GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in September, 2024

Hugleiðing dagsins
Sálfræðingurinn Alfred Adler mælti einu sinni fyrir um eftirfarandi úrræði, sem lækningu fyrir þunglyndissjúkling; “Ef þú byrjar hvern dag á því að hugleiða hvernig þú getir glatt einhvern annan en þig sjálfan, þá munt þú finna fyrir bata. Ef þú getur haldið þig við þessa áætlun í tvær vikur þá munt þú ekki þurfa frekari meðferð.” Þetta “úrræði” Adlers er ekki svo frábrugðið því sem við gerum í GA prógraminu, þegar við vinnum tólfta sporið, til þess að vinna bug á okkar veikindum.

Held ég tilfinningum mínum út af fyrir mig þegar ég er niðurdreginn? Eða geri ég það sem vinir mínir í GA samtökunum mæla með?

Bæn dagsins
Megi ég hafa algjöran viðsnúning á sjálfum mér, viðra þessa þunglyndistilfinningu sem hefur svo lengi verið grafin djúpt innra með mér, skipta henni út fyrir þá vellíðan sem fylgir væntumþykju raunverulegra vina og á endanum að færa öðrum, sem kljást við sömu tilfinningu, sams konar væntumþykju.

Minnispunktur dagsins
Eina raunverulega örvæntingin er einmanaleiki – og einmanaleika er hægt að laga.

Hugleiðing dagsins
Þeim mun lengur sem ég er í GA prógraminu og reyni að fylgja grundvallaratriðum þess í daglegu lífi, þeim mun sjaldnar finn ég fyrir önuglyndi og þunglyndi. Kannski er eitthvað til í þessu; “Blessaður er sá sem væntir einskis, því hann verður ekki fyrir vonbrigðum, heldur gleðst á hverjum degi vegna daglegrar sönnunar á kærleika guðs og vináttu manna.”

Er einhver, einhversstaðar, sem þarfnast mín í dag? Ætla ég að leita þeirrar manneskju og reyna að deila því sem mér hefur verið gefið í GA prógraminu?

Bæn dagsins
Megi ég vera fullkomlega þakklátur guði fyrir að létta af mér þunglyndinu. Megi ég gera mér grein fyrir að þunglyndi mitt mun ætíð hverfa, svo fremi að ég vænti ekki of mikils. Megi ég vita að ylur vináttu getur fyllt hið kalda djúp örvæntingar. Megi ég gefa öðrum slíkan yl.

Minnispunktur dagsins
Að leita einhvers til þess að deila hlutskipti með.

Hugleiðing dagsins
Okkur hefur verið sagt að engin staða sé vonlaus. Til að byrja með finnst okkur vitaskuld erfitt að trúa þessu. Andstæðurnar – von og örvænting – eru mennskar tilfinningar. Það erum við sem erum vonlaus, ekki aðstæðurnar í lífi okkar. Þegar við gefum vonina upp á bátinn og verðum þunglynd, þá er það vegna þess að við erum ófær um, í bili, að trúa á að hlutirnir geti breyst til hins betra.

Get ég tekið þessu; “Við getum ekki breytt öllu sem við tökumst á við, en við getum ekki breytt neinu nema við tökumst á við það”?

Bæn dagsins
Megi ég muna að vegna þess að ég er mennskur og get valið, þá er ég aldrei “vonlaus”. Einungis aðstæðurnar sem ég er í þá stundina virðast vonlausar, sem getur dregið mig niður í bjargarlaust þunglyndi, þegar mér finnast öll sund lokuð. Megi ég þá líka muna að þó svo að ég sjái enga lausn þá get ég valið að biðja um hjálp guðs.

Minnispunktur dagsins
Ég get valið að vera ekki vonlaus.

Hugleiðing dagsins
Sagt hefur verið að “Ef þú ert ekki í lagi eins og þú ert, þá mun það kosta mikið erfiði að verða betri. En ef þú áttar þig á því að þú sért bara í lagi eins og þú ert, þá mun þér eðlilega batna.” Stundum gerist það að við endum í aðstæðum sem sem eru svo erfiðar að þær virðast óleysanlegar. Þeim mun meira sem við hugsum um þessar aðstæður, þeim mun meir gefumst við upp fyrir okkar eigin ímynduðu vanhæfni til þess að takast á við vandamálið – og við sökkvum í þunglyndi. Þá er rétta stundin til þess að rifja upp orðatiltæki, slagorð eða heimspeki, og segja það aftur og aftur í huganum, uns það hreinsar hugann af öllum hugsunum um vandamálið – sem, í lok dags, leysist af sjálfu sér.

