GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in November, 2024

Hugleiðing dagsins
Í Rauðu Bók GA stendur: “Hægt er að segja að orðið andlegur lýsi þeim eiginleikum mannshugans sem eru eftirsóknarverðir, eins og góðvild, göfuglyndi, heiðarleiki og hógværð. Þar sem GA félagsskapurinn mælir með því að GA félagar tileinki sér þessa eiginleika, þá er með sanni hægt að segja að félagsskapur okkar er andlegur.” Ég er farinn að átta mig á því að andlega vegferð mín tengist því hve heilsteyptur ég er – því hve samkvæmur sjálfum mér ég er varðandi sannleikann, eins og hann birtist mér og mínum innra manni.

Reyni ég stöðugt að tileinka mér þá eiginleika sem færa mér varanlega hamingju?

Bæn dagsins
Megi ég vinna að því að ávinna mér “bestu eiginleikana” sem skilgreina mig andlega. Megi ég kynnast þeirri gleði sem fylgir því að lifa lífinu á þann hátt sem GA mælist til, uns öll uplifun verður ánægjuleg og ég fæ notið hennar með öðrum, sem eru eins og ég, að lifa samkvæmt þessum lífsreglum, sem guð hefur fært okkur.

Minnispunktur dagsins
Frá andlegu tómarúmi yfir í andlega fyllingu.

Hugleiðing dagsins
Eftir því sem við ástundum meiri sjálfsskoðun, þeim mun betur áttum við okkur á því hversu oft við brugðumst við á neikvæðan hátt vegna þess að “stolt okkar var sært.” Stolt mitt og dramb er rótin að flestum persónulegum vandamálum mínum. Þegar stolt mitt er “sært”, svo dæmi sé tekið, þá upplifi ég nánast undantekningarlaust gremju og reiði – stundum að því marki að ég er ófær um að tala eða hugsa skynsamlega. Þegar ég er í slíku tilfinningalegu feni, þá verð ég að minna sjálfan mig á að það er stolt mitt – og einvörðungu stoltið – sem hefur særst. Mér farnast best, á slíkri stundu, að reyna að slaka á og taka smá pásu uns ég er aftur fær um að vega og meta vandamálið á raunsæan hátt.

Þegar stolt mitt er sært eða því ógnað, mun ég þá biðja um auðmýkt svo ég geti risið upp yfir hið gamla sjálf?

Bæn dagsins
Megi ég vita að þó svo að stolt mitt sé sært þá þarf ekki að vera að ég hafi skaðast á nokkurn annan hátt. Megi ég vita að stolt mitt getur þolað ýmislegt og samt risið aftur sterkara en nokkru sinni áður. Megi ég vita að í hvert sinn sem stolt mitt verður fyrir höggi, þá er það allt eins líklegt til þess að verða illgjarnara, fara í meiri vörn, ósanngjarnara og hvassara. Megi mér lærast að setja hið uppskafða stolt mitt á sinn stað, þangað sem það verður ekki svo auðveldlega sært – eða svo viljugt til þess að eigna sér allan heiðurinn.

Minnispunktur dagsins
Auðmýkt er eina boðvaldið yfir stoltinu.

Hugleiðing dagsins
Þeir GA félagar sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir í GA prógraminu – og um leið þeir sem ég hef lært mest af – virðast sannfærðir um það að dramb sé, eins og einn orðaði það, “grunn-syndin.” Í trúarlegri siðfræði er dramb fyrsta af höfuðsyndunum. Dramb er jafnframt talið alvarlegast, sker sig úr hópnum sakir einstæðra eiginleika sinna. Dramb treður sér inn í andlega sigra okkar. Það smeygir sér inn í öll okkar afrek og velgengni, jafnvel þau sem við eignum Guði.

Streitist ég gegn drambinu með því að vinna Tíunda Sporið reglulega, horfandi í augu við sjálfan mig og leiðrétti það sem aflaga fer?

Bæn dagsins
Megi ég stöðugt vera á verði gagnvart laumulegum aðferðum drambsins, sem reynir ætíð að troða sér inn í hvert afrek, hvern sigur, hvern endurgoldin hlýhug. Megi ég gera mér grein fyrir að hvenær sem hlutirnir ganga vel hjá mér, þá er drambið á staðnum tilbúið til þess að eigna sér heiðurinn. Megi ég vera á varðbergi gagnvart því.

Minnispunktur dagsins
Setjum drambið á sinn stað.