GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in February, 2025

5.febrúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Ef ég er áhyggjufullur, fullur vonleysis, argur eða á í erfiðleikum, hneigist ég þá til þess að réttlæta aðstæðurnar og kenna öðrum um? Þegar ég er í slíku ástandi, hættir mér þá til þess að segja, “Hann sagði….,” “Hún gerði…….,” “Þau gerðu…….”? Eða get ég í hreinskilni viðurkennt að hugsanlega sé annmarkann að finna hjá mér? Hugarró mín á allt undir að mér takist að yfirvinna þessi neikvæðu viðhorf mín og þá tilhneigingu mína að réttlæta alla skapaða hluti.

Ætla ég að reyna, dag eftir dag, að vera stranglega heiðarlegur gagnvart sjálfum mér?

Bæn dagsins
Megi ég standa sjálfan mig að verki, þegar ég nota þriðju persónu í setningum eins og; “Hann sagði….” eða “Þau lofuðu……” eða “Hún sagði að hún myndi……” og hlusta eftir sakbendingunni, sem var orðin að mynstri hjá mér og viðhélt ranghugmyndum og sjálfsblekkingu. Megi ég þess í stað snúast á hæli og horfast í augu við sjálfan mig.

Minnispunktur dagsins
Heiðarleiki er eina stefnan.

4.febrúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Hann er vandfundinn sá spilafíkill, sem er í bata, sem þrætir fyrir að afneitun sé eitt af megineinkennum sjúkdómsins. Í GA prógraminu lærist okkur að sjúkleg spilamennska sannfærir spilafíkilinn um að hann eða hún sé í raun alls ekki sjúk/-ur. Það er því ekki undarlegt að þegar við vorum virkir spilafíklar þá einkenndist líf okkar af endalausum réttlætingum og óheiðarleika, eða í stuttu máli, staðföstum vilja til þess að horfast ekki í augu við þá staðreynd að við vorum í raun og án alls vafa tilfinningalega og andlega frábrugðin öðrum manneskjum.

Hef ég viðurkennt fyrir sjálfum mér að ég hafi í raun enga stjórn á spilafíkninni?

Bæn dagsins
Megi ég fara í fyrsta sporið – ekki með hálfum huga – heldur af algjörri uppgjöf gagnvart fíkninni. Megi ég losa mig við helsta einkenni sjúkdómsins – afneitunina – sem kemur í veg fyrir að ég sjái önnur öll önnur einkenni hans.

Minnispunktur dagsins
Afneitum afneituninni.

3.febrúar

No comments

Hugleiðing dagsins
GA gerir okkur kleift að sjá þær tvær hindranir sem standa í veginum fyrir því að við sjáum þau gildi og þægindi sem fylgja andlegu leiðinni; en það eru sjálfsréttlæting og sjálfumgleði.
Su fyrri blekkir mig til þess að trúa því að ég hafi ætíð rétt fyrir mér. Sú seinni telur mér – ranglega – trú um að ég sé betri en annað fólk.

Ætla ég – í dag – að hinkra við þegar ég byrja að réttlæta eitthvað og spyrja sjálfan mig hví ég sé að gera þetta? Og hvort sjálfsréttlæting sé í raun heiðvirð?

Bæn dagsins
Megi ég yfirvinna þörfina fyrir að hafa alltaf “rétt fyrir mér” og kynnast þess í stað þeirri hreinsandi tilfinningu frelsis sem fylgir því að viðurkenna opinberlega að hafa rangt fyrir sér. Megi ég vera á varðbergi gagnvart þeirri freistingu að gera sjálfan mig að dæmi um sjálfsstjórn og sálarprýði og votta þess í stað virðingu þeim sem á það skilið – mínum æðri mætti.

Minnispunktur dagsins
Það er mannlegt að gera mistök, en ég verð að viðurkenna þau.

2.febrúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Þegar ég horfi um öxl þá sé ég hversu miklum tíma ég hef varið í að velta mér upp úr annmörkum annarra. Þessar vangaveltur hjálpuðu mér, svo sannarlega, að upphefja sjálfan mig en ég sé nú hversu flæktur og rangsnúinn þessi þankagangur var orðinn. Því þegar öllu var á botninn hvolft þá þjónaði þessi hugarleikur engum öðrum tilgangi ein þeim að halda áfram að fela fyrir sjálfum mér mína eigin galla.

Er ég enn að benda á aðra og fela með því eigin galla?

Bæn dagsins
Megi ég gera mér grein fyrir því að sú ásátta mín að vera sífellt að horfa á gallana hjá öðrum var í raun ekkert annað en yfirvarp svo ég þyrfti ekki horfast í augu við eigin galla og um leið leið til þess að lappa upp á stórskemmda sjálfsvirðingu og sjálfsálit. Megi ég strika út ásakanir af lista mínum.

Minnispunktur dagsins
Að ásaka aðra er sjálfsupphafning.

1.febrúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Því lengur sem ég er í GA prógraminu, þeim mun betur verður það mér ljóst af hverju það er mikilvægt fyrir mig að skilja af hverju ég geri það sem ég geri og segi það sem ég segi. Mér verður æ betur ljóst hvernig manneskja ég er. Ég sé til að mynda nú að það er mun auðveldara að vera hreinskilinn og heiðarlegur við annað fólk heldur en við sjálfan mig. Mér hefur og lærst að við erum öll heft af þeirri þörf okkar að þurfa að réttlæta orð okkar og gjörðir.

Er ég búinn að gera reikningsskil í lífi mínu, gera birgðatalningu, eins og mælt er með í tólf sporunum? Er ég búinn að viðurkenna fyrir sjálfum mér og annarri manneskju í hverju brestir mínir felast?

Bæn dagsins
Megi fjórða sporið ekki tefja eða hindra bata minn – það að gerða óttalaus, siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil í lífi okkar – né heldur sá gjörningur að viðurkenna fyrir sjálfum okkur og annarri manneskju nákvæmlega í hverju yfirsjónir okkar fólust. Megi ég vita að heiðarleiki gagnvart sjálfum mér, varðandi sjálfan mig, er mikilvægastur.

Minnispunktur dagsins
Ég get ekki lagfært ef ég hliðra til sannleikanum.