Gleymi ég stundum að ef það eru þyrnar þá er líka rós ?

Bæn dagsins
Megi ég sjá að guð gaf okkur mynstur svo við getum leitað huggunar í andstæðum – dagur fylgir nótt; þögn fylgir skarkala; kærleikur fylgir einmannaleika; lausn fylgir kvölum. Ef ég er vanmáttugur, megi ég gera mér grein fyrir því og reyna að gera eitthvað uppbyggilegt. Ef ég er ónærgætinn, megi vinir mínir þá standa uppi í hárinu á mér uns ég verð nærgætinn.

Minnispunktur dagsins
Fátt er með öllu illt að ei boði gott. Vandamál taka enda.

Hugleiðing dagsins
Sem virkur spilafíkill var ég allt of kunnugur þunglyndi, þeirri uppsöfnun myrkra tilfinninga sem virtist hvolfast yfir mig með reglulegu millibili. Jafnvel nú, þegar mér finnst ég ekki ná þeim framförum sem ég býst við, þegar ég býst við kúyvendingu í andlegri líðan á örskotsstundu, þá getur þessi gamli djöfull komið þegar síst skyldi – ef ég geri honum það kleift.

Geri ég mér grein fyrir að væntingar mínar um fullkomnun eru í réttu samhengi við það þunglyndi sem ég finn fyrir? Viðurkenni ég að í dag, þegar ég er í bat, þá er þunglyndi síður til þess að draga úr mér þrótt og að ég get gert eitthvað í því?

Bæn dagsins
Þegar þunglyndi virðist vera við það að draga úr mér allan þrótt, megi ég þá setja mér skynsamleg, smá markmið – jafnvel svo lítil sem bara að segja góðan dag við barn, þvo upp minn eiginn kaffibolla, taka til á skrifborðinu, biðja stuttrara bænar. Megi ég losa mig við handritið að uppgjöf sem ætíð kom mér í djúpt þunglyndi.

Minnispunktur dagsins
Of háleit markmið koma mér í koll.

Hugleiðing dagsins
Oft hefur verið sagt við okkur að spilafíklar séu haldnir fullkomnunaráráttu, óþolinmóðir gagnvart hverjum annmarka – sérstaklega okkar eigin. Við eigum það til að setja okkur markmið sem er ómögulegt að ná en við rembumst samt eins og rjúpan við staurinn að ná þeim. Þegar við svo stöndum ekki undir þessum háleitu markmiðum – sem engin manneskja í raun getur staðið undir – þá finnst okkur við hafa mistekist. Vonbrigði og þunglyndi sækir að okkur og í vonskukasti refsum við sjálfum okkur fyrir að vera ekki ofurmenni. Og næst þegar við setjum okkur markmið, í stað þess að hafa markmiðin raunsærri, þá setjum við okkur jafnvel enn óraunhæfari markmið. Og okkur mistekst enn hrapalegar og refsum okkur enn harðar.

Er ekki kominn tími til þess að ég hætti að setja sjálfum mér og fólkinu í kringum mig óraunhæf markmið?

Bæn dagsins
Megi guð mýkja mína eigin ímynd af sjálfum mér sem ofurmanneskju. Megi ég sætta mig við minna en fullkomnun frá sjálfum mér, sem og frá öðrum. Því einungis guð er fullkominn og ég er takmarkaður – af því að ég er mennskur.

Minnispunktur dagsins
Ég er ekki guð; ég er mennskur.

Hugleiðing dagsins
Þó svo að ég hafi stundum beðið til guðs hér áður fyrr, þá var það ekki fyrr en ég hafði verið í GA í nokkra mánuði að ég áttaði mig á því að bænir mínar voru á röngum forsendum. Eg hafði átt í samningaviðræðum við guð og beðið hann um að uppfyllia óskir mínar í stað þess að segja “verði þinn vilji.” Niðurstaðan varð auðvitað sú að ég var áfram fullur af sjálfsblekkingum og var þar af leiðandi +ofær um að meðtaka þá náð sem myndi hjálpa mér á braut til heilbrigðara lífs.

Sé ég nú, að hér áður fyrr var ég vanur, þegar ég bað til guðs, að biðja hann um að láta 2 plús 2 vera eitthvað annað er 4?

Bæn dagsins
Megi ég líta til baka og gera mér grein fyrir því að ég var vanur að biðja til guðs um lausnir sem ég taldi vera bestar, út frá mínum sjónarhóli. Megi ég efast, þegar ég horfi til lengri tima, um það hvort þessar lausnir/óskir hefðu verið réttar, hefði guð kosið að uppfylla þær. Nú, þegar ég lít til baka, megi ég þá gera mér grein fyrir því að óskir mínar voru ekki ýkja vel grundaðar né heldur skynsamlegar. Megi ég vera sáttur við að treysta guði.

