GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in December, 2024

Hugleiðing dagsins
Stundum gerist það, á þessum erfiðu dögum sem við upplifum öll endrum og sinnum, að það virðist vera að guð vilji ekki að við séum hamingjusöm. Að hann heimti að við upplifum kvöl og þjáningu í þessu lífi til þess að geta lifað hamingjusöm í því næsta. GA prógramið hefur sýnt mér fram á að þessu er reyndar öfugt farið. Guð vill að ég sé hamingjusamur hér og nú. Ef ég leyfi því að vera svo, þá mun guð jafnvel sýna mér hvernig ég geti látið það rætast.

Neita ég stundum, í þrjósku minni, að sjá leiðina sem guð er að benda mér að fara?

Bæn dagsins
Ég bið þess að ég taki mér ekki hlutverk þess sem þjáist að eilífu, velti mér ekki upp úr harmleiknum og láti sem þjáning sé eini aðgöngumiðinn að himnaríki. Megi ég þess í stað opna augun fyrir grósku jarðar og kærleika hennar, sem er nægur vitnisburður þess að lífi okkar sé ætlað annað og meira en hrösun eftir hrösun. Megi ranghugmyndir um illviljaðan guð, sem bíður færis að leggja fyrir okkur gildru, ekki afbaka samband mitt við kærleiksríkan og fyrirgefandi Æðri Mátt.

Minnispunktur dagsins
Lífið er annað og meira en þjáningin ein.

Hugleiðing dagsins
Sumt fólk er svo miklir kvíðasjúklingar að þeim líður illa ef þau hafa ekki eitthvað til þess að hafa áhyggjur af. Nýliðinn á það til dæmis til að hugsa með sér “Þetta er of gott til að endast.” Flest okkar hafa nóg af raunverulegum áhyggjum – gömlum skuldum, heilsunni, dauðanum og sköttum, svo eitthvað sé nefnt. GA kennir okkur aftur á móti að það sem virkar best gegn kvíða er traust og tiltrú – ekki á okkur sjálf heldur á okkar Æðri Mátt.

Mun ég halda áfram að trúa því að guð geti og vilji bægja frá ógæfunni sem ég kvíði dag og nótt? Mun ég trúa því að ef ógæfan dynur yfir þá muni guð gera mér kleift að komast í gegnum hana?

Bæn dagsins
Megi ég gera mér grein fyrir því að það muni taka meira heldur en bara tíma að vinna bug á kvíðavananum – kvíða sem sprettur af einhverjum óskilgreindum ótta. Líkt og margir aðrir, þá hef ég lifað með kvíða og áhyggjum svo lengi að það hefur orðið fastur hluti af lífi mínu. Megi minn Æðri Máttur kenna mér að það að gera kvíðann að félaga mínum er eyðsla á orku og dregur úr getu minni.

Minnispunktur dagsins
Losum okkur við kvíðavanann.

Hugleiðing dagsins
Sumum okkar, sem erum félagar í GA, hættir til að gera þau mistök að halda að þær fáu stundir sem eyðum í bæn og hugleiðslu – í að “tala við guð” – séu allt sem til þarf. Sannleikurinn er sá að það er viðhorfið og afstaðan sem við viðhöldum í gegnum daginn sem er alveg jafn mikilvægt. Ef við felum sjálf okkur guði að morgni hvers dags, og erum reiðubúin til þess í gegnum daginn að sætta okkur við vilja hans, þá mun sú sátt, það samþykki, verða að samfelldri bæn.

Get ég reynt að þroska með mér það viðhorf að vera fyllilega sáttur/samþykkur á hverjum degi?

Bæn dagsins
Megi ég viðhalda sambandi við minn Æðri Mátt í gegnum allan daginn, en ekki bara með því að tékka inn til þess að biðja endrum og sinnum. Megi samskipti mín við guð aldrei verða að tilfallandi viðburði. Megi ég gera mér grein fyrir því að í hvert sinn sem ég hegða mér samkvæmt vilja guðs þá er ég að lifa í bæn.

Minnispunktur dagsins
Bænin er viðhorf.

Hugleiðing dagsins
Vinkona mín í GA sagði mér frá uppáhalds sálminum sínum úr bernsku: “Opna augu mín svo ég megi sjá svipmynd sannleikans sem þú ætlar mér.” Og það er í raun það sem GA prógramið hefur gert fyrir mig – það hefur opnað augu mín fyrir raunveruleikanum sem felst í spilafíkn minni og einnig fyrir því gleðiríka lífi sem ég get öðlast ef ég tileinka mér þau gildi sem felast í Tólf Sporum GA.

