GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in August, 2024

Hugleiðing dagsins
Það kemur fyrir að ég tel mig vita hver vilji guðs sé þegar um annað fók er að ræða. Ég segi við sjálfan mig, “Þessi manneskja þarfnast lækningar,” eða “Það þarf að forða þessum frá þeirri misnotkun sem hann verður fyrir,” og ég fer að biðja fyrir því að svo megi verða. Hjarta mitt er á réttum stað þegar ég bið á þennan hátt, en þessar bænir byggja á þeirri ályktun að ég viti hver vilji guðs sé varðandi þá manneskju sem ég er að biðja fyrir. GA prógramið kennir mér aftur á móti að ég ætti að biðja þess að guðs vilji – hver svo sem hann er – verði, fyrir aðra sem og fyrir mig.

Ætla ég að muna að guð er reiðubúinn að vingast við mig, upp að því marki sem ég treysti honum?

Bæn dagsins
Ég lofa guð fyrir tækifærið til þess að hjálpa öðrum. Ég þakk líka guði fyrir að gera mig viljugan til þess að hjálpa öðrum, fyrir að draga mig úr turni sjálfselskunnar svo ég geti hitt og deilt með og annast annað fólk. Kenndu mér að biðja þess að “Verði þinn vilji” í anda þesskærleika sem guð fyllir mig af.

Minnispunktur dagsins
Ég mun treysta vilja guðs.

Hugleiðing dagsins
Ég ætla að byrja daginn í dag með bæn – bæn í hjarta, bæn í huga og orð bænarinnar á vörum mínum. Fyrir tilstuðlan bænarinnar mun ég vera stilltur inn á guð í dag, teygjandi mig fram á við til þess að verða það sem stefni að. Bænin mun beina huga mínum, hjálpa meðvitund minni að vaxa uns ég sé að það er ekkert sem aðskilur mig og guð. Allar takmarkanir hverfa á braut þegar ég læt mátt guðs flæða í gegnum mig.

Veit ég að ekkert getur yfirbugað mátt guðs í lífi mínu?

Bæn dagsins
Megi ég í dag bjóða mínum Æðri Mætti upp á linnulausa bæn, ekki bara “einu-sinni-a-morgni-dugar” tegundina. Megi mér verða hugsað til míns Æðri Máttar í dögun, kaffi hléum, hádeginu, þegar húmar að kveldi, eða á rólegri kvöldstund – og á öllum stundum þess á milli. Megi vitund mín vaxa uns mörkin þurrkast út og krafturinn verður hluti af mér og ég hluti af kraftinum.

Minnispunktur dagsins
Að eiga bænafylltan dag.

Hugleiðing dagsins
Bæn getur veitt margvíslega umbun. Ein sú mesta er sú tilfinning að finnast ég tilheyra. Ég lifi ekki lengur eins og ókunnugur í ókunnugu landi, utanaðkomandi í fjandsamlegu umhverfi. Ég er ekki lengur tíndur, óttasleginn og tilgangslaus. Ég tilheyri. Í GA samtökunum áttum við okkur á að á þeirri stundu sem við sjáum vilja Guðs bregða fyrir – á þeirri stundu sem við byrjum að sjá sannleika, réttlæti og kærleika sem hin raunverulegu og eilífu gildi í lifinu – þá erum við ekki lengur svo viðkvæm fyrir því sem virðist vera sönnun fyrir hinu gagnstæða í umhverfi okkar.

Trúi ég því að Guð vaki yfir mér af kærleika?

Bæn dagsins
Megi ég vera þakklátur fyrir huggunina og friðinn sem fylgir því að finnast ég tilheyra – Guði hinu alvitra “foreldri” og fjölskyldu Hans á Jörðu. Megi ég ekki þurfa límmiða á stuðarann eða hávaðasaman félagsskap til þess að gefa mér sjálfsmynd. Ég er Guðs, í gegnum bænina.

Minnispunktur dagsins
Ég finn mína sjálfsmynd með hjálp bænarinnar.

Hugleiðing dagsins
Søren Kierkegaard ritaði, “bæn mun ekki breyta Guði, en hún breytir þeim sem biður.” Þau okkar í GA samtökunum, sem höfum lært að gera bænina að reglubundnum hluta af lífi okkar, okkur kemur ekki til hugar að sleppa bæninnni – frekar en við myndum sleppa sólskini, fersku lofti eða mat – og af sömu ástæðu. Alveg eins og líkami okkar getur hrörnað og visnað ef hann fær ekki sína næringu, þá á það sama við um sálina.Við þörfnumst öll ljóssins sem stafar af veruleika Guðs, þeirrar næringar sem felst í styrk Guðs og andrúmslofts náðar Hans.

