GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in August, 2024

Hugleiðing dagsins
Ef ég dvel við nauðaómerkilega hluti sem pirra mig – og af þeim sprettur gremja sem vex og dafnar eins og órækt – þá gleymi ég hvernig ég gæti verið að víkka sjóndeildarhringinn og víðsýni. Það er, fyrir mig, afbragðs aðferð til þess að halda vandamálum í réttu hlutfalli vi vægi þeirra. Þegar einhver eða eitthvað veldur mér vandræðum, þá ætti ég að reyna að sjá atburðinn í samhengi við allt annað í lífi mínu – sérstaklega það góða og það sem ég skyldi vera þakklátur fyrir.

Vil ég eyða lífi mínu í áhyggjur af smámunum? Smámunum sem þurrka upp andlegt þrek mitt?

Bæn dagsins
Megi Guð forða mér frá því að hafa óþarfa áhyggjur af smámunum. Megi Hann, í staðinn, opna augu mín fyrir mikilfengleika lífsins og hinum endalausu undrum heimsins. Megi Hann veita mér þá víðsýni sem getur smækkað hinar smávægilegu og ergilegu áhyggjur mínar niður í rétta stærð – eins og flugu í dómkirkjuglugga.

Minnispunktur dagsins
Agnarsmár pirringur getur eyðilagt sýn mína.

Hugleiðing dagsins
Við höfum verið okkar eigin verstu óvinir megnið af ævinni og við höfum oft á tíðum skaðað okkur sjálf vegna “réttlátrar” gremju yfir einhverju smávægilegu. Það eru án efa fjölmargar ástæður fyrir gremju í heiminum og flestar þeirra “réttlátar”. En við getum aldrei svo mikið sem byrjað að sefa allan harm í heiminum né hagað hlutunum þannig að það geðjist öllum. Ef við höfum verið beitt óréttlæti, af öðrum eða einfaldlega af lífinu sjálfu, þá getum við forðast að auka erfiðleikana með því að fyrirgefa viðkomandi og yfirgefið þannig þann eyðileggjandi ávana sem felst í því að rifja stöðugt upp særindi okkar og niðurlægingu.

Get ég trúað því að særindi gærdagsins eru skilningur dagsins í dag, samofin við kærleika morgundagsins

Bæn dagsins
Hvort sem ég sé beittur óréttlæti eða trúi því í eigin huga, megi ég þrátt fyrir það reyna að forðast að vera gramur eða móðgaður. Þegar ég hef borið kennsl á þær tilfinningar sem eru rótin að gremju minni, megi ég þá vera sú sterka manneskja sem getur fyrirgefið og gleymt.

Minnispunktur dagsins
Við getum ekki leiðrétt allt ranglæti.

9.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ég hef oft tekið eftir því að það eru sterk tengsl á milli ótta míns og gremju. Ef ég óttast í laumi að vera ófullkominn, svo dæmi sé tekið, þá hættir mér til þess að vera gramur út í hvern þann sem, með gjörðum eða orðum, afhjúpar minn ímyndaða ófullkomleika. En það er yfirleitt of sársaukafullt að viðurkenna að minn eigin ótti og mínar eigin efasemdir séu orsök gremju minnar. Það er mun aðveldara að kenna “slæmri hegðun” annarra eða “eigingjörnum gjörðum” þeirra um – og nota það sem réttlætingu fyrir eigin gremju.

Geri ég mér grein fyrir því að ef ég lefi mér að vera gramur út í einhvern, þá er ég að bjóða þeirri manneskju að búa frítt í mínu höfði?

Bæn dagsins
Megi Guð hjálpa mér að komast yfir þá tilfinningu að finnast ég vera ófullkominn. Megi ég vita að ef ég met mig ætíð skör neðar en næstu manneskju, þá er ég ekki að veita skapara mínum þá viðurkenningu sem hann á skilið, hann sem hefur gefið hverju okkar einstaka blöndu hæfileika. Ég er, þegar ég er gramur, að nöldra yfir fyrirætlan Guðs. Megi ég skyggnast á bakvið ruslahrúguna af eigin gremju í leit að eigin efasemdum um sjálfan mig.

Minnispunktur dagsins
Um leið og ég byggi sjálfan mig upp, ríf ég niður eigin gremju.