Er ég, með því að stunda bæn og hugleiðslu, að styrkja og efla sjálfsþekkingu mína það mikið að ég sé farinn að sjá kærleika guðs að verki í sjálfum mér og því sem ég tek mér fyrir hendur?

Bæn dagsins
Megi þau sannleikskorn, sem ég glitti í þegar ég vinn Sporin, byrja að safnast saman og mynda skínandi leiðarstjörnur. Megi ég vita að slíkar stjörnur eru allt sem ég þarf til þess að komast á beinu brautina. Megi ég losna undan þeirri þörf að stoppa í hverri höfn til þess að finna leiðina. Þessar leiðarstjörnur eru ætíð til staðar fyrir mig til þess að finna réttu leiðina.

Minnispunktur dagsins
Finndu leiðarstjörnurnar og fylgdu þeim.

Hugleiðing dagsins
Ef ég er að fara í gegnum erfiða og krefjandi reynslu þessa dagana, þá get ég gert í anda öryggis og trausts. Þökk sé GA og Tólf Sporunum, þá hef ég öðlast þá fullvissu að guð sé með mér á öllum stundum og í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Andi guðs er í mér sem og í fólkinu í kringum mig. Og fyrir bragðið þá líður mér jafnvel notalega í nýjum kringumstæðum sem og á meðal ókunnugra.

Mun ég halda áfram að fylgja prógraminu og vaxa fyrir bragðið, treystandi því að kærleikur guðs sé að verki í mér og mínu lífi?

Bæn dagsins
Megi hughreysting guðs vera með mér í öllum aðstæðum, kunnugum sem ókunnugum. Megi hann endurreisa molnandi stoðir sjálfstrausts míns. Megi ég viðurkenna tilvist guðs í mér og í öðrum í kringum mig. Megi sú sameiginlega upplifun hjálpa mér til þess að eiga í samskiptum, sem eru byggð á heiðarleika, við aðra. Ef ég get lært að treysta guði þá get ég lært að treysta þeim sem deila þessari jarðvist með mér.

Minnispunktur dagsins
Guð kennir mér að treysta.

Hugleiðing dagsins
Áður en ég kynntist GA prógraminu – í reynd, áður en ég vissi af tilvist GA – þá einkenndist líf mitt af hverri kreppunni á fætur annarri. Einstaka sinnum reyndi ég að nota viljastyrkinn til þess að komast á aðra braut, en eins og skip án stýris, þá strandaði ég undantekningarlaust á hindrunum eigin örvæntingar. Í dag nýt ég aftur á móti leiðsagnar míns Æðri Máttar. Og stundum eru skilaboðin sem ég fæ einföld; kyrrð, friður og fullvissa um að allt sé í lagi.

Mun ég reyna að vera þess fullviss að hlutirnir séu að fara á þann veg sem er til góðs fyrir alla hlutaðeigandi, þó svo að ég þurfi hugsanlega að bíða eftir niðurstöðum eða leiðsögn?

Bæn dagsins
Megi ég ekki vænta þess að komast samstundis í samband við minn Æðri Mátt. Megi ég hafa biðlund og þolinmæði til þess að hlusta og skynja að guð sé nálægur. Megi ég taka hinni nýju tilfinningu sem felst í hlýju og friðsæld, sem leið guðs til þess að fullvissa mig að nú sé ég, loksins, farinn að taka réttar ákvarðanir.

Minnispunktur dagsins
Þolinmæði: Skilaboð guðs munu berast.

Hugleiðing dagsins
Hef ég einhvern tíma stoppað til þess að spá í hvort skyndihvötin til þess að “blása út” og segja eitthvað kaldranalegt eða jafnvel kvikindislegt, muni, ef ég læt undan henni, meiða mig mun meira en þann sem ég ætlaði að móðga? Ég verð ætíð að passa upp á að kyrra hugann svo ég hegði mér ekki á hvatvísan eða óvinsamlegan hátt, því hugur minn getur verið – í orðsins fyllstu merkingu – sá mesti óvinur sem ég hef kynnst.

Ætla ég að horfa áður en ég stekk, hugsa áður en ég tala, og reyna að forðast sjálfs-viljann eins og mér er framast unnt?