Þakka ég Guði, eins og ég skil hann, fyrir allt það sem hann hefur gefið mér, fyrir allt það sem hann hefur losað mig við og fyrir allt það sem hann hefur leyft mér að halda?

Bæn dagsins
Kæri Æðri Máttur: Ég vil þakka þér fyrir að breiða ró yfir ringulreið mína, fyrir að láta hina skröltandi strengi tengsla minna við annað fólk fá samhljóm á ný, fyrir að púsla saman hinni tættu sjálfsmynd minni, fyrir að gefa mér þá bindindisgjöf að upplifa nýjan heim fullan af undrum og tækifærum. Megi ég vera áfram sannlega Þinn. Þinn einlægur.

Minnispunktur dagsins
Sama hversu einföld bænin er, þá nærir hún sálina.”

Hugleiðing dagsins
Þegar ég skoða vandlega þá galla mína sem ég er ófús að láta af, þá sé ég að ég ætti að þurrka út þær ósveigjanlegu línur sem ég hef dregið. Ég gæti þá, hugsanlega í sumum tilvikum sagt, “jæja, þennan ætla ég ekki að losa mig við alveg strax.” Það sem við ættum aldrei að segja eða hugsa varðandi galla okkar er: “Þennan ætla ég aldrei að losa mig við.” Um leið og við notum orðin nei eða aldrei þá lokum við á náð okkar Æðri Máttar. Slíkur uppreisnarhugur, eins og við höfum margoft séð hann birtast í frásögnum annarra, getur reynst lífshættulegur. Við ættum, í staðinn, að varpa fyrir róða takmörkuðum markmiðum og byrja að fylgja vilja Guðs.

Er mér að lærast að aldrei að segja aldrei?

Bæn dagsins
Megi Guð fjarlægja hverja þá hindrun uppreisnargirni minnar, sem fær mig til að þrást við að breyta óæskilegum eiginleikum mínum. Í skugga ranghugmynda og sjálfsblekkingar, um á ég sé “einstakur” og “sérstakur” og á einhvern hátt laus við afleiðingar gjörða minna, fer ég að viðurkenna fyrir Guði að ég hafi boðið náttúrulegum lögmálum heilbrigðis og geðheilsu birginn, sem og guðlegum lögum mannlegrar góðmennsku. Megi Guð þurrka upp þá andstöðu og óvirðingu, sem eru einkennandi varnarviðbrögð þess sjúkdóms sem ég er með.

Minnispunktur dagsins
Andstaða er afsprengi ranghugmynda.

Hugleiðing dagsins
Hvað veldur spilafíkn? Spiluðum við vegna einhverra innri galla eða annmarka eða vegna þess hvernig var ástatt fyrir okkur í lífinu? Í Rauðu bókinni okkar A New Beginning segir: “Við vitum það ekki og . . . við megum ekki við því að láta það skipta okkur máli. Þau sem leita til okkar þurfa hjálpina strax . . . Ávinningur af upprifjun hins liðna og vangaveltum um fortíðina er lítilfjörlegur í samanburði við verðlaunin sem við hljótum þegar við hjálpum öðrum að fóta sig í lífinu.” Þó svo að okkur langi öll til þess að losna við galla okkar, þá munu þeir birtast okkur ef við deilum reynslu okkar á heiðarlegan hátt með öðrum. Við höfum séð, að með hjálp okkar Æðri Máttar og með því að hjálpa öðrum GA félögum, þá hefur sjálfselska og ónærgætni verið tekin frá okkur.

Átta ég mig á því að með því að deila með öðrum þá hjálpar það mér að sjá sjálfan mig eins og ég er?

Bæn dagsins
Megi ég, í sjálfsskoðuninni, ekki verða svo upptekinn af eigin göllum og annmörkum, að það geri mig ófæran um að ná til annarra í samtökunum. Megi brestir mínir, sem höfðu magnast upp á meðan ég var virkur, verða mér smám saman ljósir með tímanum, eftir því sem ég held áfram að vinna Prógramið af sannfæringu og einlægni.

Minnispunktur dagsins
Með því að deila þá verða gallar mínir síður nístandi.

Hugleiðing dagsins
Án frelsis frá spilafíkn erum við allslaus. En við getum ekki öðlast frelsið nema vera viljug til þess að takast á við þá persónulegu bresti sem knésettu okkur. Ef við neitum að vinna í göllum okkar, þá mun fíknin næsta örugglega ná aftur tökum á okkur. Ef við höldum okkur frá spilum, með lágmarks bata, þá munum við hugsanlega staðna í notalegu en hættulegu tómarúmi um stund. En áhrifaríkasti batinn felst í stöðugri vinnu, með hjálp Sporanna, og þá munum við sannanlega finna viðvarandi og raunverulegt frelsi hjá okkar Æðri Mætti.

