Hugleiðing dagsins
Ef ég dvel við nauðaómerkilega hluti sem pirra mig – og af þeim sprettur gremja sem vex og dafnar eins og órækt – þá gleymi ég hvernig ég gæti verið að víkka sjóndeildarhringinn og víðsýni. Það er, fyrir mig, afbragðs aðferð til þess að halda vandamálum í réttu hlutfalli vi vægi þeirra. Þegar einhver eða eitthvað veldur mér vandræðum, þá ætti ég að reyna að sjá atburðinn í samhengi við allt annað í lífi mínu – sérstaklega það góða og það sem ég skyldi vera þakklátur fyrir.
Vil ég eyða lífi mínu í áhyggjur af smámunum? Smámunum sem þurrka upp andlegt þrek mitt?
Bæn dagsins
Megi Guð forða mér frá því að hafa óþarfa áhyggjur af smámunum. Megi Hann, í staðinn, opna augu mín fyrir mikilfengleika lífsins og hinum endalausu undrum heimsins. Megi Hann veita mér þá víðsýni sem getur smækkað hinar smávægilegu og ergilegu áhyggjur mínar niður í rétta stærð – eins og flugu í dómkirkjuglugga.
Minnispunktur dagsins
Agnarsmár pirringur getur eyðilagt sýn mína.