8.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Sem spilafíkill í bata þá verð ég að minna sjálfan mig á að sama hve gremja mín er samfélagslega viðurkennd, þá mun það aldrei draga úr eituáhrifum hennar gagnvart mér sjálfum. Í raun má segja að vandamálið við gremju sé svipað og vandamál spilafíknar. Hvorki póker né spilavíti er öruggt fyrir mig. Ég hef sótt góðgerðarsamkomur, oft í glaðværum félagsskap, þar sem fjárhættuspil hafa virst næstum harmlaus.

Á sama hátt og ég afþakka kurteisislega en ákveðið að taka þátt í fjárhættuspili, mun ég einnig afþakka gremju?

Bæn dagsins
Þegar reiði, sárindi, ótti eða sektarkennd – til þess að vera félagslega samþykkt – setja upp kurteisissvipinn og dulbúa sig sem gremja, megi ég forðast allt samneyti við þau. Þessar tilfinningar, eins og þær eru dulbúnar, geta verið jafn varasamar og sjálf spilafíknin.

Minnispunktur dagsins
Varist dulbúning.

7.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Hvað getum við gert varðandi gremju okkar? Reynslan hefur sýnt að best er að skrá gremjuna á blað, lista það fólk, stofnanir eða þau lögmál og reglur sem valda okkur gremju eða reiði. Þegar ég skrái eigin gremju og spyr síðan sjálfan mig afhverju ég sé gramur, þá hef ég komist að því að í flestum tilvikum þá er það sjálfsálit mitt, fjárhagur minn, metnaður minn eða persónuleg sambönd sem hafa skaðast eða verið ógnað.

Mun ég nokkurn tíma læra að það versta í sambandi við mína eigin gremju er ég er stöðugt með hugann við að veita einhverjum makleg málagjöld?

Bæn dagsins
Megi Guð hjálpa mér að finna leið til þess að losna við gremjuna. Megi ég hætta að eyða tímunum saman í að upphugsa leikrit þar sem ég í hlutverki reiðu persónunnar, helli mér yfir eða hefni mín á þeim sem ég taldi hafa brotið á mér. Þar sem þessi leikrit verða aldrei að veruleika, megi ég þá frekar skrá niður gremju mína og skoða hvað sé á bakvið hverja og eina. Megi þetta vera leið fyrir mig til þess að koma skikkan á gremjuna.

Minnispunktur dagsins
Gremja leiðir til ofbeldis; gremja í friðsamri manneskju leiðir til sjúkleika.

6.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Félgasskapurinn í GA kennir okkur, stundum af biturri reynslu og sársaukafullri, að gremja er aðal óvinur okkar. Gremja er helsti eyðileggingarmáttur okkar. Af gremju spretta margvíslegir aðrir andlegir kvillar, því við höfum ekki bara verið líkamlega og huglega veik, heldur andlega veik einnig. Eftir því sem við jöfnum okkur og andleg heilsa okkar fer batnandi, fer okkur líka batnandi líkamlega og huglega.

Geri ég mér grein fyrir því að fátt er jafn biturt og það að vera bitur? Sé ég að eitur biturleikans er hættulegra mér en þeim sem biturðin beinist að?

Bæn dagsins
Ég bið um hjálp við að fjarlægja hrúgu gremjunnar sem ég hef sankað að mér. Megi mér lærast að gremja getur borið margar grímur; gremja getur stafað af ótta – við að missa vinnu, missa ástvin, missa af tækifæri – gremja getur verið sárindi eða sektarkennd. Megi ég vita að Guð er minn græðir. Megi ég viðurkenna eigin þörf.

Minnispunktur dagsins
Gremja er rusl; burt með hana.

5.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Einn af mikilvægu hlutunum sem við lærum í GA er að vera góð við okkur sjálf. Fyrir svo mörg okkar reynist það furðanlega erfitt. Sum okkar fá svo mikla nautn af því að þjást að við eigum það til að mikla fyrir okkur hvert það atvik sem veldur okkur vansa. Sá sem er haldinn sjálfsvorkun nýtur þess að vera píslarvottur – allt þar til unaður æðruleysis og hamingju veitist honum fyrir tilstuðlan GA Prógramsins og Tólf Sporanna.

Er ég smám saman að læra að vera ég sjálfur?

Bæn dagsins
Megi ég læra að fyrirgefa sjálfum mér. Ég hef beðið um – og fengið – fyrirgefningu Guðs og annarra, svo hvers vegna er svona erfitt að fyrirgefa sjálfum mér? Af hverju magna ég enn upp þjáningu mína? Af hverju held ég áfram að sleikja tilfinningasárin? Megi ég fylgja eftir dæmi Guðs um fyrirgefningu, halda áfram með Prógramið og læra að vera góður við sjálfan mig.

