GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in July, 2024

21.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Hvernig getum við haldið í trúna á að allt muni fara vel, þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum eða ástandi sem okkur líkar ekki? Kannski þurfum við þá að spyrja okkur sjálf að því hvað trú sé. Trú á sér stoð í sannleika og kærleika. Við getum haft trú, ef við kjósum svo, sama hverjar aðstæðurnar eru. Og við getum, ef við kjósum svo, búist við að allt muni fara vel að lokum.

Hef ég valið?

Bæn dagsins
Megi ég vera þakklát/ur fyrir þá Guðs-gjöf að geta valið. Af þakklæti og vegna skynjunar minnar á nærveru Guðs, þá hef ég valið að hafa trú. Megi sú trú, eins og ég hef valið hana, verða svo sterk að hún geti flutt fjöll, svo sterk að hún haldi mér frá spilum, svo mikil að hún haldi aftur af holskeflu þeirra freistinga sem ég stend frammi fyrir, nægilega bjartsýn til þess að fleyta mér yfir núverandi sársauka yfir til endanlegrar hamingju.

Minnispunktur dagsins
Ekkert er ómögulegt, hafi maður trú.

20.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Oliver Wendell Holmes ritaði “það eru forréttindi viskunnar að hlusta.” Ef ég reyni eins og unnt er að rækta listina að hlusta – ógagnrýnið og án þess að fella dóma fyrirfram – þá eru góðar líkur á því að bati minn muni aukast. Ef ég reyni eftir frekasta megni að hlusta eftir þeim tilfinningum og hugsunum sem tjáð eru – í stað þess að hlusta á “ræðumanninn” – þá getur gerst að ég verði þeirrar blessunar aðnjótandi að fá hugmynd. Hugmynd sem gagnast mér. Grundvallareinkenni góðrar hlustunar er auðmýkt, sem endurspeglast í þeirri staðreynd að rödd Guðs talar til okkar meira að segja í gegnum óskýrmæltustu börn Hans.

Hættir mér til þess að láta mitt Ég-Er-Heilagari-En-Þú viðhorf koma í veg fyrir að ég heyri ráðleggingar annarra?

Bæn dagsins
Megi minn Æðri Máttur hindra mig í að þykjast vera Heilagari-En-Þú gagnvart hverjum þeim sem framkoma eða tungutak eða gagnstæð skoðun eða þekkingarskortur hindrar mig í að heyra hvað viðkomandi er að segja. Megi ég ætíð hlusta eftir rödd Guðs, sem getur heyrst þegar hvert okkar sem er tekur til máls.

Minnispunktur dagsins
Hlusta á ræðuna, ekki ræðumanninn.

Hugleiðing dagsins
Mörg okkar viðurkenna, þegar við komum í GA prógramið, að við séum efasemdarfólk eða trúlaus. Eins og einhver orðaði það, vilji okkar til þess að trúa ekki er svo sterkur að við kjósum frekar að mæla okkur mót við útfararstjórann frekar en að gera tilraun til þess að leita að Æðri Mætti með opnum huga. Sem betur fer, fyrir þau okkar sem erum með lokaðan huga gagnvart Æðri Mætti, þá ná hin uppbyggilegu öfl innan GA prógramsins nánast alltaf að brjóta á bak aftur þessa þrjósku okkar. Fyrr en varir þá uppgötvum við hina örlátu veröld trúar og trausts. Hún var til staðar allan tímann, okkur skorti bara viljann og opna hugann til þess að taka við henni.

Blindar þrjóskan mér stundum sýn á máttinn til góðs sem felst í trúnni?

Bæn dagsins
Ég vil þakka mínum Æðri Mætti fyrir þetta tækifæri til þess að opna hug minn; til þess að læra aftur um trú og traust; til þess að átta mig á að ráf mitt frá heiðarleika og raunveruleika breytti ekki því að Guð var til staðar í brjósti mér né umhyggju Guðs fyrir mér. Megi ég gera mér grein fyrir að það var mitt verk sem varð þess valdandi að ég missti trúna. Guði séu þakkir fyrir annað tækifæri til þess að trúa.

Minnispunktur dagsins
Höfnum vantrúarviljanum.

