GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in November, 2024

Hugleiðing dagsins
Tvö orð lýsa allri framþróun og eru um leið mælistika framþróunarinnar; auðmýkt og ábyrgðarkennd. Því hefur verið haldið fram að hægt sé að mæla nákvæmlega allan okkar andlega þroska og uppbyggingu eftir fylgni okkar við þessa tvo staðla. Ég get ekki öðlast sanna auðmýkt nema með því að segja skilið við eigin sjálfhverfu og viðhalda sambandi mínu við minn Æðri mátt. Ég get ekki öðlast ábyrgðarkennd nema með þvi að ná tengingu við raunveruleikann.

Er ég heiðarleg/ur í viðleitni minni til þess að lifa samkvæmt þeim viðmiðum sem felast í auðmýkt og ábyrgðarkennd?

Bæn dagsins
Af öllum þeim góðu orðum og frösum og hugljómunum sem ég hef fengið að heyra, megi ég ætíð muna hvað best þessi tvö; auðmýkt og ábyrgðarkennd. Því þau eru hugsanlega þau erfiðustu að uppfylla – auðmýkt því það merkir að ég verð að losa mig við stoltið, ábyrgðarkennd því ég stundaði það að nota spilafíknina sem afsökun til þess að losna undan ölum skuldbindingum. Ég bið þess að geta rofið mitt gamla mynstur.

Minnispunktur dagsins
Auðmýktin kemur fyrst, síðan ábyrgðarkenndin.

Hugleiðing dagsins
Það er fátt “algilt” í Tólf sporum GA samtakanna. Okkur er í sjálfsvald sett hvar og hvernig við byrjum. Guð, eins og við skiljum hann, er hægt að skilgreina einfaldlega sem “Æðri mátt”; og fyrir mörg okkar var félagsskapurinn í GA okkar fyrsti “Æðri máttur.” Sú viðurkenning á skilgreiningunni á Æðri mætti er skiljanleg fyrir nýliðann í ljósi þess að flestir meðlimir GA samtakanna eru lausir undan oki spilafíknarinnar, oki sem nýliðinn er enn að kljást við. Slík viðurkenning er fyrsta skrefið í átt að auðmýkt. Hugsanlega er nýliðinn þar með í fyrsta sinn, í það minnsta viljugur, til þess að viðurkenna að hann eða hún sé ekki guð.

Er hegðun mín meira sannfærandi fyrir nýlíða heldur en orð mín?

Bæn dagsins
Megi ég skilgreina og uppgötva min eigin Æðri mátt. Eftir því sem sú skilgreining verður mér skýrari og nánari, megi ég forðast það að krefjast þess að minn skilningur sé sá eini rétti. Því hver og einn verður að finna sinn Æðri mátt. Ef nýliðanum finnst hann vera án guðs og einmanna, þá er hugsanlegt að kraftur GA félagsskaparins og hópsins dugi honum í bili. Megi ég aldrei gera lítið úr krafti félagsskaparins.

Minnispunktur dagsins
Máttur félagsskaparins getur verið Æðri máttur.

Hugleiðing dagsins
Hvað, nákvæmlega, er auðmýkt? Þýðir það að við eigum að vera undirgefin, sætta okkur við allt, sama hversu auðmýkjandi það er? Þýðir það að gefast upp fyrir hinu illa og skemmandi í lífinu? Nei, þvert á móti. Kjarni allrar auðmýktar er einfaldlega að löngun til þess að leita að og framkvæma vilja guðs.

Er ég byrjaður að átta mig á því að sönn auðmýkt varpar virðuleika og þokka á mig og styrkir mig til þess að taka skynsamlega og andlega á öllum mínum vandamálum?

Bæn dagsins
Megi ég uppgötva að auðmýkt er ekki að bugta sig og beygja, krjúpa né leyfa öðrum að valta yfir mig – með von um einhvers konar umbun, eins og viðurkenningu eða vorkunn. Sönn auðmýkt er meðvitund um hina viðamiklu ást guðs og styrk. Auðmýkt er að sjá hvernig ég, sem manneskja, tengist guðlegum mætti.

Minnispunktur dagsins
Auðmýkt er vitund um guð.

Hugleiðing dagsins
Þegar ég kom fyrst í GA þá hélt ég að auðmýkt væri annað orð yfir veikleika. En smám saman lærðist mér að það er ekkert ósamræmi á milli auðmýktar og skynsemi, svo fremi að ég setji auðmýkt í fyrsta sæti. Mér var tjáð að um leið og ég byrji að temja mér að gera einmitt það, að setja aumýkt í fyrsta sæti, þá muni ég fá verðlaun sem fælust í trú – trú sem myndi virka fyrir mig á sama hátt og hún hefur gert og mun halda áfram að gera, fyrir fjöldann allan af óvirkum spilafíklum sem hafa fundið bata frá spilafíkn og fundið nýtt líf í GA prógraminu.

