GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in June, 2024

10.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Þegar ég sá síst von á því þá reynir sjúkur hugur minn að fá mig til þess að taka aftur upp gamla atferlið og gömlu hugsanirnar. Hugur minn er í raun sérfræðingur í því að koma af stað neikvððum hugsunum og tilfinningum, næra þær og fá þær til þess að vaxa. Tilfinningum eins og öfund, ótti, kvíði og sektarkennd. Ég verð að takast á við þessar eitruðu tilfinningar um leið og ég finn þær vakna innra með mér. Ef ég geri það ekki þá er hætt við að ég næri þessar tilfinningar og styrki með því að vera í sífellu að leiða hugann að þeim þar til að þær verða að þráhyggju.

Þegar ég finn fyrir neikvæðum tilfinningum, bregst ég þá við með því að “bera kennsl á þær, viðurkenna tilvist þeirra og losa mig við þær”?

Bæn dagsins
Ég veit – og megi ég aldrei gleyma – að öruggasta leiðin til þess að leyfa neikvæðum tilfinningum að ná yfirhöndinni, er með því að láta sem þær séu ekki til staðar. Ef ég geri það þá verða þessar tilfinningar eins og óþekkir krakkar sem eru hunsaðir, þær eflast bara. En á sama hátt og með börn þá berum við ábyrgð á þessum tilfinningum, þetta eru okkar tilfinningar og við verðum að takast á við þær. Megi mér lærast að veita tilfinningum mínum athygli, jafnvel á þeim stundum þegar við vildum helst ekki að þær væru til.

Minnispunktur dagsins
Þekkja þær, viðurkenna og losna við.

9.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Sum okkar, nýliðanna í GA, gátum ekki staðist þá freistingu að segja hverjum sem heyra vildi hversu “hræðileg” við höfðum við höfðum verið. Á svipaðan hátt og við ýktum hin smávægilegu afrek okkar þá ýktum við galla okkar með sektarkennd. Af ákafa “viðurkenndum við allt”, haldandi að afhjúpun synda okkar væri ígildi sannrar auðmýktar og mikinn andlegan eiginleika. Það var ekki fyrr en við uxum, með hjálp prógramsins, að við áttuðum okkur á að þessi syndaaflausn var í raun sýndarmennska. Og með þeirri hugljómum kom upphafið að vissri auðmýkt.

Er mér að byrja að skiljast að ég er ekki svo mikilvægur, eftir allt?

Bæn dagsins
Megi mér lærast að það er himinn og haf á milli sannrar auðmýtrar og leikrænnar sjálfs-ásökunar. Megi mér vera bent á ef ég ómeðvitandi fer að gerast miðpunktur athyglinnar með því að hreykja mér með sögum af fyrra líferni mínu. Megi ég varast að gera fíkn mína að einhverri lofsunginni hetjusögu. Megi ég forðast drambsamar “spila-sagnakviður.”

Minnispunktur dagsins
Ég ætla ekki að vera aðal stjarnan í eigin “spila-sagnakviðum.”

8.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Félagi minn í GA kenndi mér að sjá óhóflega sektarkennd mína í nýju ljósi, með því að stinga upp á að ég liti á hana sem ekkert annað en öfugsnúið stolt. Hann sagði ennfremur að viðeigandi eftirsjá vegna einhvers sem hefur gerst er í fínu lagi. En sektarkennd, nei það er ekki í lagi. Mér hefur lærst, eftir að hann sagði þetta við mig, að það að dæma okkur sjálf vegna einhverra mistaka sem við gerðum er alveg jafn slæmt og að dæma aðra fyrir þeirra mistök. Við erum í raun ekki í stakk búin til þess að dæma, jafnvel ekki okkur sjálf.

Gríp ég stundum til þess ráðs að “berja mig til dauða” þegar mér verður á ?

Bæn dagsins
Megi ég varast að vera fastheldinn á sektarkenndina, löngu eftir að ég ætti að vera búinn að segja skilið við hana. Megi ég þekkja muninn á eftirsjá og sektarkennd. Megi ég gera mér grein fyrir því að sektarkennd, sem ég dragnast um með til lengri tíma, er hugsanlega uppblásin hugmynd mín um eigið mikilvægi, sem og núverandi sjálfs-réttlæting. Megi Guð einn vera minn dómari.