18.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Fá okkar vita í raun hvað það er sem við viljum og ekkert okkar veit hvað er okkur fyrir bestu. Sú vitneskja er í höndum Guðs. Þetta er staðreynd sem ég verð á endanum að taka gilda. þrátt fyrir þvermóðsku mína og uppreisnargirni. Héðan í frá ætla ég að takmarka bænir mínar við beiðni um leiðsögn, opnum huga til þess að taka leiðsögn og styrk til þess að fara eftir henni. Ég mun, eftir fremsta megni, fresta öllum ákvörðunum uns ég hef fengið staðfestingu frá mínum Æðra Mætti að hver og ein ákvörðun sé sú rétta fyrir mig.

Er ég að “prútta” við minn Æðri Mátt, haldandi að ég viti hvað sé mér fyrir bestu?

Bæn dagsins
Megi ég forðast að semja við minn Æðri Mátt. Megi ég þess í stað vera ílát, opinn fyrir hverri þeirri andagift sem Guð kýs að hella í mig. Ég bið þess að ég muni að ákvarðanir Guðs eru farsælli fyrir mig heldur en mínar eigin fálmkenndu áætlanir og að ákvarðanir hans muni koma þegar ég þarf á þeim að halda.

Minnispunktur dagsins
Ég mun ekki prútta – né veðja – við Guð.

17.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Til þess að stuðla að eigin velferð þá ætla ég að fara á fundi og taka þátt í umræðum, með opnum huga og vera tilbúinn til þess að fá og meðtaka nýjar hugmyndir. Til þess að öðlast hugarró og frið þá ætla ég að vera ákveðinn í því að notfæra mér þessar nýju hugmyndir. Ég ætla að hafa hugfast að í GA prógraminu býðst mér leiðsögn og stuðningur sem ég fæ ekki annars staðar. Ég ætla að finna það fólk sem skilur mín vandamál og ég mun þiggja leiðsögn þeirra í þeim málefnum sem valda mér vanlíðan og ruglingi.

Ætla ég að vera viljugur að hlusta – og deila?

Bæn dagsins
Þakka þér Guð, fyrir að færa GA prógramið inn í líf mitt, og veita mér með því betri skilning á Æðri Mætti. Hjálpa mér að muna að fundarsókn og árvekni á fundum eru það mikilvægasta í því viðvarandi og nýfundna hamingjusama lífi sem ég á í dag. Megi ég hlusta og deila af heiðarleika, opnum huga og viljugur.

Minnispunktur dagsins
Svona ætla ég að fara að því: Heiðarleiki, Opinn hugur, Viljugur

16.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Reynslan hefur sýnt að GA prógramið og Tólf Sporin virka fyrir hvern þann sem nálgast þau með opnum huga. Við verðum að hafa hugfast að við getum ekki búist við kraftaverki samdægurs: Það tók okkur jú mörg ár að koma okkur í þá stöðu sem við erum í. Ég ætla að reyna að vera ekki eins fljótur að draga ályktanir og dæma. Ég ætla að halda fast í þær væntingar að GA prógramið geti breytt lífi minu svo fremi að ég gefi því séns.

Er ég byrjaður að átta mig á því að endanleg sátt er ekki háð því að allt fari eins og ég óska mér?

Bæn dagsins
Ég bið um móttækilegra viðhorfi; um aðeins meiri þolinmæði, eilítið minni asa, og meiri auðmýkt í gagnrýni minni. Megi ég ætíð skilja að breytingar munu eiga sér stað – það mun allt gerast – ef ég bara hlusta eftir vilja Guðs. Guð gefi mér þrautsegju, því stundum verð ég að bíða eftir því að Skrefin virki.

Minnispunktur dagsins
Þolinmæði.

15.júlí

No comments

Hugleiðing dagsins
Þar sem við stóðum frammi fyrir nánast öruggri tortímingu, af völdum spilafíknarinnar, þá endaði það með þvi að við urðum að opna hug okkar fyrir andlegum málefnum. Það má með sanni segja að hinar fjölmörgu aðferðir sem við notuðum til þess að veðja og leggja undir hafi verið kröftugur málsvari; á endanum gerðu þær okkur móttækileg. Okkur lærðist að þegar við í þrjósku lokum huganum, þá erum við í raun að fara margs á mis.

Hafna ég umsvifalaust öllum nýjum hugmyndum? Eða er ég þolinmóður og reyni að breyta hinu gamla lífsmynstri mínu ?

Bæn dagsins
Megi ég vera með opinn huga, sérstaklega gagnvart því sem viðkemur andlegum málefnum, hafandi það í huga að “andlegt” er annað og meira en “trúarlegt”. Megi ég muna að lokaður hugur er einkenni sjúkdómsins en opinn hugur er grundvöllur batans.