Er ég byrjaður að trúa, eins og Heine komst að orði, að “Gjörðir mannanna eru eins og efnisyfirlit í bók, þær benda á það sem er markverðast”?

Bæn dagsins
Megi ég aldrei nota vitsmuni mína sem afsökun fyrir því að sýna ekki auðmýkt. Það er svo auðvelt, ef ég álít sjálfan mig vera þokkalega skynsaman og færan um að taka ákvarðanir og hafa stjórn á eigin lífi, að líta niður á auðmýkt sem eitthvað sem lýsi þeim sem eru ekki eins skynsamir og ég. Megi ég muna að auðmýkt og skynsemi eru hvoru tveggja gjöf frá guði.

Minnispunktur dagsins
Hafi ég enga auðmýkt, þá hef ég enga skynsemi.

Hugleiðing dagsins
Það hefur orðið jafn ómissandi fyrir mig og að anda, að eiga í daglegum samskiptum við guð. Ég þarf ekki að eiga einhvern sérstakan stað til þess að biðja til guðs, því guð heyrir alltaf til mín. Ég þarf ekki að orða bænir mínar á ákveðinn hátt, því guð þekkir nú þegar allar mínar hugsanir og allar mínar þarfir. Það eina sem ég þarf að gera er að beina athygli minni að guði, vitandi að athygli hans er ætíð á mér.

Veit ég að góðir hlutir muni gerast ef ég treysti guði fullkomlega?

Bæn dagsins
Megi samskipti mín við guð verða venjubundinn hluti af mínu lífi, jafn eðlileg og sjálfsögð og hjartslátturinn. Megi ég sjá, eftir því sem ég verð vanari bæninni, að það skiptir mig á minna máli hvar ég bið, hvort sem það er úti í horni, við rúmstokkinn, á kirkjubekk eða annars staðar. Og megi ég líka sjá að hvenær dags ég bið skiptir minna máli. Megi hugur minn leita sjálfkrafa til guðs, hvenær sem ég upplifi kyrrðarstund eða þegar ég þarf á leiðsögn að halda.

Minnispunktur dagsins
Lát bænina verða að vana.

Hugleiðing dagsins
Sumir félagar okkar í GA forðuðust bæn og hugleiðslu eins og heitan eldinn til að byrja með. Þegar þeir á endanum, hikandi og bara til prufu, fóru að prófa sig áfram með bæn og hugleiðslu, þá fóru óvæntir hlutir að gerast og þeim fór að líða öðruvísi. Á endanum fóru þeir, sem höfðu áður gert lítið úr bæn og hugleiðslu, nær undantekningarlaust að iðka slíkt sjálfir. Í GA heyrm við að “nær undantekningarlaust þá eru það bara þeir, sem hafa ekki prófað bæn og hugleiðslu, sem hæðast að því.”

Er einhver þrjóskur hluti af mér sem enn hæðist að bæn og hugleiðslu?

Bæn dagsins
Megi mér lærast, sama hve virðingarlaus ég hef verið, að bænin er ekki hæðnisverð; ég sé mátt hennar endurspeglast í kraftaverkum allt í kringum mig. Hafi ég neitað að biðja, megi ég þá skoða hvort stolt eða dramb sé að flækast fyrir mér – þetta slitna og gamla stolt sem heimtar að fara sínar eigin leiðir. Nú, þegar ég hef fundið stað í mínu lífi fyrir bænina, megi ég taka þann stað frá og varðveita – samviskusamlega.

Minnispunktur dagsins
Hver sá sem lærir að biðja heldur því áfram.

Hugleiðing dagsins
Meðvitað samband mitt við guð byggir einvörðungu á mér og minni löngun til þess að viðhalda því sambandi. Ég get notfært mér styrk guðs hvenær sem er; hvort ég nýti mér hann er mitt val. Sagt hefur verið að “Guð sé til staðar í öllum skepnum, en þær séu misvarar við nálægð hans.” Ég ætla að reyna að minna sjálfan mig á það, á hverjum
degi, hversu mikilvægt það sé að vera meðvitaður um áhrif guðs á líf mitt. Og ég ætla að reyna að þiggja hjálp hans í öllu sem ég geri.

Ætla ég að muna að guð veit hvernig á að hjálpa mér, að hann geti hjálpað mér, og að hann vilji hjálpa mér?