Minnispunktur dagsins
Sektarkennd er hugsanlega öfugsnúið stolt.

7.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Fá okkar eru algjörlega laus við sektarkennd. Við kunnum að finna til sektarkenndar vegna einhvers sem við sögðum eða gerðum – einhvers sem létum ósagt eða ógert. Við erum svo samdauna nagandi sektarkennd að jafnvel þegar við erum ranglega sökuð um eitthvað þá lætur sektarkenndin á sér kræla. Þegar nagandi sektin lamar mig þá gefur augaleið að það dregur úr atorku minni. Ég verð því að losa mig við sektarkenndina – ekki með því að ýta henni til hliðar eða hunsa hana, heldur með því að bera kennsl á rót hennar og leiðrétta orsökina.

Hefur mér loksins lærst að “Hafa það einfalt”?

Bæn dagsins
Þar sem sektarkennd er kunnugleg líðan hjá spilafíkli, megi ég því læra að gera greinarmun á því hvenær tilfinningar mínar stafa einfaldlega af eðlilegri eftirsjá, yfir því að eitthvað skyldi gerast, eða hvenær þær taka á sig mynd varanlegrar sektar. Ég treysti á guð til þess að hjálpa mér að vinna úr og losa mig við sársaukann sem fylgir sektinni, sekt sem ég verð að bera kennsl á og losa mig við.

Minnispunktur dagsins
Sektarkennd er ekki lífstíðardómur.

6.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Eitt af því mikilvægasta sem ég sækist eftir og fæ í GA er að öðlast á ný getuna til þess að aðlaga mig að hlutum eins og þeir eru og að geta elskað án þess að reyna að hafa áhrif á eða stjórna einhverjum öðrum. Þetta ferli getur verið sársaukafullt; en umbunin er lífið sjálft – til fulls og í æðruleysi.

Er prógramið að hjálpa mér að öðlast hæfileikann til þess að hugsa á heilbrigðan og skynsamlegan hátt á ný, svo ég geti höndlað mannleg samskipti með ást og skilningi ?

Bæn dagsins
Megi ég bera næga virðingu fyrir þeim sem ég elska til þess að gefa þeim frelsi – hætta að stjórna, hagræða, hafa áhrif á og redda úr vandræðum. Megi ég elska nóg til þess að leyfa þeim að gera sín eigin mistök og bera ábyrgð á þeim. Megi ég læra að sleppa.

Minnispunktur dagsins
Að elska er að sleppa.

5.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
GA prógramið hefur sýnt mér fram á að sárafáir geti með sanni fullyrt að þeir elski alla. Flest okkar verða að viðurkenna að við höfum einungis elskað sárafá og að við höfum verið áhugalaus um marga. Hvað restina varðar, ja sannast að segja þá mislíkaði okkur við þau og jafnvel hötuðum. Við sem erum í GA finnum að við þurfum annað og meira en þetta til þess að ná og halda jafnvægi. Sú hugmynd að við getum – á ráðríkan hátt – elskað fáa, hunsað marga og óttast eða hatað einhvern yfir höfuð, verður að hverfa – hugsanlega smám saman.

Beini ég athyglinni á fundum að skilaboðunum frekar en sendiboðanum?

Bæn dagsins
Megi mér skiljast að það er ekkert pláss í batanum – né heldur í lífinu í heild – fyrir eitrað hatur né heldur áhugalaust afskiptaleysi. Ein mikilvægasta jákvæða hugmyndin sem ég skyldi festa mér í huga er að allar manneskjur, sem börn guðs, eru hluti af ástríku systra- og bræðralagi. Megi mér reynast erfitt að hata systkini mín.

Minnispunktur dagsins
Hlýddu á skilaboðin. Ekki dæma sendiboðann.

4.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Sátt er lykilatriði. Oft kom það fyrir að ég var ekki sáttur við sjálfan mig og var því ófær um að vera sáttur við aðra. Áður en ég kom í GA samtökin þá forðaðist ég sannleikann því hann skelfdi mig. En í dag þá get ég, með hjálp bræðra minna og systra í GA, horfst í augu við sannleikann. Og í dag þá finn ég í raun styrkingu í sannleikanum. Ég geri mitt besta til þess að stefna í rétta átt – og það er nægilegt fyrir mig.

