðjast öðrum.