GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in November, 2024

Hugleiðing dagsins
Skáld nokkur sagði eitt sinn; Maðurinn kynnist sjálfum sér með hjálp mótlætis. Þetta á við um mig og jafnvel líka þegar um ímyndað mótlæti er að ræða. Ef ég, til dæmis, ímynda mér að önnur manneskja muni bregðast við á ákveðinn hátt í tilteknum aðstæðum – og viðkomandi bregst svo við á annan hátt – þá á ég tæplegast rétt á því að verða vonsvikinn eða reiður. Þrátt fyrir það þá finn ég einstaka sinnum fyrir vonbrigðum þegar fólk bregst ekki við eins og ég held að það ætti að gera. Svona ímyndað – eða réttara sagt sjálfskapað – mótlæti sýnir mér hinn gamla mig, þann sem vildi stjórna allt og öllu í kringum sig.

Er ekki kominn tími fyrir mig að hætta að búast við og fara að sætta mig við.

Bæn dagsins
Megi ég hætta að setja orð í munn fólks, forrita – í eigin huga – þau til þess að bregðast við eins og ég reikna með að þau eigi að gera. Slíkar væntingar brugðust mér áður; ég vænti óskilyrtrar ástar og verndar frá mínum nánustu, fullkomnunar frá sjálfum mér, fullrar athygli frá kunningjum. Og á neikvæðum nótum þá bjóst ég við að mér myndi mistakast og höfnun frá öðrum. Megi ég hætta að fá að láni vandræði – eða sigra – frá framtíðinni.

Minnispunktur dagsins
Sátt. Ekki væntingar.

Hugleiðing dagsins
Ég er farinn að að mæla árangur á algjörlega nýjan hátt. Árangur minn í dag er ekki bundinn við félagsleg eða efnahagsleg viðmið. Ég næ árangri í dag, sama hvað ég tek mér fyrir hendur, þegar ég nota þann mátt guðs sem býr innra með mér og leyfi sjálfum mér að verða opinn farveg fyrir birtingarmynd góðmennsku hans. Ég finn fyrir breyttu hugarfari, hugarfari árangurs sem birtist sem aukinn skilningur og víðsýni. sem skapandi hugmyndir og notadrjúg aðstoð – sem árangursrík nýting á tíma mínum og orku, og sem samstillt átak með öðrum.

Ætla ég að hafa í huga að innra með mér er afl, sem mér hefur verið gefið af guði, sem ég get nýtt til þess að ná árangri?

Bæn dagsins
Megi ég móta með mér nýjan skilning á árangri. Skilning sem byggist á þeim mælanlegu gæðum sem eiga rót í góðmennsku guðs. Ég get notið þeirra gæða með því einu að horfa inn á við. Megi ég gera mér grein fyrir því að einu tryggu gæðin eru gæði guðs, því þau eru ótæmandi. Megi ég líta til guðs ef mig skortir öryggi.

Minnispunktur dagsins
Andleg “velgengni” er mitt öryggi.

Hugleiðing dagsins
Ég er hættur að þrátta við þá sem trúa því að tilgangur lífsins felist í því að uppfylla eðlislægar þrár okkar. Það er ekki okkar hlutverk í GA, að gagnrýna efnishyggju. Ef við stöldrum við og skoðum aðeins fortíðina, þá er varla til sá hópur fólks, sem klúðraði því eins illa og við spilafíklarnir að “lifa hinu ljúfa lífi.” Við vildum alltaf meira en okkur bar – á öllum sviðum. Og meira að segja þegar við virtumst vera á sigurbraut, þá fóðraði það bara áráttu okkar og lét okkur dreyma um enn stærri vinninga. Áráttan var aldrei fullnægð.

Er mér að lærast að efnislegur ávinningur er bara aukaafurð, en ekki aðal markmið lífs míns? Er ég að öðlast það viðhorf sem felst í því að setja persónulegan og andlegan þroska í fyrsta sætið?

Bæn dagsins
Megi ég átta mig á, ef ég skoða sögu mína, að ég höndlaði aldrei ofgnótt. Ég vildi alltaf meira af hverju því sem ég hafði – ást, vinningum, peningum, eignum, hlutum. Megi GA prógramið kenna mér að ég verð að einblína á andlega ávinninginn, ekki þann veraldlega.

Minnispunktur dagsins
Það er í fínu lagi að vera gráðugur á andlega sviðinu.