Sætti ég mig við það hvernig ég var orðinn og hvað ég stefni á að verða?

Bæn dagsins
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt – fortíðinni með sínum hörmungum og eirðarleysi og þeim byrðum sem eftir eru frá spiladögum mínum. Megi sátt mín við hið liðna vera grunnurinn sem nýtt líf byggir á – líf sem ég ekki einvörðungu sætti mig við heldur fagna.

Minnispunktur dagsins
Sáttin er lykilatriði í batanum.

3.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
“Upphaf ástar er að leyfa þeim sem við elskum að vera þau sjálf, en ekki að reyna að breyta þeim svo þau endurspegli okkur sjálf.” Svo ritaði Thomas Morton eitt sinn. “Að öðrum kosti elskum við bara okkar eigin spegilmynd.” Þar sem ég hef skipti á sjálfseyðandi fíkn minni og heilbrigðri þörf fyrir GA prógramið og sporin tólf, finn ég að múrar þagnar og haturs eru að bráðna. Með því að taka hvert öðru eins og við erum, höfum við lært að elska á ný.

Ber ég næga umhyggju fyrir öðrum í GA prógraminu til þess að halda starfinu með þeim áfram, eins lengi og þörf krefur?

Bæn dagsins
Megi ég vera nægilega óeigingjarn til þess að elska annað fólk eins og það er, ekki eins og ég vil að það sé – þannig að þau endurspegli sjálfan mig eða næri eigingirnina. Megi ég fara mér hægar í ákafa mínum til þess að elska – nú þegar ég er fær um að finna fyrir ást á ný – og spyrja sjálfan mig hvort ég elski í raun viðkomandi en ekki spegilmynd mína. Megi ég taka í burtu “sjálfið” úr ástinni.

Minnispunktur dagsins
Ást er án skilyrða..

2.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Samfara því að læra að elska sjálfan mig og um leið að elska aðra skilyrðislaust, þá hef ég öðlast skilning á orðum St. Augustine, þegar hann sagði; “Kærleikur eyðir okkur eins og við vorum, svo við megum verða það sem við vorum ekki.” Ég finn meir og meir fyrir krafti þessa kærleika í GA prógraminu; orðin “okkur stendur ekki á sama” þýða það sama í mínum huga og orðin “okkur þykir vænt um.”

Mun ég – bara í einn dag – reyna að vera kærleiksríkur í öllum orðum mÍnum og gjörðum?

Bæn dagsins
Ég bið þess að mér auðnist að finna fyrir krafti og styrk þess kærleika sem ég finn í GA. Megi minn eigin kærleikur auka þann kraft, kraft sem tilheyrir okkur öllum. Megi mér vera annt um edrúmennsku félaga minna og að þeim lærist að lifa með henni á þægilegan og sköpunarríkan hátt.

Minnispunktur dagsins
Umhyggja kemur hlutunum af stað.

1.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ég er smám saman farinn að verða fær um að sætta mig við galla annarra, sem og kosti þeirra. GA prógramið kennir mér að “elska ætíð það besta í fari annarra – og aldrei að óttast þeirra verstu hliðar.” Að breyta viðhorfi mínu á þennan hátt er virkilega erfitt, en ég er byrjaður að átta mig á að allar manneskjur – þar með talið ég – hafa einhverja tilfinningalega galla og hafa oft á tíðum rangt fyrir sér.

Er ég að ná því að öðlast umburðarlyndi? Er ég að byrja að átta mig á því hvað sannur kærleikur merkir?

Bæn dagsins
Megi Guð veita mér umburðarlyndi og fordómaleysi gagnvart annmörkum eða göllum eða ónærgætni annarra, svo ég geti látið mér þykja vænt um kosti þeirra. Megi Guð veita mér tilsögn varðandi merkingu kærleikans – kærleika sem felur einnig í sér þolinmæði. Megi ég ekki verða blindur á galla þeirra sem ég elska, heldur verða fær um að skilja þá.

Minnispunktur dagsins
Kælrleikur er skilningur.