Spilafíkn…

Flest okkar hafa verið ófús til að játa að við værum í raun spilafíklar. Fæstir vilja trúa því að þeir séu öðruvísi en náunginn. Það er því ekki undarlegt að ferill okkar í fjárhættuspilum hefur einkennst af óteljandi árangurslausum tilraunum til að sanna að við gætum stundað fjárhættuspil eins og annað fólk. Sú hugmynd að einhvern vegin einhvern tíma komi sá dagur að við getum haft stjórn á fjárhættuspili er meinlokan mikla sem þjáir alla spilafíkla. Þessi tálsýn er ótrúlega lífseig. Margir elta hana inn fyrir fangelsismúra, yfir í geðveiki og allt til dauða.

Við komumst að því að við yrðum að játa það fyrir okkar innra manni að við værum spilafíklar. Það er fyrsta skrefið á batavegi okkar. Þá blekkingu að við séum eins og annað fólk þegar um fjárhættuspil er að ræða verður að kveða niður fyrir fullt og allt.

Við höfum glatað hæfileikanum til að stjórna fjárhættuspili okkar. Við vitum að enginn sem er í raun spilafíkill getur náð stjórn á henni á ný. Okkur hefur öllum fundist á köflum að við værum að ná stjórninni aftur en eftir slík tímabil, sem oftast eru stutt, kom óhjákvæmilega stjórnleysi sem leiddi til hörmunga og lamaði allt siðferðisþrek. Við erum sannfærð um að fjárhættuspilarar af okkar tagi séu haldnir síversnandi sjúkdómi. Hann batnar ekki með tímanum heldur versnar. Til þess að lifa hamingjusömu lífi reyndum við því af fremsta megni að fylgja tilteknum grundvallarreglum í daglegu lífi okkar og starfi.