Minnispunktur dagsins
Píslarvætti: píslar þvættingur.

4.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Ein besta leiðin til þess að losna úr sjálfsvorkunar gildrunni er að færa “skyndi bókhald.” Fyrir hverja eymdarfærslu gjaldamegin í bókhaldinu, þá getum við örugglega fundið eitthvað lán eða blessun sem við getum skráð í tekjuhliðina; góð heilsa, sjúkdómur sem við þjáumst ekki af, þeir vinir okkar sem okkur þykir vænt um og sem þykir vænt um okkur, sólarhringur án fjárhættuspila, gott dagsverk. Ef við bara gefum okkur smá stund og veltum hlutunum fyrir okkur þá getum við auðveldlega fundið mýmargt jákvætt sem vegur mun þyngra en þær fáu eymdarfærslur í bókhaldinu, sem við byggjum sjálfsvorkun okkar á.

Er andlegt jafnvægi mitt á jákvæðum nótum í dag?

Bæn dagsins
Megi ég læra að greina í sundur gjalda- og tekjufærslur í tilfinningalífi mínu. Megi ég færa til tekna hin fjölmörgu lán og þá blessun sem mér hlotnast. Megi niðurstaða bókhaldsins, sýna mér svo ekki verði um villst, að ég hef úr digrum sjóði jákvæðra færslna úr að moða

Minnispunktur dagsins
Ég hef margt jákvætt í mínum fórum.

3.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Tólf Sporin voru hönnuð fyrir fólk eins og okkur – sem styttri leið til Guðs. Sporin eru keimlík sterku meðali sem getur læknað okkur af krankleika örvæntingar, vanmáttarkenndar og sjálfsvorkunnar. Þrátt fyrir það erum við stundum treg til þess notfæra okkur Sporin. Af hverju? Kannski vegna þess að innst inni þráum við að vera fórnarlömb. Meðvitað og vitsmunalega teljum við okkur vilja hjálp en einhver dulin sektarkennd gerir það að verkum að við þráum refsingu umfram lausn.

Get ég reynt að vera kátur, þegar allt virðist leiða mig til örvinglunar? Átta ég mig á því að örvinglaun er oftar en ekki gríma fyrir sjálfsvorkunn

Bæn dagsins
Megi ég draga fram í dagsljósið hina földu sektarkennd sem leynist innra með mér og sem fær mig til þess að vilja refsa sjálfum mér. Megi ég kanna eigin örvinglan og átta mig á því hvort hún sé í raun svikari – sjálfsvorkun með grímu. Nú þegar ég veit að Tólf Sporin geta fært mér lausn, megi ég þá nota þau í stað þess að veltast um í eigin vanlíðan.

Minnispunktur dagsins
Sporin Tólf eru tröppur Guðs.

2.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Þegar ég byrja að bera saman líf mitt og annarra, þá byrja ég að færast nær og nær hinu myrka feni sjálfsvorkunar. Ef ég, á hinn bóginn, hef á tilfinningunni að það sem ég er að gera sé rétt og gott, þá minnkar þörf mín fyrir viðurkenningu og samþykki annarra. Lófaklapp er fínt og gott, en er ekki ómissandi fyrir mína innri hamingju. Ég tileinka mér GA prógramið til þess að losna við sjálfsvorkun, ekki til þess að auka mátt hennar til þess að eyðileggja mig.

Er ég að læra af öðrum hvernig þau hafa unnið úr sínum vandamálum, svo ég geti gert það sama við mín vandamál?

Bæn dagsins
Guð, lát mig ætíð vera vakandi fyrir því hvaðan ég kem og þeim nýju markmiðum sem ég hef verið hvattur til að setja mér. Megi ég hætta að leyta eftir viðurkenningu frá öðrum og fara að upplifa eigin sjálfsvirðingu, sjálfsmat og sjálfsálit þegar ég veit að ég hef unnið til þess. Hjálpa mér að gera sjálfan mig aðlaðandi í eigin augum, svo það megi skína í gegn, í stað þess að leita stöðugt aðdáunar utan frá. Ég er þreyttur á að vera í hlutverki og búningi, Guð; hjálpaðu mér að vera ég sjálfur.

Minnispunktur dagsins
Hefur einhver séð MIG?