Hugleiðing dagsins
“Ekkert er nóg fyrir þann sem finnst nægilegt vera of lítið,” skrifaði gríski heimspekingurinn Epicurus. Við þurfum, nú þegar við erum laus undan viðjum fjárhættuspila og erum byrjuð að byggja upp sjálfsvirðingu og endurheimta álit vina og fjölskyldu, að passa okkur á því að verða ekki sjálfumglöð í nýfundinni velgengni okkar. Fyrir flest okkar þá hefur velgengni oftar en ekki stigið okkur til höfuðs og það enn hætta á því að það sama gerist, nú þegar við erum hætt að stunda fjárhættuspil. Við ættum að muna, svona til öryggis, að velgengni okkar stafar af náð guðs.

Ætla ég að muna að öll velgengni mín í dag er ekki af mínum völdum heldur guðs?

Bæn dagsins
Megi ég hafa hugfast að það var fyrir náð guðs sem ég fann frelsi – bara svo ég falli ekki í þá gryfju að stoltið fari að telja mér trú um að ég hafi gert þetta allt upp á eigin spýtur. Megi ég læra að höndla velgengina með því að þakka guði fyrir hana, en ekki með því að þakka mínu eigin vafasama ágæti.

Minnispunktur dagsins
Læra að höndla velgengni.

Hugleiðing dagsins
Ansi margir félagar í GA halda enn fast í gamlar hugmyndir og afstöðu, einfaldlega af ótta við varnarleysi ef þeir viðurkenni að hafa haft rangt fyrir sér. Sú hugsun að “gefa eftir” virðist enn vera ógeðfelld í hugum sumra okkar. En okkur lærist á endanum að sjálfsvirðingin og sjálfsálitið rýkur upp þegar okkur auðnast að halda aftur af eigin stolti og horfast í augu við sannleikann.
Allar líkur eru á þvi að þeir sem búa yfir sannri auðmýkt hafi sterkara og raunverulegra sjálfsálit heldur en þau okkar sem látum stoltið hlaupa með okkur i gönur.

Hindrar stoltið mig, annaðhvort lævíslega eða opinskátt, í því að veita tíunda sporinu ítarlega og viðvarandi athygli?

Bæn dagsins
Megi stoltið halda sig í skefjum, nú þegar ég hef fundið leið til þess að fylgja. Megi ég forðast hina kunnuglegu og eyðileggjandi hringrás stoltisins – eigingirnina – sem á það til að blása út úr öllu samhengi og fjara síðan út. Megi ég læra gildi þess að “gefa eftir.”

Minnispunktur dagsins
Stoltið er erkióvinur sjálfsvirðingar.

Hugleiðing dagsins
Auðmýkt hefur stundum verið skilgreind sem það ástand þegar hugurinn er lærdómsfús. Það má því segja að flest okkar í GA félagsskapnum, sem erum spilalaus, höfum öðlast að minnsta kosti vott af auðmýkt, því við lærðum þó nóg til þess að vera spilalaus. Ég hef áttað mig á að auðmýkt er að vera opinn fyrir því sem aðrir hafa að segja, stöðugt opinn fyrir því að læra.

Sé ég auðmýkt sem leiðina að stöðugum framförum?

Bæn dagsins
Nú, þegar ég hef byrjað að temja mér auðmýkt, megi ég halda því stöðugt áfram. Megi ég vera opinn fyrir vilja guðs og ábendingum vina minna í GA. Megi ég vera lærdómsfús, opinn fyrir gagnrýni, móttækilegur og meðvitaður um að ég verða að halda áfram að vera þannig til þess að viðhalda batanum.

Minnispunktur dagsins
Að halda áfram að vera móttækilegur.

Hugleiðing dagsins
Þegar ég var nýkominn í GA þá var mér sagt að til þess að losna úr heljartökum spilafíknar þá yrði ég að viðurkenna vanmátt minn gagnvart fjárhættuspilum, það yrði fyrsta skrefið í átt að frelsi. Og ég fann fljótt sannleikann í þessum ráðleggingum. Í raun er uppgjöfin algjört grundvallaratriði. En fyrir mig var uppgjöfin bara lítið upphafsskref í átt að því að öðlast auðmýkt. Ég hef lært, af veru minni í GA, að það tekur langan tíma að verða viljugur að vinna í auðmýktinni – þegar auðmýktin ein er takmarkið.

Geri ég mér grein fyrir því að ég breyti ekki heilli ævi af sjálfhverfu á augabragði?

Bæn dagsins
Megi ég reyna að temja mér auðmýkt sem eiginleika sem ég þarf á að halda til þess að komast af, ekki bara til þess að viðurkenna vanmátt minn gagnvart fjárhættuspilum. Fyrsta Sporið er einmitt bara það – fyrsta skrefið í áttina að því að temja mér auðmýkt. Megi ég vera nægilega raunsær til þess að átta mig á að það getur tekið mig hálfa ævina.