Minnispunktur dagsins
Hvaða vörn er það sem felst í lokuðum huga?

14.júlí

No comments

Hugleiðing dagsins
Í ljósi þess hversu föst við erum í hinum gömlu hugsunum okkar og hegðun, þá er það skiljanlegt að við streitumst við þegar nýjar hugmyndir eru lagðar fyrir okkur þegar við erum ný í GA prógraminu. Þegar við finnum fyrir slíkri mótstöðu þá er engin þörf á að vísa viðkomandi hugmynd á bug fyrir fullt og allt; okkur hefur lærst að það er farsælla að leggja hugmyndina bara til hliðar um stundarsakir. Aðalatriðið er að það er ekki til nein “rétt” leið eða “röng”. Hvert okkar notfærir sér það sem kemur sér best á hverjum tíma og heldu opnum hug gagnvart hverri þeirri hjálp sem kann að koma sér vel á öðrum stundum.

Reyni ég að vera með opinn huga?

Bæn dagsins
Megi ég vera upplýstur um raunverulega merkingu þess að vera með opinn huga, meðvitaður um það að gamla skilgreiningin mín, þar sem ég taldi opinn hug vera sama og að vera víðsýnn, á ekki við hér. megi ég stöðugt vera opinn fyrir hugmyndum og uppástungum þeirra sem komu á undan mér í prógramið. Það sem virkaði fyrir þau getur virkað fyrir mig, sama hversu langsótt það kann að virðast eða augljóst.

Minnispunktur dagsins
Einungis opinn hugur er læknanlegur.

13.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Nú orðið fer ég á GA fundi til þess að tengja við það sem félagarnir eru að segja, ekki til þess að reyna að finna það sem passar ekki við mína reynslu. Og þegar ég hlusta eftir tengingum, þá er merkilegt hversu margar ég finn, sérstaklega varðandi tilfinningar. Þegar ég fer á fund þá hef ég í huga að ég er hér vegna eigin fíknar, ekki vegna fíknar einhvers annars, og það sem er mikilvægast, nefnilega hvaða afleiðingar fíknin hafði á hug minn og líkama. Ég fer á fundi vegna þess að það er vita vonlaust fyrir mig að ætla mér að vera spilalaus upp á eigin spýtur. Ég þarfnast GA prógramsins og Æðri Máttar.

Er ég farinn að draga úr dómhörku minni gagnvart öðrum?

Bæn dagsins
Megi ég halda árvekni minni þegar ég hlusta, einu sinni enn, á Gunna eða Halla eða Pétur eða Fríðu eða Jón eða Siggu segja sína sögu af eymd og örvæntingu. Megi ég finna, þegar ég hlusta af þeirri athygli sem ég við geta beitt, að hvert og eitt þeirra hefur eitthvað að segja sem ég get tengt við og samsamað minni sögu. Megi ég verða enn einu sinni hissa á því hversu margt við eigum sameiginlegt. Megi það sem er líkt með okkur þjappa okkur saman.

Minnispunktur dagsins
Í því sem við eigum sameiginlegt felst styrkurinn.

12.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Að mörgu leyti þá eru GA samtökin eins og þokkalega hamingjusamt skemmtiferðaskip, eða þegar vandræði steðja að, eins og skipalest. En til lengri tíma litið þá verðum við, hvert og eitt, að kortleggja sína eigin leið í gegnum lífið. Þegar sjórinn er sléttur þá er okkur hætt við að verða kærulaus. Ef við vanrækjum 10. Sporið þá er hugsanlegt að við hættum að gæta að því hvar við erum stödd. En ef við höfum 10. Sporið ætíð í huga þá mun okkur sjaldan reka svo af leið að við getum ekki leiðrétt stefnuna og komist á réttan spöl.

Átta ég mig á því að með því að ástunda 10. Sporið reglulega þá mun það hjálpa mér að öðlast æðruleysi og stuðla að hamingju?

Bæn dagsins
Megi 10. Sporið vera áttavitinn sem ég styðst við á ólgusjó lífsins og hjálpar mér að leiðrétta stefnuna þegar ég stefni á grynningar. megi ég hafa í huga að ef ekki væri fyrir alvitran Kaftein og árvekni skipsfélaga minna, þá gæti ég siglt um stefnulaus og yrði auðveldlega óttasleginn.

Minnispunktur dagsins
Að taka stefnuna út frá styrkri stjörnu.