Held ég áfram för minni, fullviss um að ég sé loks á réttri braut?

Bæn dagsins
Megi Guð sýna mér að frelsi frá spilafíkn er óstöðugt ástand nema ég öðlist líka frelsi frá hvötum mínum. Megi Guð forða mér frá því að notfæra mér Prógramið með hálfum hug, og gera mér ljóst að ég get ekki orðið andlega heill að nýju ef ég held áfram að leyfa óheiðarleika mínum og eigingirni að tæta mig í sundur.

Minnispunktur dagsins
Með hálfum huga get ég ekki orðið heill að nýju.

Hugleiðing dagsins
Eftir að hafa unnið Fjórða, Fimmta, Sjötta og síðan það Sjöunda, þá eiga sum okkar það til að setjast niður og bíða þess að Æðri Máttur fjarlægi brestina.GA Prógramið er ekki ósvipað og sagan af heilögum Frans frá Assisi, þar sem hann var við vinnu í fallegum garði. Vegfarandi, sem átti leið framhjá, sagði við Frans “þú hlýtur að hafa beðið þess heitt og innilega að plönturnar myndu verða svona fallegar.” Heilagur Frans svaraði, “Já, það gerði ég. En í hvert sinn sem ég byrjaði að biðja, teygði ég mig í arfasköfuna.” Á þeirri stundu sem “bið” okkar breytist í “vinnu”, þá byrja loforð Sjöunda Sporsins að verða að veruleika.

Býst ég við að minn Æðri Máttur vinni alla vinnuna?

Bæn dagsins
Megi ég ekki falla í þá gryfju að biðja bara og bíða – eftir því að Æðri Máttur sjái um alla vinnuna. Megi ég þess í stað, þegar ég bið, teygja mig eftir þeim verkfærum sem Prógramið hefur fært mér upp í hendur. Megi ég biðja um leiðsögn varðandi hvernig ég geti sem best nýtt mér þau verkfæri.

Minnispunktur dagsins
Biðja og framkvæma.

23.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég heyrði einu sinni lesið á GA fundi, ” Brennið inni í vitund hvers manns að hann getur öðlast bata, óháð öðrum. Eina skilyrðið er að hann treysti guði og hafi hreint borð.” Það er einmitt það sem sjöunda sporið merkir í mínum huga – að ég ætli að hreinsa borðið og muni þiggja alla þá hjálp sem til þarf.

Geri ég mér grein fyrir því að ef ég vinn sjöunda sporið þá er ég ekki að gefa neitt upp á bátinn, heldur er ég þvert á móti að losna við hvaðeina sem gæti raskað ró minni og komið mér til þess að spila aftur?

Bæn dagsins
Megi ég vita að ef ég skyldi gefast upp á því að vera auðmjúkur, sem er lykilatriði fyrir árangri, þá er ég aftur farinn að takast á við of mikla byrði og farinn að halda að ég geti stjórnað. Megi guð í visku sinni gera sinn vilja að mínum, sinn styrk að mínum, sína góðmennsku að minni. Þar sem hann fyllir mig þessum himnesku gjöfum, þar getur ekki verið mikið rými fyrir bresti.

Minnispunktur dagsins
Treysta guði og hreinu borði.

22.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Áður vorum við vön að biðja þess að hlutirnir breyttust – að við yrðum heppin, að ekki kæmist upp um okkur og svo framvegis. GA hefur kennt mér að raunveruleg bæn felst í þvi að biðja guð um breytingu á sjálfum mér. Það er einmitt það sem felst í sjöunda sporinu; að biðja guð í auðmýkt að losa okkur við brestina. Við biðjum guð um hjálp og það merkilega er að ef við virkilega viljum hjálp þáerum við bænheyrð. Útkoman byggir það mikið á okkar eigin vilja að það virðist sem lausnin hafi verið í okkar höndum. En hjálpin frá guði er veigamesti þátturinn; án hans hefðum við ekki getað þetta ein.

Hef ég beðið guð um hjálp við að breyta sjálfum mér?

Bæn dagsins
Megi ég læra að biðja á yfirgripsmikinn hátt – að guðs vilji verði, að guð losi mig við brestina. Það er engin þörf á að tilgreina nákvæmlega í hverju brestirnir felast; Guð veit allt og hann veit hverjir þeir eru. Megi mer lærast að smáatriði eru ekki nauðsynleg í bænum mínum. Það eina sem skiptir máli er auðmýkt og trú mín á að guð hafi í raun þann mátt sem til þarf til þes að breyta mínu lífi.

Minnispunktur dagsins
Að biðja guð um að breyta mér.