Bæn dagsins
Megi ég vera þess meðvitaður að kraftur guðs og friður eru óþrjótandi gnægtarbrunnur innra með mér. Ég get dregið mér fötu eftir fötu úr þeim brunni og hresst upp á líf mitt og hreinsað. Það eina sem ég þarf að leggja fram er fatan og reipið. Vatnið í brunninum er mitt – ókeypis, ferskt, græðandi og ómengað.

Minnispunktur dagsins
Brunnurin er guðs; ég kem með föturnar.

Hugleiðing dagsins
Hugleiðsla á sér engin mörk. Hún hefur hvorki breidd né dýpt, né heldur hefur hún hæð, sem þýðir að það er endalaust hægt að þróa hana án nokkurra takmarkana. Hugleiðsla er einstaklingsbundin; fæst okkar hugleiða á sama hátt. Því má með sanni segja að hugleiðsla sé persónulegt ævintýri. Fyrir þau okkar, sem iðkum hugleiðslu af alvöru, er tilgangurinn sá sami, að bæta meðvitað samband okkar við guð. Þrátt fyrir að hafa engin mörk og vera óáþreifanlegt, þá er hugleiðsla í raun eitthvað það gagnlegasta sem við getum gert. Einn fyrsti ávinningurinn, sem fæst við að stunda hugleiðslu, er tilfinningalegt jafnvægi. Hvað gæti verið gagnlegra en það?

Er ég að breikka og dýpka farveginn á milli mín og guðs?

Bæn dagsins
Megi ég finna þann frið sem er svo erfitt að útskýra og jafnvægið sem veitir mér yfirsýn yfir lífið, þegar ég leita guðs með hjálp bænar og hugleiðslu. Megi þungamiðja mín miðast við guð.

Minnispunktur dagsins
Guð veitir mér jafnvægi.

Hugleiðing dagsins
Ég fór ekki að huga að Ellefta Sporinu, bæn og hugleiðslu, fyrr en mörgum mánuðum eftir að ég kom í GA. Ég hafði á tilfinningunni að Ellefta Sporið gæti komið sér vel í neyð – til dæmis þegar ég fengi skyndilega spilalöngun – en að öðru leyti þá var það neðarlega á forgangslistanum hjá mér. Á þessum fyrstu dögum mínum í GA þá tengdi ég bæn og hugleiðslu við eitthvað í líkingu við dulspeki og jafnvel hræsni. En ég hef síðar komist að því að bæn og hugleiðsla er áhrifaríkara en mig óraði fyrir. Áhrifin ef bæn og hugleiðslu eru fyrir mig hugarró og styrkur langt umfram það sem ég er fær um á eigin spýtur.

Er ég farinn að finna fyrir friðsæld í stað þjáningar?

Bæn dagsins
Megi ég finna þá leið til guðs sem hentar mér best, þá aðferð við hugleiðslu sem mér finnst best – hvort sem það er með austrænni möntru eða með því að nafn Jesú, eða bara með því að leyfa anda guðs, eins og ég skil hann, að flæða um mig og færa mér frið. Megi ég læra að bera kennsl á minn Æðri Mátt og nærveru hans – ekki bara á kyrrðartímum heldur á öllum stundum lífs míns.

Minnispunktur dagsins
Hugleiðsla er að verða móttækilegur fyrir anda guðs.

Hugleiðing dagsins
Teilhard de Chardin (franskur heimspekingur) orðaði eftirfarandi; “Við erum ekki mennskar verur með andlega tilveru. Við erum andlegar verur með mennska tilveru.” Þó svo að við viðurkennum, fræðilega séð, að við seúm andlegar verur, þá þurfa flestir spilafíklar að upplifa einhvers konar andlega vakningu áður en þeir eru tilbúnir til þess að láta vilja sinn og líf í hendur Æðri Mætti. Þá fyrst getum við sagt að við séum andlegar verur. Fyrir sum okkar er um að ræða fyrsta skiptið á ævi okkar sem við verðum fyrir andlegri vakningu. En sama hve andlega sinnuð við vorum áður, þá er það svo að þegar við upplifum andlega vakningu þá verður það ástand sem við sækjumst eftir.

Er ég þakklátur fyrir “vakninguna” sem hefur komið mér í samband við minn Æðri Mátt – og minn andlega kjarna?

Bæn dagsins
Megi ég ekki gleyma því hve sýn minni á lífið, sjálfan mig, vini, ástvini og guð hafði hrakað áður en ég kom í GA. Megi ég gera hvað sem til þarf til þess að koma í veg fyrir að andlegt ástand mitt hrynji. Megi ég vaxa á andlega sviðinu – einn dag í einu.

Minnispunktur dagsins
Lát hið andlega leiða hið mannlega.