Bæn dagsins
Megi ég muna að köst mín og sprengingar, uppfull af ásökunum og móðgunum, meiða mig jafnmikið og þann sem þeim er beint að. Megi ég reyna að láta ekki skap mitt og reiði verða að kasti, með því einfaldlega að bera kennsl á reiðina og ofsann og viðurkenna tilvist þeirra.

Minnispunktur dagsins
Látum lokið vera laust.

9.desember

No comments

Hugleiðing dagsins
Henry Ward Beecher skrifaði; “Erfiðleikar eru sendiferðir guðs og þegar við erum send í eina slíka þá ættum við að líta á það sem sönnun á velþóknun guðs.” Ég er byrjaður að sjá að gömlu vandamálin mín voru í raun af mínum eigin völdum. Þó svo að ég hafi ekki séð það á þeim tíma, þá var ég fullkomið dæmi um það sem í GA prógraminu er kallað “óskundi af völdum sjálfs-vilja.” Í dag tek ég erfiðleikum sem merki um tækifæri til þess að vaxa og þroskast og sem sönnun á trausti guðs á mér.

Trúi ég því að guð mun aldrei ætla mér meira en ég get tekist á við?

Bæn dagsins
Megi ég trúa því staðfastlega að guð hafi trú á mér til þess að takast á við eigin vanda, að þau vandamál sem ég stend frammi fyrir séu í réttu hlutfalli við styrk minn og getu mína til þess að standa undir þeim og halda haus. Megi ég líka skilja að það er trú mín á guði sem kemur í veg fyrir að ég brotni niður.

Minnispunktur dagsins
Guð hefur trú á mér, vegna þess að ég hef trú á guði.

Hugleiðing dagsins
Við sjáum oft félaga í GA – biðja heitt og innilega – um leiðsögn guðs í málefnum allt frá miklum erfiðleikum yfir í litilvæg málefni eins og hvað eigi að reiða fram í veislu. Þó svo að þessir félagar meini vel þá er þeim hætt við að þröngva sínum vilja inn í allar aðstæður – í þeirri fullvissu að þau séu að fylgja vilja guðs. Í rauninni eru slíkar bænir ekkert annað en sjálfs-afgreiðsla á heimtingu á “svari” frá guði; þær tengjast lítið því sem GA prógramið mælir fyrir um í Ellefta Sporinu.

Reyni ég eftir fremsta megni að kynna mér rækilega hvert og eitt af Sporunum, og hafa þau að leiðarljósi í hverju sem ég tek mér fyrir hendur?

Bæn dagsins
Megi ég ekki gera þau algengu mistök að útlista mínar eign lausnir fyrir guði og biðja síðan um samþykki hans á þeim. Megi ég grípa sjálfan mig ef ég er ekki nægilega opinn fyrir leiðsögn guðs. Og passa mig á því að vera ekki að biðja um samþykki hans né velþóknun á því sem ég vil að gerist.

Minnispunktur dagsins
Er ég að leita að velþóknunarstimpli guðs?

Hugleiðing dagsins
Á meðan ég held þrjóskulega í þá sannfæringu að mér nægi að lifa samkvæmt eigin greind og eigin styrk þá er virk trú á minn Æðri Mátt útilokuð. Þetta er sannleikurinn, sama hve heitt ég trúi á tilvist guðs. Trú mín á hið andlega – sama hve einlæg hún er – mun ætíð vera andvana ef ég held áfram að leika guð. Það sem þetta þýðir er að á meðan við setjum traust á okkur sjálf í fyrsta sætið, þá er raunverulegt traust á Æðri Mátt ekki inni í myndinni.

Hve sterk er löngun mín til þess að framkvæma vilja guðs?

Bæn dagsins
Ég bið þess að ég setji ekki traust á sjálfan mig ofar trausti á guð. Megi ég vita að það skapast enginn árekstur af því að taka ábyrgð á eigin gjörðum, sem mér hefur verið kennt að sé kjarninn í því að þroskast, og því að leita til guðs um leiðsögn. Megi ég muna að ef ég held mig við “að gera það sjálfur” regluna, þá er það svipað og að neita að þiggja leiðsögn þegar maður er áttavilltur – og ráfa endalaust um villtur og týndur.

Minnispunktur dagsins
Þroski er að vita hvar hjálpar er að vænta.