Minnispunktur dagsins
Verið getur að guð láti ekki hlutina gerast eftir mínu höfði.

Hugleiðing dagsins
Stundum, þegar vinir innan og utan GA segja okkur hve vel okkur gangi, þá vitum við innst inni að í raun og veru þá gengur okkur ekki alveg nógu vel. Við eigum enn í vandræðum með að höndla lífið og að takast á við raunveruleikann. Á slíkum stundum grunar okkur að það hljóti að vera galli á ástundun okkar á andlegu hliðinni. Líkur eru á að vandræði okkar stafi annað hvort af misskilningi eða vanrækslu á Ellefta Sporinu – bæn, hugleiðsla og leiðsögn Æðri Máttar. Hin Sporin geta haldið flestum okkar spilalausum og virkum. En Ellefta Sporið getur stuðlað að andlegum vexti – svo lengi sem við leggjum okkur fram og ástundum það.

Treysti ég takmarkalausum guði frekar en takmörkuðum sjálfum mér?

Bæn dagsins
Ég bið þess að andleg meðvitund mín dýpki, að ég öðlist sterkari trú á hinu Óséða, fyrir nánari samskiptum við minn Æðri Mátt. Megi ég átta mig á að vöxtur minn í GA prógraminu hangir saman við andlegan þroska. Megi ég fela meira af trausti mínu í hendur óendanlegrar visku guðs.

Minnispunktur dagsins
Ég mun ekki gefast upp né heldur láta mér fallast hendur. Ég mun gefast undir visku guðs.

Hugleiðing dagsins
Þegar ég vakna þá ætla ég að hugsa í ró um næstu 24 stundir. Ég ætla að biðja guð að stýra hugsunum mínum og biðja sérstaklega um það að verða laus við sjálfsvorkun og óheiðarleika. Ef ég þarf að velja á milli hugsanlegra leiða þá ætla ég að biðja guð um innblástur, um hugusn gædda innsæi eða ákvörðun. Að því loknu ætla ég að slaka á, vitandi að allt mun fara vel.

Get ég trúað því að með því að gefa upp “rétt” minn til væntinga, þá mun ég kynnast frelsi?

Bæn dagsins
Ég lofa guð fyrir það að geta lofað guð, að geta valið hvenær ég leita til hans, að geta fundið mín eigin orð þegar ég tala til hans, að ávarpa hann á þann hátt sem mér finnst vera tilhlýðilegur. Megi ég um leið gera mér grein fyrir því að Hann verður að vera laus undan mínum væntingum, að Hann hafi þau áhrif á líf mitt sem Hann telur nauðsynleg.

Minnispunktur dagsins
Hver er ég að segja guði fyrir verkum?

Hugleiðing dagsins
Í Rauðu bók GA samtakanna stendur – þegar Ellefta Sporið er útskýrt “Meðvitað samband virðist eiga upptök sín í bæn. Hvað er bæn? Fyrir suma er það spjall, á persónulegum nótum, við þeirra Æðri Mátt. Í raun getur hvert og eitt okkar hagað sínum bænum hvert á sinn hátt.” Ef þú átt erfitt með að biðja eða veist ekki hvernig þú átt að bera þig að þá getur þú alltaf “feikað það þar til þú meikar það.” “Með tímanum mun bænin verða þér fullkomlega eðlileg og þú munt finna hversu mikið hún færir þér…. Bænin eykur getuna til þess að ráða fram úr því sem þú ert að takast á við.”

Hef ég samþykkt bæn og hugleiðslu sem hluta af mínu lífi?

Bæn dagsins
Ég lofa minn Æðri Mátt fyrir það frelsi sem hann hefur gefið mér til þess að finna minn skilning á Guði. Megi líf mitt verða Guðs, hvort sem ég sé hann sem Föður, hvers hendi og anda ég geti snert með því að teygja mig eftir því, eða sem alheims Anda sem ég get sameinast þegar hörð ytri skel “sjálfs” míns byrjar að molna, eða sem kjarna Guðdóms og fullkominnar góðmennsku sem býr í brjósti mér. Megi ég þekkja Hann vel, hvort sem ég finn hann innra með mér, ytra með mér eða í öllum hlutum alls staðar.

Minnispunktur dagsins
Ég þakka Guði, eins og ég skil Hann, fyrir skilning minn á Honum.