Minnispunktur dagsins
Stoltið klúðraði því; gefum auðmýktinni tækifæri.

Hugleiðing dagsins
Trúnaðarmaður minn hvatti mig til þess að finna smá auðmýkt. Því ef þú gerir það ekki, sagði hann, þá ertu að auka stórkostlega hættuna á því að þú farir aftur að spila. Þrátt fyrir að hafa verið uppreisnargjarn alla mína ævi, þá fór ég að ráðum hans; ég byrjaði að reyna að temja mér auðmýkt, einfaldlega vegna þess að ég trúði því að það væri rétt. Ég vona svo sannarlega að sá dagur muni koma þegar megnið af uppreisnargirni minni verður minningin ein, að ég muni stunda auðmýkt einvörðungu vegna þess að ég líti á það sem leið til þess að lifa lífinu.

Er ég viljugur til þess að temja mér auðmýkt í dag, þó ekki væri nema í augnablik? Mun ég læra að þrá þá tilfinningu sem fylgir því að vera auðmjúkur?

Bæn dagsins
Þar sem ég – eins og svo margir spilafíklar – er uppreisnargjarn, megi ég þá gera mér grein fyrir því að ég þarf að átemja mér auðmýkt. Megi ég gera mér grein fyrir því að aðmýkt er ekki auðveld uppreisnargjörnum einstaklingum, hvort sem viðkomandi er þrjóskur, fastur á sínu, neikvæður að eðlisfari eða einfaldlega staðráðinn í því að breyta öllu öðru en sjálfum sér. Ég bið þess að með því að ástunda auðmýkt þá muni hún verða ósjálfráð fyrir mig.

Minnispunktur dagsins
Hógværð verði að vana.

Hugleiðing dagsins
Tvö orð lýsa allri framþróun og eru um leið mælistika framþróunarinnar; auðmýkt og ábyrgðarkennd. Því hefur verið haldið fram að hægt sé að mæla nákvæmlega allan okkar andlega þroska og uppbyggingu eftir fylgni okkar við þessa tvo staðla. Ég get ekki öðlast sanna auðmýkt nema með því að segja skilið við eigin sjálfhverfu og viðhalda sambandi mínu við minn Æðri mátt. Ég get ekki öðlast ábyrgðarkennd nema með þvi að ná tengingu við raunveruleikann.

Er ég heiðarleg/ur í viðleitni minni til þess að lifa samkvæmt þeim viðmiðum sem felast í auðmýkt og ábyrgðarkennd?

Bæn dagsins
Af öllum þeim góðu orðum og frösum og hugljómunum sem ég hef fengið að heyra, megi ég ætíð muna hvað best þessi tvö; auðmýkt og ábyrgðarkennd. Því þau eru hugsanlega þau erfiðustu að uppfylla – auðmýkt því það merkir að ég verð að losa mig við stoltið, ábyrgðarkennd því ég stundaði það að nota spilafíknina sem afsökun til þess að losna undan ölum skuldbindingum. Ég bið þess að geta rofið mitt gamla mynstur.

Minnispunktur dagsins
Auðmýktin kemur fyrst, síðan ábyrgðarkenndin.

Hugleiðing dagsins
Það er fátt “algilt” í Tólf sporum GA samtakanna. Okkur er í sjálfsvald sett hvar og hvernig við byrjum. Guð, eins og við skiljum hann, er hægt að skilgreina einfaldlega sem “Æðri mátt”; og fyrir mörg okkar var félagsskapurinn í GA okkar fyrsti “Æðri máttur.” Sú viðurkenning á skilgreiningunni á Æðri mætti er skiljanleg fyrir nýliðann í ljósi þess að flestir meðlimir GA samtakanna eru lausir undan oki spilafíknarinnar, oki sem nýliðinn er enn að kljást við. Slík viðurkenning er fyrsta skrefið í átt að auðmýkt. Hugsanlega er nýliðinn þar með í fyrsta sinn, í það minnsta viljugur, til þess að viðurkenna að hann eða hún sé ekki guð.

Er hegðun mín meira sannfærandi fyrir nýlíða heldur en orð mín?

Bæn dagsins
Megi ég skilgreina og uppgötva min eigin Æðri mátt. Eftir því sem sú skilgreining verður mér skýrari og nánari, megi ég forðast það að krefjast þess að minn skilningur sé sá eini rétti. Því hver og einn verður að finna sinn Æðri mátt. Ef nýliðanum finnst hann vera án guðs og einmanna, þá er hugsanlegt að kraftur GA félagsskaparins og hópsins dugi honum í bili. Megi ég aldrei gera lítið úr krafti félagsskaparins.

Minnispunktur dagsins
Máttur félagsskaparins getur verið Æðri máttur.